Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 16:03:12 (2970)

1999-01-11 16:03:12# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að einungis 5. gr. var skotið til réttarins. Hins vegar fjallar Hæstiréttur um ýmis fleiri atriði en þau sem taka til 5. gr. Fyrir utan það geta menn síðan verið fullkomlega ósammála um hvernig túlka beri niðurstöðuna varðandi 5. gr.

Vegna þess að hér er vísað í samtöl við sérfræðinga, herra forseti, þá kemst ég ekki hjá að nefna að margs hefur verið spurt og menn hafa reynt að ná til botns í tilteknum efnisatriðum þess sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að gera. Það verður að segjast eins og er að þegar menn geta aldrei svarað svo skýrt að skiljist, þá fer okkur auðvitað að gruna að viðkomandi átti sig ekki sjálfir nógu vel á viðfangsefninu. Það er hættulegt. Það er hættulegt, herra forseti, þegar verið er að fjalla um jafnstórt mál og þetta að maður geti ekki einu sinni treyst því að skilningurinn sé það skýr að hægt sé að koma því frá sér svo allir skilji. Ég óttast að það eigi við í allt of mörgum atriðum þessa máls.