Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:45:05 (2922)

1999-01-06 13:45:05# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það sérkennilega ákvæði er enn þá í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að forsrh. hefur sérstaklega með það að gera hvenær þing kemur saman. Ákvæði af þessu tagi var í stjórnarskrám annars staðar á Norðurlöndum, í Danmörku til ársins 1953 eða 1954. Atburðirnir í dag staðfesta að þetta ákvæði er úrelt. Eðlilegt væri að þetta ákvæði verði tekið út núna um leið og við fjöllum um breytingar á stjórnarskránni í tengslum við kosningalagabreytinguna og Alþingi sjálft og eitt og forseti Alþingis ráði því hvenær Alþingi er kallað saman, t.d. að loknu jólahléi. Mér finnst að sú niðurstaða sem núna liggur fyrir kalli á að þetta mál verði sett alfarið í hendur þingsins og ekki haft í höndum framkvæmdarvaldsins eins og nú er.

Ég held að líka sé nauðsynlegt að rifja upp að þessi samkomudagur var ákveðinn án samráðs við forustumenn þingflokkanna, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hygg að það hafi ekki gerst um margra ára skeið að svona hafi verið haldið á málinu. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að rifja það upp sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að minni hlutinn í þinginu sat hjá við afgreiðslu á frestunartillögunni sem er óvenjulegt núna um margra ára skeið.

Einnig er nauðsynlegt að rifja upp, herra forseti, að þingflokkur Alþb. óskaði eftir því að sjávarútvegsmálin fengju meðferð í sérstakri nefnd. Því var hafnað. Því var bersýnilegt að lagt var af stað í þetta hlé í fullu ósamkomulagi við stjórnarandstöðuna, ekki aðeins um efni málsins heldur líka um allan umbúnað þess eins og hann lagði sig. Í ljós hefur komið að sjútvn. hefur ekki ráðið við verkefni sitt. Hún hefur ekki ráðið við það verkefni sem henni var falið. Hún gat ekki skilað málinu hingað inn á þessum degi, á þessum klukkutíma, og þess vegna hefði verið eðlilegt að fallast á þá ábendingu, m.a. mína, að í þingfrestunartillögunni hefði staðið að þingið kæmi saman 6. janúar eða síðar eftir nánari ákvörðun en það mátti ekki heldur. Ég mótmæli þessu, herra forseti, um leið og ég tek undir óskir félaga minna úr stjórnarandstöðunni um að þessum störfum verði frestað og þingið komi á ný saman samkvæmt starfsáætlun Alþingis.