Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:41:37 (2920)

1999-01-06 13:41:37# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er með í höndum starfsáætlun Alþingis fyrir 123. löggjafarþing og þar stendur að Alþingi muni koma saman þann 19. þessa mánaðar. Alþingi setur sér starfsáætlun en það hefur reynst útilokað að standa við hana á liðnum árum vegna þess að reynslan er sú að henni er hagrætt eftir þörfum stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Ein meginástæða þess að ekki er staðið við starfs\-áætlunina er skortur á samráði við stjórnarandstöðuna, við þingflokksformenn. Ég vil taka það fram að forseti Alþingis vill hafa samráð við þingflokksformenn. Mér sýnist, herra forseti, að það sem að er sé að hæstv. forsrh. vill ekki samráð. Hann vill stjórna bæði ríkisstjórn og Alþingi. Þannig á það ekki að vera. Alþingi á að vera sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og ég minni á að fyrir jól þegar ákveðinn var samkomudagur þingsins að loknu jólahléi, þá greiddi stjórnarandstaðan ekki atkvæði. Hvers vegna? Vegna þess að ákvörðunin um komudag Alþingis að loknu jólahléi var gerræðisleg og án samráðs. Ég harma þetta og ég blygðast mín fyrir þann vandræðagang sem sífellt birtist í störfum Alþingis sem á rætur í því samráðsleysi sem ég hef gert að umtalsefni.

Forseti vor vonar að sjútvn. takist að ljúka störfum þannig að við getum hafið störf fyrir helgi. Alþingi á að bíða, vona og sjá hvort unnt er að taka til starfa hér. Þannig á það ekki að vera.

Herra forseti. Ég legg til að fundum Alþingis verði frestað og við komum saman 19. janúar samkvæmt starfsáætlun, hefjum þá störf, bæði um sjávarútvegsmál og öll önnur mál sem bíða.