Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:55:08 (2927)

1999-01-06 13:55:08# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að þetta mál, sú neyðarlega staða sem er komin upp, dregur auðvitað athyglina að hinu úrelta ákvæði um hlutverk forsrh. í að kveðja saman þingið. Það er hluti af víðtækri niðurlægingu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu sem birtist í þessu úrelta ákvæði.

Að öðru leyti verð ég að segja að málsvörn stjórnarliða er náttúrlega harla bágborin. Það að stjórnarandstaðan lagði á það áherslu fyrir áramót að nauðsynlegt væri að bregðast við þessu máli er ekki sama og að það eigi að kasta til höndunum og drífa það í gegnum þingið, illa undirbúið, og ástunda handarbakavinnubrögð. Það er dapurlegt að heyra jafnvel formann þingflokks koma upp og rugla því saman að það sé nauðsynlegt að kveðja allt þingið saman með dagskrá til að nefndir geti starfað eða þingflokkar hist. Heyr á endemi. Auðvitað liggur það fyrir og það er engin vörn til á móti því að þessi dagsetning var misráðin. Hún var mislukkuð og ég held að stjórnarliðum færi best á því að viðurkenna það.

Ástæða væri til að rekja hvernig starfið hefur gengið fyrir sig eða öllu heldur ekki gengið fyrir sig í sjútvn. Þar hafa engin svör fengist um það hvaða tillögur væru væntanlegar varðandi breytingar á frv. og meiri hlutinn bað um frest og tíma til að ræða það í sínum hópi og síðan hefur enginn fundur verið boðaður. Það er staðan. Það er því tímasóun. Það er verið að sóa tíma þingmanna með þessu ráðslagi, tíma sem menn hefðu gjarnan viljað hafa til annarra pólitískra verkefna eins og venjan hefur verið að menn hafa getað gert í janúar. Það er ámælisvert og gagnrýnisvert að svona ráðslag skuli vera uppi.

Ég vil líka láta það koma fram, herra forseti, að þó að meiri hlutinn kunni að hnoða saman einhverri niðurstöðu verða það engin vinnubrögð ef ætlunin verður síðan að knýja það í gegn út úr sjútvn., kannski á einum degi og síðan í gegnum þingið á einum til tveimur sólarhringum. Það er verið að undirbyggja gersamlega ótæk viðbrögð í þessu máli.