Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:49:42 (2959)

1999-01-11 15:49:42# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef engar forsendur lagt fyrir stjórnarandstöðuna, hún hefur fullt frelsi til þess að flytja tillögu. Hún hefur lýst því að það eigi að bregðast við með öðrum hætti og það kann vel að vera að í slíkum tillögum kæmi eitthvað nýtilegt fram. Engin útlistun eða grein hefur verið gerð fyrir því hvernig stjórnarandstaðan vill framkvæma sína hluti og ekki er hægt að taka afstöðu til þess fyrr en það liggur fyrir í þingskjölum eða tillögum.

Það kann vel að vera, ekki ætla ég að fullyrða að maður yrði á móti því öllu, ef eitthvað væri skynsamlegt í því þá yrði það að sjálfsögðu tekið til greina.

En hvers vegna fær þingið ekki að taka afstöðu til þessa? Hvers vegna fær þjóðin ekki að sjá þetta? Af hverju á að vera að pukrast með það og halda því fram að það sé eitthvað sem kemur svo aldrei fram? Þessi málflutningur hefur staðið núna í fjögur ár og nú er kjörtímabilið bráðum á enda runnið og aldrei kemur neitt fyrir þingið.