Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:55:31 (2964)

1999-01-11 15:55:31# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég reifaði í ræðu minni áðan ýmis viðhorf varðandi byggðakvóta, varðandi það hvernig væri hægt að fara í þessa hluti, hvaða spurningum þyrfti að svara og hvaða álitaefni þyrfti að skoða. Ég þarf ekki að endurtaka það en ég lýsti því yfir að ef menn vildu fara slíka leið værum við tilbúin til þess en sá tími sem hefur verið gefinn er allt of skammur. Þess vegna þá er þetta vanbúið.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir: Á meðan úthlutunarkerfið er eins og það er getur vel verið að það þurfi alls kyns viðlagasjóði og plástra. Því miður er það svo og það er kannski skýrasta viðurkenningin sem hér liggur fyrir á því hvað úthlutunarkerfi veiðiheimilda er orðið vitlaust og óréttlátt.

Ég vil frekar breyta úthlutunarkerfinu þannig að þar sé jafnræðis gætt en að við förum með það í þann farveg að búa til pott eftir pott, nýjan og nýjan, þrengjum úthlutunarreglurnar, búum til nýjar til að krækja fyrir hver vanda. Það er kerfið sem þeir fullreyndu í Sovétríkjunum, við þurfum ekki að taka nýja æfingu hér.