Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:59:23 (2967)

1999-01-11 15:59:23# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þær veiðiheimildir sem Byggðastofnun er ætlað að hafa til ráðstöfunar ef á þarf að halda er ekki almenn úthlutun í atvinnulífi. Það er viðlagaákvæði til að bregðast við þar sem atvinnulíf hefur hrunið. Það verður bara að skilja milli mín og hv. þm. ef þingmaðurinn er ósammála því að fólkið í þeim byggðarlögum þar sem búið er að selja burtu kvótann eigi einhvern rétt á aðstoð frá hinu opinbera í formi veiðiheimilda. Það eru út af fyrir sig skýr skil á milli pólitískra viðhorfa.

[16:00]

Mig langar að vekja athygli á því að jafnaðarmenn sem allt þetta kjörtímabil hafa talað fyrir veiðleyfagjaldi og sagt: við erum með skýrar tillögur um veiðileyfagjald, að bjóða upp veiðiheimildirnar, --- nefna ekki þessar tillögur í áliti sínu núna. Nú tala þeir um réttlátt úthlutunarkerfi. Ég skil það svo, herra forseti, að þingmenn jafnaðarmanna séu á harðahlaupum undan tillögum sínum um veiðileyfagjald og kjósi helst að minnast ekki á þær þegar rætt er um stjórn fiskveiða.