Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 16:05:10 (2972)

1999-01-11 16:05:10# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera hér á Alþingi til að stunda fræðilegar túlkanir. Ég er í pólitík og svo er einnig um hv. þm.

Hins vegar eru kallaðir til fræðingar sem eiga að vísa mönnum veginn með ákveðnum útlistunum. Okkur hlýtur í flestum tilfellum að greina á um hvernig beri að skilja, ekki síst þegar útskýringarnar eru þannig að tilfinningin segir manni að viðkomandi viti vart sjálfur um hvað hann er að tala, svo stórt sé álitaefnið. Það er alvarlegt, herra forseti. Það getur vel verið að í slíkum tilfellum geti menn vænt hver annan um skilning sem meira sé í ætt við misskilning en fyrst og síðast hlýtur pólitíkin að ráða niðurstöðunni. Það gerðist þegar hæstv. ríkisstjórn ákvað að fara þá leið sem hér er farin og einnig hjá meiri hluta nefndarinnar þegar hann ákvað að leggja fram brtt. sínar. Það er nefnilega pólitísk aðferð og niðurstaða sem hér er fjallað um en ekki fræðileg, hvað sem öllum sérfræðingum líður.