Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:53:22 (2962)

1999-01-11 15:53:22# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef aldrei haldið því fram að það ætti að opna öllum aðgang að miðunum á Íslandi. Það sem ég hef verið að tala um eru réttlátar reglur þannig að allir standi jafnir að því að fá aðgang að miðunum á Íslandi. Við erum áreiðanlega sammála um það, ég og hv. þm., að miðin á Íslandi þola hvorki óhefta sókn né heldur teljum við að það sé heppilegt vegna annarra atriða að hér sé óhæfilega stór fiskiskipafloti. Það er því útúrsnúningur eða misskilningur ef hv. þm. hefur lesið orð mín þannig, en ég vil réttláta úthlutun og þess vegna vil ég aðrar úthlutunarreglur.

Einmitt þess vegna óttast ég að það fylgi því spilling þegar menn fara að stýra úthlutun eftir óskýrum reglum. Það er nákvæmlega það sem verið er að bjóða upp á í svokölluðum Byggðastofnunarpotti.