Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:58:08 (2966)

1999-01-11 15:58:08# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Það er alveg merkilegt, herra forseti, þegar þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl. tala að þeir gera engan greinarmun á atvinnulífinu og velferðarkerfinu. Það er bara enginn greinarmunur þar á. Þeim finnst það jafnsjálfsagt að vera með styrki, uppbætur, millifærslu og hvað þeir vilja kalla það í atvinnulífinu og í velferðarkerfinu.

Þarna greinir nefnilega framsóknarmenn og sjálfstæðismenn á við okkur jafnaðarmenn sem erum sannfærð um, og á því byggir meginhugsun okkar, að atvinnulífið eigi að spjara sig. Til þess gerum við kröfur vegna þess að það á að vera undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum að fólkið búi við. Þess vegna finnst okkur líka eðlilegt og sjálfsagt að nota afraksturinn af atvinnulífinu til þess að jafna lífskjörin í landinu með því sem við höfum kallað velferðarkerfi. Þannig er það, herra forseti, og mér þykir ótrúlegt hversu hratt hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gleymir því sem hann eitt sinn trúði á og vildi.