Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:47:45 (2923)

1999-01-06 13:47:45# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er viturleg tillaga að fresta þingfundinum og fara eftir áður samþykktri starfsáætlun Alþingis og gefa sjútvn. þannig tíma og aðstöðu til að vinna. Nefndin hefur ekki komið saman síðan á mánudaginn og átti mikið óunnið í þeirri tillögu sem var til umfjöllunar, hvað þá ef skoða ætti nýjar tillögur eða hugmyndir. Þó er ljóst, herra forseti, að sú vinna sem þegar hefur farið fram hefur leitt það fram að efni frv., þó það hafi ekki verið mikið að vöxtum, er flókið og hagsmunir eru miklir.

Ég ætla ekki að fara efnislega inn í málið en ég þarf ekki að segja hv. þingheimi hve stórir þeir atvinnu- og fjárhagslegu hagsmunir eru sem einlægt er verið að fjalla um þegar menn taka til meðferðar lögin um stjórn fiskveiða. Nefndin þarf að fá svigrúm til vinnu. Fráleitt er að kasta til höndum. Ef starfsáætlun er látin standa, herra forseti, gefst slíkt svigrúm. Þess vegna er það góð tillaga sem ég mæli með að farið verði eftir.