Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 14:31:00 (2950)

1999-01-11 14:31:00# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er gömul íþrótt manna sem eiga erfitt um vik að svara því sem þeir eru spurðir að að snúa svari sínu upp í spurningu til baka. Við heyrðum alveg klassískt dæmi um það hér, eða heyrði hæstv. forseti svar við spurningu minni? Nei, hann heyrði það ekki en hann heyrði hv. formann sjútvn. nota mestallan tíma sinn í að reyna að búa út spurningu á mig í staðinn og ég get svarað henni og skal gera það í ræðu minni hér og fara létt með. Staðreyndin er sú að þótt smábátasjómennskan taki ekki til mjög stórs hluta aflamagnsins sem dreginn er á Íslandsmiðum og segja megi að í dagakerfinu sé bara 1% af aflanum vitum við að það er meira en 1% af sjómönnunum þar. Ég hygg að hv. formaður sjútvn. hafi þá þekkingu á íslenskum sjávarútvegi að hann viti að uppeldi nýrra sjómanna hefur mjög gjarnan farið fram þar, þ.e. að menn byrja þar að stunda sjómennsku sína, byrja sem hásetar á eða útgerðarmenn smárra skipa og þau stækka síðan ef vel gengur. Þess vegna er eðlilegt að horfa á smábátaútgerðina og bátaútgerðina sem skóla í þessu sambandi og sem uppeldisstöð fyrir væntanlega sjómenn. Það hefur löngum verið þannig og ég held það sé farsælt að það sé þannig. Ég er auðvitað ekki að tala um þann möguleika að auðvelda nýjum aðilum aðgengi að greininni bara í gegnum krókaveiðar eða smábáta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum. Það mátti alveg hugsa sér að opna mögulegar leiðir gegnum t.d. einhvers konar reynsluveiðar eins og nú er verið að reyna í Noregi eða fyrirkomulag af því tagi sem er mögulegt í færeyska kerfinu að menn geta unnið sig inn í kerfið. Meiri hlutinn hefur bersýnilega ekki viljað skoða nein önnur möguleg viðbrögð við dómi Hæstaréttar en þau að nota hann sem rök, sem réttlætingu, sem afsökun fyrir því að reyra síðustu leifarnar af frjálsræði í þessu kerfi inn í sundurgreind, framseljanleg réttindi. Ég segi það hér, það er pólitísk ákvörðun sem á ekkert skylt við lögfræði eða möguleg önnur úrræði í þessum efnum.