Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:50:46 (2960)

1999-01-11 15:50:46# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég hætt að skilja. Þessi málflutningur hefur staðið í fjögur ár, segir hæstv. ráðherra. Ég stóð í þeirri meiningu að við værum að ræða hér dagskrárefnið Stjórn fiskveiða, frv. sem hæstv. ráðherra flutti og síðan brtt. meiri hluta sjútvn. Ef það er misskilningur, herra forseti, vænti ég þess að það verði leiðrétt hið snarasta ef umræðan í dag á að snúast um eitthvað sem er búið að bíða eftir í fjögur ár.

Hins vegar hvað þjóðina varðar er það nú svo, herra forseti, að hún skilur mætavel hvað stjórnarandstaðan er að tala um enda hefur það hvergi verið falið. Það hefur margoft komið fram og ítrekað og nú síðast í því nál. sem fyrir liggur. Hins vegar er jafnljóst að hæstv. sjútvrh. hefur hvorki kært sig um að hlusta né skilja en það er hlutur sem ég get ekki ráðið við.