Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:57:01 (2965)

1999-01-11 15:57:01# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. að hann taldi að millifærsla bæri vott um spillingu. Ég vil rifja upp að jafnaðarstefnan í heild sinni byggir á millifærslu, og velferðarkerfið sem er upp á 200 milljarða kr. er eitt allsherjar millifærslukerfi.

Mig langar að vekja athygli á því sem fram kom í máli hv. þm. að mat hans væri að það þyrfti að endurskoða lögin út frá dómnum í þá veru að taka upp nýja og réttláta úthlutunarreglu. Hins vegar kom hvergi fram í máli þingmannsins hver sú úthlutunarregla ætti að vera og hvert væri hið mikla réttlæti sem menn ættu að uppfylla. Menn geta vissulega haft þá skoðun að svona þurfi að gera en menn þurfa þá að segja nánar um hver skoðunin er. Orðin ,,réttlát úthlutunarregla`` er bara frasi meðan ekki er útskýrt hvað átt er við með því.