Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 16:07:54 (2974)

1999-01-11 16:07:54# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að hafa til hliðsjónar þann ramma um ræðuhöld mín sem hæstv. forseti gaf upp, að vísu án samráðs við mig. Ég tel að mér verði ekki skotaskuld úr því að fylla upp í þennan tíma þannig að umrædd atkvæðagreiðsla um afbrigði geti farið fram einhvern tíma á milli klukkan hálfsex og sex. Ef þörf verður geri ég fúslega hlé á máli mínu til þess að hún megi fara fram, herra forseti. En að gamni slepptu þá fór forseti nálægt því að hitta naglann á höfuðið. Ég reikna með að mál mitt taki um eina til eina og hálfa klukkustund.

Fyrst, herra forseti, er ekki hægt annað en fara örfáum orðum um vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli. Það er að vísu kannski þreytandi að rifja upp það sem hér hefur orðið tilefni orðaskipta, bæði í umræðum um störf þingsins og eins fyrir jólahlé. Hins vegar liggur fyrir að öll tök hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta þingsins á þessu máli hafa einkennst af miklu fljótræði. Það er langt frá því að mikilvægi málsins og alvarleik sé nægjanlegur sómi sýndur.

Þingið var kallað saman í miklum flýti 6. janúar og mátti öllum ljóst vera að sá naumi tími sem þar með var gefinn til að vinna að málinu yfir hátíðarnar, var ónógur. Enda kom það á daginn, oftar en ekki, að þeir sem þingnefndin leitaði til um sérfræðiaðstoð treystu sér ekki til þess að reiða hana fram innan þessa tímaramma, með tilliti til þess að þarna var aðeins um sárafáa virka daga að ræða.

Ég held í öðru lagi, herra forseti, að sú sérkennilega ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar, sem reyndar er býsna venjuleg þar á bæ, að rjúka til og velja til að eigin geðþótta nokkra lögfræðinga, skipa þá sem sérstaka sérfræðinefnd stjórnvalda og ganga síðan út frá áliti þeirra sem algildum sannleik, orki nokkuð tvímælis. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á þá ágætu menn sem í þessu tilviki áttu í hlut. Ég veit að þeir reyndu að vinna sitt verk vel. Ég bendi hins vegar á að í samtölum þeirra við sjútvn. kom fram að þeim var frá byrjun settur mjög þröngur rammi um sitt verk. Ramminn var sá að túlka dóm Hæstaréttar og koma með lágmarks- eða óumflýjanleg viðbrögð við honum. Punktur. Málið var því aldrei skoðað frá víðara sjónarhorni þannig að menn veltu t.d. fyrir sér öðrum mögulegum viðbrögðum en þeim sem hér eru á dagskrá.

Í þriðja lagi, herra forseti, tel ég ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér aldrei að gera annað en að breyta löggjöfinni þannig að menn slyppu fyrir horn að eigin mati hvað varðaði dóm Hæstaréttar. Ríkisstjórnin tók þá pólitísku ákvörðun að nota ekki tækifærið til að staldra við og velta fyrir sér, með grundvallaryfirferð í málinu, hvert menn stefndu með íslenska fiskveiðilöggjöf. Það læddust væntanlega engar efasemdir að hæstv. ríkisstjórn. Nei, tekin var pólitísk ákvörðun um að bregðast þannig við dómi Hæstaréttar að leita að smugum fyrir hornið og láta það nægja.

Nú er vandi Alþingis sá, herra forseti, við þessar aðstæður, að það er í sjálfu sér ekki einfalt að meta dóm Hæstaréttar og túlka hann. Ég hef tekið undir það og viðurkennt. Málið er ekki það ítarlega reifað og menn hafa gert nokkuð í því að lesa mismunandi hluti út úr honum. Ég held að það sé jafnhættulegt, hvort heldur að oftúlka dóminn eða vantúlka hann. Öfgarnar í báðar áttir eru að mínu mati jafnvitlausar. Það sérkennilega er að ríkisstjórnin eða meiri hluti hennar, að vísu á grundvelli álits lögfræðinganna, velur þann kost að oftúlka dóminn algjörlega á aðra hliðina en vantúlka á hina.

Hvað á ég við með þessu, herra forseti? Ég á við það að í þessu frv. felst að úreldingarreglum eða takmörkun á stærð íslenska fiskiskipastólsins er kastað algjörlega, líkt og það sé niðurstaða Hæstaréttar að hér eftir megi löggjafinn og stjórnvöld á Íslandi ekki stjórna stærð fiskiskipastólsins. Á hinn bóginn er ekki hróflað við aflamarkskerfinu. Er þetta rökrétt niðurstaða eða viðbrögð við dómi Hæstaréttar? Ég hef miklar efasemdir um það og mun fara ítarlegar yfir það á eftir. Þær efasemdir byggi ég ekki síst á því að þessar tvær takmarkanir, annars vegar rúmmálstakmarkanirnar, stærð fiskiskipastólsins, og hins vegar aflamarkstakmarkanirnar eru af sömu rót runnar. Þær eru af sömu rót og hafa verið keyrðar samsíða jafnlengi.

Hvers vegna skyldi þá önnur setja ólíðandi fyrirfarandi tálmun gagnvart nýjum aðilum en ekki hin? Hver vegna? Þarf ekki að rökstyðja svolítið betur að annað sé alls ekki hægt að gera vegna Hæstaréttar, að stjórna stærð fiskiskipastólsins, en hins vegar megi stýra sókninni í stofninn upp á kíló og grömm og binda þau sérgreindu réttindi við einstaka aðila sem sækja rétt sinn aftur í fortíðina? Þetta er ekki rökrétt, herra forseti. Ég er sammála því áliti sem komið hefur fram hjá m.a. Sigurði Gizurarsyni lögmanni og einnig, að mér skilst, frá Sigurði Líndal, þó að ég hafi það ekki undir höndum, að þetta sé fráleit túlkun.

[16:15]

Herra forseti. Í umræðum síðustu daga og reyndar því miður einnig hér í dag að verulegu leyti hefur athyglin beinst að öðru en aðalatriði málsins, þ.e. dómi Hæstaréttar og viðbrögðum við 5. gr. Athyglin og orkan hefur eins og venjulega, a.m.k. sl. átta ár þegar sjávarútvegsmál ber á góma á Íslandi öll farið í smábáta. Það er þannig því miður að svo til öll umræða um sjávarútvegsmál og orka í vinnu að sjávarútvegsmálum hefur í þinginu á þessu árabili farið í þennan afmarkaða þátt málsins, svo mikilvægur sem hann er að sjálfsögðu. Á því eru líka ýmsar skýringar, m.a. þær að mönnum hafa verið þar alveg sérstaklega mislagðar hendur. En það er samt dapurlegt að þegar þetta stóra grundvallaratriði kemur upp í kjölfar dóms Hæstaréttar, --- þ.e.: Stenst löggjöfin, stenst sjálf grundvallarlöggjöfin sem við höfum verið að reyna að notast við til að stjórna sókn í fiskstofnana? --- þá færist smátt og smátt eins og venjulega fókusinn af því og þungi umræðunnar yfir á þetta stórfellda vandamál sem er sókn minnstu bátanna á Íslandsmiðum. Það er eins og himinn og jörð séu að farast þegar þau mál ber á góma. Ég ætla þó hafandi sagt þetta, herra forseti, að hlaupa aðeins á því sem meiri hlutinn leggur til og þeim breytingum sem þar eru gerðar frá frv. en tímans vegna að fara þar hratt yfir sögu og koma aftur á síðari stigum máls míns að grundvallarmálinu sjálfu, dómi Hæstaréttar og viðbrögðum meiri hlutans við þeim dómi og breytingunum sem hér eru lagðar til fyrst og fremst á 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða og því sem ekki er lagt til í framhaldi af dómi Hæstaréttar, þ.e. breytingum á sjálfu aflamarkskerfinu.

Herra forseti. Ég ætla að nefna nokkur efnisatriði sem mér finnst standa upp úr hvað varðar brtt. sem snúa að smábátunum, fyrst og fremst brtt. við 2. gr. frv., þ.e. 6. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem fjallar um veiðar smábáta eða krókabáta og hefur gert, 6. gr. og 6. gr. a. Þar er lögð til sú breyting að meðafli þorskaflahámarksbáta, þ.e. afli þeirra í ýsu, ufsa og steinbít verði tekinn inn í kvóta. Nú hefur þetta kerfi verið keyrt þannig frá því það kom til sögunnar á grundvelli vals á árinu 1995, ef minni mitt svíkur ekki, að menn hafa sótt frjálst í þessar tegundir. Síðan hefur verið gert ráð fyrir þeim afla með skerðingu á úthlutuðu aflamarki í þessum tegundum áður en það kemur til skipta til þeirra sem sækja í aflamarkskerfi. Ég er að sjálfsögðu sammála því að ekki er gott til frambúðar að hafa þetta opið á þennan hátt. Um það getur auðvitað seint orðið friður að einhver hluti flotans geti sótt óhindrað í tegundir, verðmætar tegundir sem aðrir verða að sæta miklum takmörkunum á. En hvernig botninn er sleginn í þetta skiptir auðvitað máli. Þar kemur upp spurning um sanngirni í báðar áttir. Staðreyndin er sú að þessir bátar hafa aukið tekjur sínar að sjálfsögðu með veiðum á þessum tegundum undanfarin ár. En það er líka staðreynd að þeir eru í raun og veru að auka sitt olnbogarými á kostnað annarra því skerða verður úthlutað aflamark til annarra skipa sem nemur því sem þarna kemur varanlega til skiptanna. Þarna fyndist mér vel koma til greina að fara einhverja meðalhófsleið þannig að þessum bátum yrðu að sjálfsögðu tryggð einhver réttindi í samræmi við þá sókn sem þeir hafa ástundað. En það er ekki endilega sjálfgefið að allir og þar á meðal þeir sem hafa veitt þarna langmest fái að skapa sér að fullu varanleg réttindi á grundvelli þeirra veiða af því það skerðir hlut annarra. Og það er nú einu sinni þannig að ef einn stækkar sína sneið af fastri köku, þá minnkar sneið annars. Svo geta menn um það deilt hvort fyrir því séu fiskifræðileg eða líffræðileg rök og það er önnur saga.

Það sem meira er, herra forseti, þau réttindi sem þessi hluti hópsins fær nú verða að sjálfsögðu umsvifalaust gerð framseljanleg. Þau verða verðmæti í anda þess að viðskiptin voru einnig innreidd í þennan hóp með breytingum hér á síðustu tveimur vorum sem hafa gert þessi réttindi framseljanleg, einnig hjá krókabátum. Þá skulum við líta aðeins til baka og minnast þess að það var aldrei ætlunin eða hvað að hleypa þessu viðskiptaeðli inn í þennan þátt útgerðarinnar. Aldeilis ekki, nei. Ætlun manna var einmitt sú, um það hefur slagurinn staðið, að verja það frjálsræði sem þarna væri á ferðinni og að þarna yrði ekki um að ræða uppskipt sérgreind réttindi sem gengju kaupum og sölum eins og í aflamarkskerfinu almennt.

Herra forseti. Í þriðja lagi er með þessu verið að loka allt inni í einu afmörkuðu framseljanlegu kerfi. Það er alveg ljóst að í kjölfar þeirra breytinga sem nú eru lagðar til mun allur þorri þeirra báta sem sótt hafa á grundvelli handfæra- og línuleyfa eða handfæraleyfa velja að fara inn í þorskaflahámarkskerfið. Með öðrum orðum er hér á ferðinni enn eitt þvingaða valið þar sem mönnum er stillt upp frammi fyrir tveimur kostum eða þremur og þeir neyddir til þess með tiltölulega skömmum fyrirvara að velja í verulegri óvissu um það hvor kosturinn komi í fyllingu tímans til með að reynast þeim betri. Þetta er í þriðja og þó má að sumu leyti segja í fjórða skiptið sem þessi sami háttur er hafður á, að menn eru látnir við mjög óvissar aðstæður velja milli tveggja kosta sem síðar getur komið á daginn að valdi gífurlegri mismunum og færi mikla hagsmuni til eða ráði miklum hagsmunum þegar frá líður. Upphaflega þvingaða valið af þessum toga var 1990 þegar öllum smábátum var gert að velja annaðhvort aflamark eða krókaleyfi og allir þekkja þá sögu, hvernig það hefur farið. Síðan hefur mönnum verið gert í tvígang að velja á árunum 1994--1996 og hér er nú, sýnist mér, a.m.k. þriðja ef ekki fjórða þvingaða valið sett upp af þessu tagi.

Það á að heita svo að í 6. gr. laganna verði áfram, þ.e. sbr. brtt. við 2. gr. frv., útfærðar reglur um svonefnt handfæraleyfi eða handfæraveiðar með dagatakmörkunum og tekur það kerfi gildi frá og með 1. september árið 2000. Það er útfært með þeim sérkennilega hætti að sá hluti íslenska flotans má aðeins stunda veiðar á tímabilinu 1. apríl til 30. september ár hvert. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst skorta pínulítið á rökstuðning fyrir því að þessir bátar megi t.d. ekki veiða fyrstu dagana í október eða síðustu dagana í mars. Menn gætu kannski sæst á að fyrir því væru viss rök að takmarka þetta eitthvað umfram aðra, og þó. Hvers vegna skyldu aðrir smábátar, jafnvel minni en þeir sem kynnu að velja þetta handfærakerfi, mega sækja allt árið en ekki þessi hópur? Við lýði var í eina tíð sérstök takmörkun í mánuðunum desember og janúar og það gátu verið rök fyrir því að stýra þessari sókn af svartasta skammdeginu. En það leita á mig verulegar efasemdir um að þetta sé réttlætanlegt eða á því sé sérstök þörf að takmarka þetta svona. Ég held að þetta kerfi, herra forseti, sé fyrst og fremst fræðilegt, að sárafáir muni velja þetta. Þetta er einhver friðþæging. Þetta er skilið þarna eftir sem fræðilegur möguleiki til að einhverjum líði betur sem eru meiddir á sálinni yfir því að loka síðustu smugunum fyrir frjálsa sókn eða sókn sem ekki lýtur skömmtun aflamarkskerfisins, jafnvel á hinum minnstu skeljum.

Í fjórða lagi vil ég nefna mjög sérkennilegan frágang, herra forseti, á einu atriði þessa máls en það varðar það sem ég áður nefndi að afli þorskaflahámarksbáta í tegundunum ýsu, ufsa og steinbít verður núna færður inn í aflamarkskerfið. Það verður gert þannig að viðmiðunartímabil fyrir hlutdeild hópsins verða árin 1996, 1997 og 1998 en síðan kemur í ljós sbr. b-lið 9. tölul. brtt. við ákvæði til bráðabirgða II að hópurinn á hins vegar að slást innbyrðis um skiptinguna, einnig á nýhöfnu almanaksári. Þar leggur meiri hlutinn til að: ,,Í stað orðanna ,,framangreindum þremur árum`` í 2. málsl. 5. mgr.`` --- frv. og vísað er til áranna 1996, 1997 og 1998, --- ,,komi: árunum 1997, 1998 og 1999.`` Hvað þýðir þetta á mannamáli, herra forseti? Þetta þýðir á mannamáli að þó að búið sé að taka pottinn frá sem þarna er til skiptanna, og það tekur mið af veiði áranna 1996, 1997 og 1998, þá á innbyrðis skipting milli einstakra aðila í hópnum einnig að ráðast af því sem þeir fá í sinn hlut á árinu 1999. Þetta þýðir eitt og aðeins eitt. Þetta þýðir bullandi kapphlaup og háskalega sókn að öllum líkindum í þessar tegundir á nýhöfnu almanaksári því að sjálfsögðu munu allir hugsa sem svo að þeir reyni að bæta sína stöðu og auka sinn hlut með því að ná sem allra mestu af þessum tegundum.

Meiri hlutinn útskýrir þetta svo eða réttlætir að þetta opni möguleika fyrir báta sem nýkomnir eru inn í kerfið og hafa þar litla reynslu til að bæta sína stöðu. Í þessari hugsun er að mínu mati, herra forseti, fólginn sá grundvallarmisskilningur að halda að hinir muni láta það kyrrt liggja, að nýliðarnir einir auki sinn hlut. Nei, að sjálfsögðu munu aðrir einnig keppast við að ná sem mestu til sín og úr getur ekki orðið annað en eitt allsherjarkapphlaup. Þetta er afspyrnu háskalegur frágangur og í raun og veru brot á þeim leikreglum sem oftast hefur verið reynt að fara eftir hér, að viðmiðunartímabil af þessum toga hafa verið sótt í fortíðina til að menn geti ekki haft áhrif á skiptinguna eftir að lagabreytinganna sér stað, ósköp einfaldlega vegna þess að það hlýtur alltaf að þýða kapphlaup og fela í sér ýmsan háska. Ef ekki er um að ræða að sanngjarnt sé að nota viðmiðunartímabil frá liðinni tíð er miklu nær, herra forseti, að búa út sanngjarna meðalhófsreglu svo sem eins og þá að menn geti þó alltaf fengið einhverja tiltekna viðmiðun sem tekur mið af meðaltalsveiðum hópsins eða eitthvað því um líkt. Það var iðulega gert hér á árunum þegar verið var að finna viðmiðanir af þessu tagi. Ég bendi t.d. á þær viðmiðanir sem nýkeyptum fiskiskipum var heimilt að velja árið 1984 þegar kvótakerfið á grundvelli aflareynslu undangenginna ára var sett á. Þá sáu menn auðvitað að nýsmíðuð skip urðu að fá einhverja úrlausn og þá var valin sú leið að þau máttu yfirleitt velja meðaltalsveiðiheimildir skipa í sambærilegum stærðarflokki. En meiri hlutanum hefur ekki dottið neitt slíkt í hug og þrátt fyrir ábendingar þar um er þetta lagt svona fram í breytingartillöguskjalinu. Ég mótmæli þessu, herra forseti. Ég tel þetta afspyrnuvitlaust og skapa miklu meiri vanda og hættu en það er líklegt til að leysa. Nærri lætur að kalla megi þetta stórhættulegan frágang á málinu.

Herra forseti. Hér hefði verið eðlilegt að ræða grásleppufrv. svonefnda ef það hefði átt að koma til afgreiðslu því það tengist þessu ákvæði smábátanna sérstaklega. Því hefur nú meiri hlutinn ákveðið að fresta eftir nokkuð lærdómsríkar umræður í sjútvn. satt best að segja. Ég leyfi mér að halda því fram að eitthvert vanhugsaðasta atriðið af öllum sem upp komu í þessari vinnu, og er þá mikið sagt, hafi verið þegar menn voru komnir með ítarlega útfærðar tillögur í hendurnar um það að gera einstaka daga á grásleppuveiðum framseljanlegar einingar. Þar með átti það að vera þannig, herra forseti, að jafnvel rétturinn til að leggja netstubb uppi í þarabeltinu við Ísland fyrir grásleppu skyldi vera sérgreindur og framseljanlegur. Það runnu auðvitað tvær grímur á menn þegar þeir fóru að velta fyrir sér ýmsu sem þessu gæti tengst. Niðurstaðan var sú að fresta málinu, þessum hryllingi, liggur mér við að segja. Ég fagna því að sjálfsögðu, en veit þó ekki hvað í vændum er ef meiri hlutinn ætlar að halda sig við þá túlkun sína á dómi Hæstaréttar að allt skuli verða sérgreint, öll réttindi skuli bútuð niður í einingar, kíló eða daga, og gerð seljanleg. Ég tók dæmi af því ef hér yrði leyft að veiða hrefnu innan skamms og tíu bátar fengju leyfi til að veiða fimm hrefnur hver. Þá yrði sjálfsagt hver hrefna að vera framseljanleg eining í þeirri sókn ef svara ætti dómi Hæstaréttar, eða hvað? Út á hvaða braut eru menn að fara? Endar þetta þannig að hver hörpudiskur og hver beitukóngur verður skilgreind, framseljanleg eining og það verði farið að selja hvert einstakt stykki þannig? Hver veit?

[16:30]

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á tvennt sem lýtur að ákvæðunum til bráðabirgða og hleyp auðvitað yfir mjög margt tímans vegna. Það fyrra er sú lagfæring á stöðu smábáta og aflamarki sem hér er þó loksins reynt að gera þótt í litlu sé. Því fagna ég að sjálfsögðu enda hef ég lagt til um langt árabil, allt frá árunum 1992--1993, lagfæringar á stöðu þessa gleymda flota, smábáta á aflamarki. Staðreyndin er sú, og hún er viðurkennd loksins í tillögunum um lagfæringu á stöðu þessa hluta flotans, að enginn hluti íslenska flotans hefur farið eins illa út úr þessu kerfi og þeir smábátar sem völdu aflamark 1990. Enginn, nema vera kynni þeir rækjuútgerðarmenn fyrir Norðurlandi sem voru sviptir veiðiheimildum sínum með sérstöku ákvæði á sínum tíma, sérveiðaákvæðinu fræga á sínum tíma sem tók í sumum tilvikum mörg hundruð tonna veiðiheimildir af tilteknum hópi útgerðarmanna þar. En smábátarnir fóru þannig út úr þessu að þeir voru skertir alveg sérstaklega umfram aðra sem aflaheimildir höfðu í þorski. Það var svo bersýnilega og er ósanngjarnt vegna þess að þeir eru háðari þeim veiðum en nokkur annar hluti flotans. Ekki fóru þeir í Smuguna. Ekki fóru þeir á Reykjanesshrygg eða á Flæmska hattinn og ekki hafa þeir getað sótt í djúprækju eða aðra slíka möguleika sem stærri fiskiskip hafa notað til að mæta skerðingu í bolfiskveiðiheimildum á heimamiðum. Það gátu og geta smábátarnir ekki eðli málsins samkvæmt. En sú varð nú samt niðurstaðan, sú furðulega niðurstaða, að það var í raun farið verr með þennan hluta flotans en nokkurn annan. Þess vegna er það gott og þó meira væri, að hér er gert ráð fyrir sérstöku 15% álagi á þennan hóp miðað við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998. En, herra forseti. Þar sýnist mér að mönnum hafi skotist í einu og það er mjög alvarlegt. Hér er eingöngu talað um smábáta á aflamarki undir 6 brúttólestum eða 6 brúttótonnum. En allir smábátar undir 10 tonnum fengu, það ég best veit, sambærilega meðferð hvað þetta snertir á sínum tíma og mér sýnist þar af leiðandi að ekki sé annað hægt en að taka þetta ákvæði upp og endurreikna það þannig og bæta þá við pottinn þannig að út komi sambærileg leiðrétting, að smábátar á milli 6 og 10 tonn komi þarna með líka. Þetta þarf að fara betur yfir. En ég hef ástæðu til að ætla að svona sé þetta, að þeir hafi allir verið þarna í sama hópi á sínum tíma upp að 10 tonnum enda var það sú skilgreining sem notuð var þá. Þó að bátar milli 6 og 10 tonn kæmu að vísu fyrr inn í kerfið en hinir, þá hef ég grun um að þetta standi svona. A.m.k. þarf að fara yfir þetta og það má ekki vera neinn vafi á því, herra forseti, að sambærileg leiðrétting verði þarna fyrir þá sem fengu sambærilega meðhöndlun eða sambærilega útreið, væri víst nær að segja, í þessu tilviki.

Þá er það ákvæði til bráðabirgða IV sem er um veiðiheimildir til ráðstöfunar. Ég tek það fram varðandi þennan jöfnunarpott á bolfiskveiðum sem nú er orðinn um 4 þús. tonn með ákveðnum frádrætti og skal ganga til fiskiskipa allt upp að 200 brúttótonnum og miðað við 450 þorskígildaþak og 10 tonna hámark, að þetta eru auðvitað allt saman umdeilanleg viðmiðunarmörk. Ég er þó í aðalatriðum á því að eitthvað í þessa veruna sé skynsamlegt að gera til þess að reyna að styðja við bakið á þeim hluta flotans, þ.e. dagróðrabátaflotans sem hefur mjög átt undir högg að sækja og mjög hefur gengið á á undanförnum árum. Ég er því almennt hlynntur því að ráðstafanir í þessa veru séu gerðar, enda búinn að leggja þær lengi til og studdi það ákvæði sem var undanfari þessa ákvæðis á sínum tíma og gilti fyrir nokkur undangengin fiskveiðiár.

Síðan kemur b-liður 10. tölul. brtt., þ.e. 1.500 þorskígildislestir í sérstakan viðlagapott eða byggðapott. Þar á hið sama við að ég tel það jákvætt að menn hafi veiðiheimildir til viðlagaráðstöfunar af þessu tagi, enda hef ég sömuleiðis lagt það lengi til. Ég átti þátt í því á sínum tíma, 1990 af því það hefur svo vinsamlega verið rifjað hér upp, að þá komu inn í lögin heimildir til handa Hagræðingarsjóði, sem þá hét svo, að úthluta sérstaklega og án endurgjalds veiðiheimildum til byggðarlaga í vanda. Það er þess vegna ekki þannig, eins og einhver kynni að hafa haldið fyrr í umræðunni, að ég skammist mín fyrir afstöðu mína til sjávarútvegsmála almennt á því ári. Ég gerði mitt eins og ég gat og hafði stöðu til á þeim tíma til að reyna að koma þar inn jákvæðum ákvæðum, bæði endurskoðunarákvæðum á lögunum og eins ákvæðunum um Hagræðingarsjóð sem ríkisstjórnin sem tók því miður við 1991 eyðilagði nær samstundis og mætti velta því fyrir sér hverju slíkar heimildir í Hagræðingarsjóði allan þann tíma sem síðan er liðinn hefðu getað bjargað á ýmsum stöðum ef þær hefðu verið fyrir hendi, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum og víðar. En því miður var það nú ekki gert. Hér er hins vegar horfið til baka í þá átt að afleiðingar af framsali veiðiréttindanna eins og þær eru geti verið svo hrikalegar fyrir einstök byggðarlög að óhjákvæmilegt sé að grípa þar inn í og setja fætur undir útgerð á viðkomandi stöðum á nýjan leik. Mér er hins vegar nær að halda að þetta gangi of skammt og um of lítið sé að ræða í reynd, eða óttast að sú staða gæti komið upp að menn þyrftu þarna meira til.

Ég held líka að útfærslan á þessu ákvæði orki nokkuð tvímælis. Ég tel að þetta eigi fyrst og fremst að vera heimildarákvæði. Það á fyrst og fremst að vera heimilt til að grípa til ráðstafana af þessu tagi ef á þarf að halda, en ekki gera það ella. Þetta á að sjálfsögðu ekki að vera einhver sjálfvirk úthlutun og vonandi þarf sem minnst að gera af þessu tagi. En við skulum taka það dæmi sem nýjast er, þ.e. Breiðdalsvík, og ég tel vera skólabókardæmi um ókostina, hætturnar og öryggisleysi sem einstök byggðarlög búa við í þessu kerfi og hefur lengi verið einn ljótasti gallinn á því. Við þær aðstæður sem þar hafa komið upp þar sem heimamenn eru í raun varnarlausir gagnvart því sem hefur verið að gerast, a.m.k. eins og komið er vegna þess að þeir hafa misst forræðið á því fyrirtæki sem þar var áður og tryggði atvinnu --- þó að það sé auðvitað ekki nýtt og hafi ekki kviknað með þessu tungli að byggðarlög verði fyrir áföllum í sjávarútvegi og þaðan flytjist skip því það gerðist fyrir daga kvótakerfisins, þá er hitt rétt sem bent er á að erfiðara er að hefja útgerð á nýjan leik eftir að kaupa þarf veiðiréttindin inn í kerfið sérstaklega --- aðstæður þar sem ekki er bolmagn í byggðarlaginu til að hefja útgerð án stuðnings á nýjan leik, sérstaklega vegna þess hve dýrt er að komast inn í kerfið, þá er að mínu mati fullkomlega réttlætanlegt og verjandi út frá hvaða prinsippum sem vera skal að grípa til slíkra stuðningsaðgerða sem eru byggðapólitískar aðgerðir. Og ef menn geta það ekki með þessum hætti þá geta menn ekki framkvæmt neina byggðastefnu. Það er ósköp einfaldlega þannig. Ef ekki má hjálpa mönnum t.d. til að koma fótum undir atvinnulíf á stöðum með sértækum ráðstöfunum í fiskveiðistjórnarkerfi sem varða útdeilingu á réttindum úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, hvað mega menn þá? Ég spyr. Ríkissjóður er sameiginlegur, er það ekki? Það hlýtur að vera jafnóheimilt að beita sértækum ráðstöfunum með fjármagni úr honum eins og fiski úr sjónum því hvort tveggja er þetta sameiginlegt. Ég hlusta því ekki mikið á að það megi ekki.

Herra forseti. Ég hef mörg undanfarin ár lagt til að viðlagaheimild af þessu tagi kæmi inn í lögin um stjórn fiskveiða. Ég vil nefna að t.d. á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. þingmönnum Ragnari Arnalds og Hjörleifi Guttormssyni frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Þar er að finna ákvæði sambærilegt þessu. Í ákvæði til bráðabirgða III í því frv. segir, með leyfi forseta:

,,Frá leyfðum heildarafla þorsks, áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar, sbr. 7. gr., er frá og með fiskveiðiárinu 1998--99 heimilt að draga allt að 7.000 lestir til ráðstöfunar í byggðarlög sem misst hafa umtalsverðan hluta veiðiheimilda sinna og þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs.

Sjávarútvegsráðherra skal í samráði við Byggðastofnun setja nánari reglur um málsmeðferð. Reglurnar skulu m.a. fela í sér möguleika til að úthluta veiðiheimildum til allt að þriggja ára til að gera viðkomandi byggðarlögum kleift að efla útgerð á nýjan leik og laða til sín samstarfsaðila á því sviði.``

Herra forseti. Þetta ákvæði vil ég leyfa mér að segja að sé náttúrlega miklu betra en það sem meiri hlutinn hefur rambað á, skýrara og setur ramma um þetta mál sem væri mun vandaðri að mínu mati, m.a. með því að taka fram að heimilt sé að ráðstafa veiðiheimildunum til lengri tíma en eins árs í senn. Það getur skipt miklu máli til þess að þær aðgerðir sem Byggðastofnun og aðrir ætla að grípa til nýtist. Ég nefni aftur sem dæmi Breiðdalsvík og í anda þess ákvæði sem ég hef lagt til hér á undanförnum árum gæti Byggðastofnun nú gripið til þessa sjóðs, tekið segjum x hundruð þorskígildi og sagt við Breiðdælinga: Ef þið getið með þessum stuðningi, þ.e. að fá segjum 300 eða 500 þorskígildi í þrjú ár án endurgjalds, komið fótum undir útgerð, fengið til samstarfs við ykkur útgerðir sem vilja koma á staðinn og fara að gera út, þá er þetta í boði. Ég er alveg sannfærður um að með slíkri hvatningu og slíku starti mætti endurreisa útgerð og koma fótum undir fyrirtæki sem yrðu sjálfbjarga og gætu síðan séð um sig sjálf eftir að slíku stuðningstímabili væri lokið. Og þá gengju veiðiheimildirnar aftur inn í sjóðinn, enda kannski þá orðin þörf á þeim einhvers staðar annars staðar.

Herra forseti. Þetta eru aðgerðir sem ég held að séu óhjákvæmilegar, þ.e. ef og svo lengi sem menn ætla að keyra þetta kerfi eins og það er, óheftum flutningi veiðiréttindanna og framsali byggðarlaga á milli, nema menn vilji bara taka þeim afleiðingum án nokkurra hliðarráðstafana sem því eru samfara. Það er svo auðvitað sjónarmið út af fyrir sig.

Sem sagt: ,,meningen er god nok`` eins og danskurinn segir en útfærsla mætti vera vandaðri. Ég tek undir það sem frsm. minni hlutans hefur sagt að það þarf auðvitað að vanda reglur að því leyti til þegar um svona mál er að ræða. Það er ekki gott að það geti verið einhvers konar geðþóttaákvörðun og kannski breytileg eftir atvikum hvernig með þetta er farið.

Herra forseti. Þetta var um það sem snýr að frv. og brtt. meiri hlutans. Þá sný ég mér aftur að aðalatriðinu sem er dómur Hæstaréttar og 5. gr.

Í dómi Hæstaréttar er í raun og veru sagt að þótt kvótasetningin á sínum tíma, og úreldingarreglurnar, kunni að hafa verið réttlætanleg sem tímabundin aðgerð til að vernda fiskstofnana þá skorti á að nægjanlega vel hafi verið rökstutt að slík fyrirfarandi tálmun eins og felst í veiðileyfunum eða úreldingarreglunum, fái staðist um aldur og ævi, þ.e. að binda þann rétt við þá eina sem gerðu út skip á tilteknum tíma eða hafa keypt sér slík skip síðan. Þá kemur að því, herra forseti, sem ég tók aðeins upp í byrjun máls míns: Þó að málið hafi borið þannig að Hæstarétti að veiðileyfaútgáfan hafi eingöngu verið til ógildingar samkvæmt kröfu, hvað er Hæstiréttur að segja í reynd með umfjöllun sinni og reifun, vegna þess að dómsorðin sjálf eru eins og allir vita aðeins fáeinar línar? Og það er reyndar rangt sem margendurtekið hefur verið sagt að í dómsorðunum sé 5. gr. nefnd. Hún er ekki nefnd í dómsorðunum. Hún er nefnd í reifun dómsins eins og öll önnur umfjöllun sem menn hafa verið að reyna að lesa út úr. Dómsorðin eru einfaldlega svona:

,,Ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins 10. desember 1996 í bréfi til áfrýjanda, Valdimars Jóhannessonar, er ógild.`` Punktur.

Þetta er dómsorðið. En framar er þessi tilvitnun í 5. gr. sem sérstaklega hefur verið nefnd.

[16:45]

Ég fór að athuga það, herra forseti, hver væri saga þessara tvenns konar takmarkana sem þarna hafa verið keyrðar samsíða allt frá árinu 1984, þ.e. annars vegar aflamarkskerfið eða að takmarka það magn sem flotinn má taka upp úr sjónum, og hins vegar þessar reglur til að reyna að halda aftur af afastagetunni í flotanum, stærð fiskiskipastólsins. Þá ætla ég, herra forseti, að líta aðeins í þá ættfræði sem dregin hefur verið saman m.a. af því tilefni. Ég held að það sé nefnilega ástæða til, herra forseti, að fara aðeins aftur í söguna og líta á hvernig þetta allt saman kom til. Hæstiréttur er í raun og veru fyrst og fremst að segja að þó að löggjafinn hafi, án þess að það bryti í bága við stjórnarskrána eða verið eitthvað sem dæmt skyldi ólögmætt, gripið til þeirra aðgerða sem hann gerði á árinu 1983 og bundið þau réttindi við tiltekinn hóp útgerðarmanna sem verið hafði við sjósókn árin þar á undan, þá fái það ekki staðist, a.m.k. ekki að því leyti hvað varðar veiðileyfin eða úreldingarreglurnar í flotanum um aldur og ævi. Þá hafa margir spurt: Ef þær eru ólöglegar sem ótímabundin og varanleg takmörkun er þá ekki sjálft aflamarkskerfið það líka? Eðlilegt er að spurt sé. Hvað er Hæstiréttur að fara? Er hann að gefa það í skyn, er hann að veita viðvörun um að einnig takmörkunin að þessu leyti í aflamarkskerfinu við þann hóp sem sótti sjó og dró afla að landi á viðmiðunarárunum sé að sama skapi óréttmæt eða fái ekki staðist nefndar greinar stjórnarskrárinnar?

Það merkilega kemur í ljós, herra forseti, þegar farið er yfir sögu þessara takmarkana að þær eiga báðar rót í sama upphafinu. Forverar þeirra beggja komu til sögunnar á árinu 1977. Árið 1977, í framhaldi af lagasetningu á árinu 1976 um fiskveiðilandhelgi Íslands og svörtum skýrslum um ástand fiskstofna, hófst takmörkun þorskveiða með svonefndu skrapdagakerfi. Síðan voru ýmsar æfingar í þeim efnum ástundaðar á næstu árum þangað til svo var komið að í desember árið 1983 voru skrapdagarnir orðnir 110. Í ljósi upplýsinga sem þá komu fram og þóttu sýna mjög alvarlegt ástand þorskstofnsins var kvótinn settur á, aflamarkskerfið innleitt. Hvernig var það gert, herra forseti? Það var gert þannig að hverju skipi stærra en 10 brúttórúmlestir var úthlutað aflamarki í sjö tegundum; þorski, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu, skarkola og steinbít. Skipunum var skipt í níu flokka og hver var grundvöllur úthlutunarinnar? Grundvöllur úthlutunarinnar var aflareynsla einstaks skips á tímabilinu 1. nóv. 1981 til 31. okt. 1983. Þetta var grundvöllurinn. Réttindin voru framreiknuð inn í kerfið út frá þeim hópi sem stundað hafði sjó og landað hafði afla í þessum tegundum á þessu tímabili. Síðan þekkja menn framhaldið. Seinna meir voru leyfð viðskipti með þennan rétt þannig að sumir hafa nú undir höndum rétt sem þeir hafa keypt af öðrum en aðrir hafa enn þá rétt sem þeir sækja til þessa viðmiðunartímabils.

Hvað þá með veiðileyfin? Hvenær komu veiðileyfin til sögunnar sem hæstaréttardómurinn dæmir af að sögn og hver er skyldleiki þeirra við takmarkanir á aflamagni? Jú, það merkilega er, herra forseti, að á sama ári, 1977, hefjast fyrstu tilraunir til að takmarka afkastagetuna í fiskiskipastólnum og þær gera það með samþykkt ríkisstjórnar sem notar að vísu tækið Fiskveiðasjóð, opinberan sjóð, til þess að reyna að koma þessum takmörkunum við því þá er samþykkt að Fiskveiðasjóður láni aðeins 50% kaupverðs keyptra skipa erlendis frá og ekki voru veitt lán frá öðrum innlendum lánastofnunum og engin erlend lán umfram það sem fælist í 50% láni Fiskveiðasjóðs enda höfðu stjórnvöld möguleika á því í sínum höndum að takmarka slík lán. Með öðrum orðum, rótin hvað afkastagetuna eða rúmmálið snertir rekur sig til sama árs, sömu ákvarðana, sömu ríkisstjórna. Annars vegar að innleiða skrapdagakerfið og hins vegar að innleiða lánareglur í Fiskveiðasjóði til að halda aftur af afkastagetu fiskiskipastólsins, eðlilega vegna þess að það hafði lítið upp á sig að vera að reyna að baksa við að fjölga skrapdögum ef flotinn fékk að stækka eins og fara gerðist þannig að eðlilegt var að ríkisstjórnin setti þessar takmarkanir samtíma og samsíðis í gang. Rótin var ein og hin sama.

Hvað svo? Hvenær breytast takmarkanir Fiskveiðasjóðs yfir í beinar rúmmálstakmarkanir eða stærðartakmarkanir í flotanum? Jú, á árinu 1984. Á sama ári og kvótinn hélt innreið sína. Þá er gefin út reglugerð nr. 44/1984, um stjórn botnfiskveiða. Þá er ákveðið að ríkisstjórnin nýti sér heimildina til að koma kvótakerfinu á og ákveðið að sérhver útgerðaraðili sem geri út fiskiskip 10 brúttólestir eða stærra til botnfiskveiða þurfi til þess almennt veiðileyfi og að öðrum en þeim sem hafa þetta almenna veiðileyfi, sem allt snýst nú um og sem dómurinn fjallaði um, sé óheimilt að stunda botnfiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eins og það var þá orðað. Hverjir fengu veiðileyfið? Skip fengu veiðileyfi þegar útgerðir þeirra höfðu stundað botnfiskveiðar á tímabilinu 1. nóv. 1982 til 31. okt. 1983. Með öðrum orðum, herra forseti, einnig að þessu leyti er rótin að takmörkuninni hin sama. Með alveg sama hætti og menn fengu úthlutað aflamarki á grundvelli þess afla sem þeir höfðu landað á viðmiðunartímabilinu á árunum 1981--1983 fengu menn veiðileyfi á grundvelli þess að hafa sótt sjóinn, að vísu á aðeins öðrum hluta þessa tímabils, þ.e. frá nóvember 1982 til 31. okt. 1983. Hver er þá orðinn munurinn? Hver er þá orðinn lagalegur munur til að aðgreina þetta tvennt þegar í ljós kemur að ættartréð rekur sig þarna saman niður á sömu rót? Síðan hafa þessar tvær takmarkanir, sem þetta eru auðvitað, annars vegar á afkastagetunni og hins vegar á magninu sem menn mega landa, verið keyrðar samsíða í gegnum alla söguna með mjög hliðstæðum reglum um framsal og annað því um líkt.

Þannig er það niðurstaða mín, herra forseti, að þessar tvær takmarkanir eru systur. Þær eru af sömu rót, þær hafa verið keyrðar samsíða í gegnum fiskveiðilöggjöfina frá jafnlengd, í ársbyrjun 1984, og mig skortir algerlega rök til þess að gera á þeim neinn þann greinarmun sem viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar gera. Ég óttast að verði önnur þeirra talin setja óleyfilega fyrirfarandi tálmun fyrir nýja aðila til að komast inn í kerfið hljóti hin að teljast það einnig.

Þá erum við komin að þeirri niðurstöðu að sjálft fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni, ekki bara úreldingarregluhluti þess, standist ekki nema Hæstiréttur sé að segja eitthvað allt annað, nema Hæstiréttur sé kannski að nálgast þetta viðfangsefni akkúrat frá 180 gráðum og Hæstiréttur sé með þessu að festa aflamarkskerfið í sessi og segja: Óþarfi er að takmarka afköst og stærð fiskiskipaflotans vegna hins kerfisins. Það stendur hvergi. Það eru getgátur, það eru ágiskanir. Það kann að vera. En til þess að við fáum þá botn í það verður það mál að skýrast við meðferð fyrir dóminum og það gerir það sjálfsagt, samanber þau viðbrögð sem eru á ferðinni.

Ég leyfi mér, herra forseti, að taka svolítinn tíma í að fara yfir þessa sagnfræði eða ættartré þessara takmarkana vegna þess að mér hefur fundist verulega skorta á að menn reyndu að rekja sig aftur á bak til upprunans í þessu máli til að reyna að skilja það við hverju mætti búast ef prófmál yrðu síðan rekin fyrir Hæstarétti einnig hvað þetta snertir og menn létu reyna á þetta atriði.

Þá vík ég, herra forseti, að því hvað á að gera, hvað er að mínu mati eðlilegast að gera, hver væru að mínu mati eðlilegustu viðbrögðin við þessum dómi. Ég tek fram að þegar ég fer yfir þá sálma geri ég það ekki vegna frýjunarorða hæstv. forsrh., sem er auðvitað farinn héðan eins og við var að búast, eða sjútvrh., sem er einnig farinn héðan, og ekki heldur vegna formanns sjútvn., sem var með skæting og er einnig farinn héðan. Það er að segja þessar Heimdallar\-æfingar þeirra í málflutningi, hæstv. sjútvrh. og verðandi sendiherra í Lundúnum, og fleiri stjórnarliða sem hér hafa talað og koma upp með miklum þjósti og skamma stjórnarandstöðuna fyrir að hafa ekki lagt eitthvað til. Þetta veit á eitt og aðeins eitt, herra forseti. Þessir menn hafa vonda samvisku. (Sjútvrh.: Ekki skamma, bara ...) Eða spyrja. Þessir menn, herra forseti, þessir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn vita að þeir eru með vont mál sem þeir eru að reyna að forsvara og þeir treysta sér ekki til þess. Þeir halda ekki uppi neinum vörnum fyrir sitt eigið mál heldur koma hér og biðja um tillögur frá stjórnarandstöðunni. Þó er hér stjfrv. á dagskrá og eðlilegt að umræðan snúist um dagskrármálið, þ.e. stjfrv. Það er eðlilegt að við spyrjum út úr því frv. og gagnrýnum það frv. Það vita þessir menn. Þeir eru ekki nýgræðingar á þingi en ég tek eftir málflutningi þeirra. Ég tek eftir því að þeir hafa verið að reyna að sleppa í gegnum málflutning með þessum hætti. Það er mjög athyglisvert.

Nú er það þannig, herra forseti, að stjfrv. af þessu tagi býður ekki upp á að stjórnarandstaðan lýsi endilega viðhorfum sínum. Það er t.d. þannig hvað varðar brtt. að það er út í hött, a.m.k. hvað mig snertir, að reyna að leggja fram brtt. á þessu vitlausa frv. ríkisstjórnarinnar. Ef ég vil láta áherslur mínar í sjávarútvegsmálum, þar á meðal einnig við því álitamáli sem Hæstiréttur tekur upp, koma fram í frumvarpsformi, þá flyt ég það frv. sjálfur og hef það eins uppbyggt og mér hentar, enda hef ég gert það. Ég skal sýna hæstv. sjútvrh. það, hafi hann ekki vitað það áður, að ég hef flutt slíkt frv., ítarlegt frv., bandormsfrv. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum þar sem tekið er á mörgum þeim atriðum sem ég tel að hafi farið aflaga í sjávarútvegslöggjöf okkar á undanförnum árum. Ég vísa því, a.m.k. hvað mig snertir, til föðurhúsanna ásökunum um að afstaða mín í þessum efnum liggi ekki sæmilega skýrt fyrir.

Nei, herra forseti, þetta er fyrst og fremst til marks um það að hér eru litlir karlar í vanda. Hér eru menn að reyna að olnboga þessu vandræðamáli sínu í gegnum þingið og reyna að afvegaleiða umræðuna og drepa henni á dreif. Það liggur við, herra forseti, að ég neyðist til að halda því fram að það sé viljandi sem þetta mál er allt saman látið snúast um vandræði sem þetta skapi í sambandi við fiskveiðistjórnun á smábátum af því að menn vilja forðast að grundvallarmálið sjálft sé rætt hérna og tíminn tekinn í það. Þess vegna hafa menn sjálfir kannski að einhverju leyti bakað sér þetta heimatilbúna brauð viljandi sem varðar vandræðaganginn í kringum smábátana og bundið við það vonir að málið slyppi í gegn og öll athyglin yrði á því en ekki hinu stóra atriði, dómi Hæstaréttar og hvað hann þýðir í reynd eða hvaða áhrif hann í reynd kemur til með að hafa á sjálfa fiskveiðistjórnarlöggjöfina þar sem hinir miklu yfirgnæfandi hagsmunir eru í húfi. Auðvitað, eða hvað? Ég held að það sé nefnilega þannig að allt heila móverkið titri og menn séu hræddir og þess vegna sé verið að reyna að sleppa í gegnum þetta með þessum hætti.

Ég ætla, herra forseti, að fara yfir það í nokkrum orðum, ekki vegna þess að ég sé að bregðast við frýjunarorðum rökþrota stjórnarsinna heldur vegna þess að ég vil sjálfur koma því frá mér sem ég teldi að væri réttast að gera í þessum efnum. Ég tel að Alþingi ætti fyrir það fyrsta að vanda sig mjög í því að meta og skoða dóm Hæstaréttar og reyna að forðast hvort tveggja, að oftúlka hann eða vantúlka. En ég tel að Alþingi eigi fyrst og fremst að reyna að átta sig á því sjálft hvernig vill það hafa hlutina því það er þrátt fyrir allt Alþingi sem setur lögin en ekki Hæstiréttur. Gleymum því ekki. Það var Alþingi sem setti jafnræðisákvæðið inn í stjórnarskrána. Það er Alþingi sem setur fiskveiðilögin og breytir þeim, og það má meira að segja færa fyrir því rök að Alþingi þyrfti ekki að breyta því ákvæði laganna sem Hæstiréttur fjallar um heldur gæti Alþingi tekið þá afstöðu að segja: Það er vandi dómstóla og framkvæmdarvaldsins að bregðast við dóminum. Það er hægt að hafa þá afstöðu. Það má rökstyðja hana með ýmsum lögfræðilegum rökum og er reyndar gert af sumum lögfræðingum. Ég er ekki endilega að deila þeirri skoðun. Ég tel að Alþingi eigi að fara mjög vandlega yfir málið og forðast þar hvort tveggja í senn að oftúlka eða vantúlka dóminn.

[17:00]

Ég tel í öðru lagi, herra forseti, að hiklaust eigi að setja skýrt sólarlagsákvæði inn í lögin. Ég tel óráð að gera það ekki. Þannig væri Hæstaréttur tekinn á orðinu og sagt: Til öryggis göngum við frá þessu tímabundið þannig ef svo færi að sú leið sem valin hefur verið reyndist hæpin, einnig hvað varðar sjálft aflamarkskerfið, þá væri þetta í öllu falli, af hálfu löggjafans, tímabundin ráðstöfun að lögum. Gildistími fiskveiðilöggjafarinnar er frá 2001 til u.þ.b. 2002. Það er ákveðin skýr aðgerð. Það sendir þau skilaboð enn frekar en ella að þarna verði á breytingar og með því undirstrikar Alþingi rétt sinn til að gera slíkar breytingar ef svo ber undir, þar með að afnema kerfið og beita einhverjum öðrum aðferðum til að takmarka sókn í fiskstofnana.

Í þriðja lagi tel ég, herra forseti, að við þessar aðstæður, og þó fyrr hefði verið, ætti Alþingi alveg tvímælalaust að nota tækifærið og stokka algerlega upp fiskveiðistjórnina varðandi smábáta og bátaflotann. Hún er ónýt. Þar er bullandi mismunun og vitleysa sem í raun og veru er óþolandi að framlengja sífellt lengur. Að mínu mati ætti að nálgast þá hluti allt öðruvísi, stokka það kerfi algerlega upp og setja allan bátaflotann undir skilgreind stærðarmörk. Það ætti að fella undir eitt samræmt kerfi sem farsælast væri að byggði á óframseljanlegum hámörkum í mikilvægustu tegundir. Það viðfangsefni mætti nálgast með því móti að menn reyndu að finna út langtímameðaltalshlutdeild, ef ekki á grundvelli reynslunnar þá á grundvelli fiskifræðinnar, sem heppilegt væri að þessi strandveiðifloti hefði. Þannig nálgast aðrar þjóðir þetta mál. Er endilega víst að við Íslendingar getum ekki lært neitt af neinum? Erum við svo sannfærð um að við séum með fullkomnasta kerfi í heimi og þurfum aldrei að líta út fyrir landsteinana? Færeyingar, Kanadamenn, Norðmenn og flestar stórar fiskveiðiþjóðir í kringum okkur nálgast þetta mál svona. Þær skilgreina eitthvað sem heitir strandveiðifloti. Þær flokka flotann og ákveða honum tiltekna hlutdeild af veiðiréttindunum.

Þarna eru menn jafnframt að svara fiskifræðilegum aðstæðum sem án nokkurs vafa eru að einhverju leyti til hér á Íslandi líka. Um það er hins vegar aldrei rætt, þ.e. um staðbundna stofna. Það er staðreynd að verulegar líkur eru á því að hjá okkur sé þorskstofninn að einhverju leyti staðbundinn eða hegðun hans a.m.k. þannig. Því skyldi ekki þurfa að aðgreina þann hluta að einhverju leyti og taka mið af líffræðilegum staðreyndum eða aðstæðum og þó ekki væri nema líkindi, við sjálfa fiskveiðistjórnunina.

Halda menn að það séu betri vísindi að skipta rækjunni upp í innfjarðarækju og djúpfjarðarækju með því að draga línu þvert yfir Skjálfanda og þvert yfir Axarfjörð? Rækjan öðrum megin við línuna er innfjarðarrækja, algerlega óskyld hinni sem er millimetra utan við línuna á Skjálfanda. Sú heitir djúprækja og lýtur allt öðrum lögmálum í fiskveiðistjórnun. Halda menn að það séu meiri vísindi en að reyna að átta sig á hvað staðbundna hrygningin í fjörðum fyrir norðan og austan þýðir, hvaða skilaboð lífríkið er að senda og hvort ekki væri ástæða til að taka þau með í reikninginn þegar við útfærum fiskveiðistjórnina og sóknina á grunnmið næst landinu.

Það er dapurlegt, herra forseti, að menn skuli þrælast áfram í þeirri reginvitleysu að leggja allt að jöfnu í kerfinu, sókn hinna minnstu skelja upp í fjöru og verksmiðjutogara úti á ballarhafi. Þannig er það í þessu heimsins besta kerfi, eins og það sé sami hluturinn að fara með handfæri rétt út fyrir stórstraumsfjöruborðið og draga þar fisk og hitt að veiða með flottrolli eða botntrolli mörg hundruð mílur út. Ég held að menn ættu að velta því fyrir sér hvort þeir séu á réttri leið. Síðan eru kerfishagsmunirnir þvílíkir að menn ætla að færa þessi ósköp niður í grásleppuveiðina eins og ég nefndi hér áðan.

Ég hefði talið það gleðiefni ef Alþingi hefði mannað sig upp í að stokka algerlega upp þetta ónýta stjórnkerfi báta- og grunnslóðarflotans og setja þar girðingar, jafnvel tvær. Aðra t.d. við núverandi mörk, 10 eða 12 tonn og hina t.d. við 75 eða 150 tonn. Þar mætti finna út hvað væri heppilegast. Þannig mætti flokka flotann og stöðva þá óheillaþróun sem verið hefur í gangi, að sífellt saxist á vertíðarbátaflotann. Það er hættulegt og vont. Ég er sannfærður um að það er ekkí í þágu lífríkisins. Það er slæmt fyrir byggðarlögin og vont fyrir landvinnsluna. Þessi floti hefur lagt henni til uppistöðuhráefni. Ekkert af þessu er hér til umfjöllunar. Nei, áfram skal haldið og það sem eftir er af smábátaflotanum keyrt inn í framseljanlegan kvóta.

Í fjórða lagi, herra forseti, varðandi stærri skipin. Ég tel að Alþingi hefði betur gert grundvallarbreytingar á því fyrirkomulagi. Það er ekki gert hér. Það er ekki vottur af viðleitni, í þessu frv. né öðrum frá hæstv. ríkisstjórn um þessar mundir, til að gera lagfæringar á aflamarkskerfinu svo líklegt sé að um það verði meiri sátt. Það er ekki tekið á braskinu svokallaða. Það er ekki tekið á gróðanum sem einstakir aðilar hirða út úr kerfinu. Menn geta skotið sér á bak við það að hér sé aðeins brugðist við dómi Hæstaréttar. Hvar eru þá hin málin? Eru þá ekki tillögur sem koma til móts við þá óánægju og gagnrýni sem að ýmsu leyti er réttmæt móti hliðarverkunum þessa kerfis.

Ég tel einfalt að gera á því þær breytingar að það verði a.m.k. miklu betra en það er. Ég hef margoft lagt þær til. Það á að banna leiguna. Það á ekki að leyfa leiguna. Það er ástæðulaust. Aðlögun í kerfinu getur orðið í gegnum viðskipti með varanlegar heimildir. Leigan innan ársins, endurtekin ár eftir ár, er og hefur alltaf verið mesta siðleysið í þessu kerfi. Það að menn fénýti afnotarétt á sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar ár eftir ár, 50% annað árið og 100% hitt, eins og þetta var, án þess að nota það sjálfir, er og hefur alltaf verið siðleysi. Það átti aldrei að leyfa. Það átti að vera og er eðli þessa réttar að hann er afnotaréttur. Menn fá rétt til að taka tiltekið magn úr sjónum sem er í aðalatriðum sá réttur sem menn eiga að hafa, ekki hitt að græða einhvern veginn á honum. Þetta kerfi var ekki sett á til að skapa einhverjum sérstaka gróðafarvegi vegna kerfisins. Þeir geta grætt og mega gjarnan græða og þurfa að græða á sínum atvinnurekstri sem slíkum, standi þeir sig vel. Þeir eiga hins vegar ekki að græða á kerfinu.

Þetta má bæta með því að setja skýrar reglur um framsalið að öðru leyti og láta viðskipti með varanlega aflahlutdeild fara fram á Kvótaþingi. Þar á að vera kvótaþing en ekki gagnvart aflamarkinu eða leigubraskinu, sem á að banna. Um það framsal má setja þær takmarkandi reglur og þær leikreglur sem menn vilja viðhafa en það kann að vera nauðsynlegt að hafa einhvern hreyfanleika, það viðurkenni ég. Þar með er líka kominn grunnur til að skattleggja gróðann. Um leið og viðskiptin fara öll gegnum opinbert viðurkennt kaupþing, þá liggja á borðinu upplýsingar um verð. Þá er hægt að skattleggja gróðann af þeim viðskiptum. Það á að gera undanbragðalaust án þess að fyrningar eða yfirfærsluréttur sé fyrir hendi. Það á að skattleggja og gera upptækan þann gróða sem í slíkum viðskiptum verður innan ársins og það er hægt að gera. Ég hef lagt fram um það tillögu.

Það er mikið búið að tala um kvótabraskið. Hafa ekki einhverjir þingmenn hér, herra forseti, heyrt um það? Er ekki mikið búið að tala um kvótagróðann? En hvar eru tillögurnar um að taka á því, þeirra sem mest hafa talað? Nú skal ég leika sjútvrh. um stund og spyrja aðra eftir þeirra tillögum. Hvað hafa þeir lagt í þessum málum, sem mest hafa hneykslast á því hvernig menn græða á kvótanum? Hvar eru tillögur Sjálfstfl.? Hvar eru tillögur Framsfl., nema ályktanir á flokksþingum? Hvar eru tillögur Alþfl.? Hvar eru tillögur Kvennalistans? Þær eru engar. Ég hef aldrei séð fluttar neinar tillögur af neinum þessara eða Þjóðvaka um hvernig taka eigi á braskinu og kvótagróðanum. Slegið hefur verið upp fyrirsögnum um veiðiheimildir eða eitthvað ... (Sjútvrh.: ... að hneykslast á því að sjútvrn. ...)

Ég hef lagt til, herra forseti, að inn í lög um tekju- og eignarskatt komi ákvæði sem taki á þessum viðskiptaþætti málsins svo lengi sem hann er við lýði. Þó er það ekkert óskabarn mitt að þetta framsal sé fyrir hendi. Ef ég mætti gefa upp á nýtt og byrja á byrjuninni, þá er ég ekki viss um að ég mundi leggja til að leyfð yrðu viðskipti með þessi réttindi. Menn notuðu þau eða skiluðu þeim. Það væri að mörgu leyti hreinasta kerfið. Úr því að framsalið er leyft, þetta brask viðgengst og gróðinn sem allir hneykslast á, af hverju leggur þá enginn neitt til til að taka á honum? Hvernig stendur á því? Er það kannski vegna þess að menn vilji geta hneykslast á því, gert út á það og slegið með því pólitískar keilur að þetta sé óþolandi? Er það hugsanlegt? Spyr sá sem ekki veit.

Ég hef baksað við það, herra forseti, og er ég þó ekki sérfræðingur í skattalögum, að útfæra tillögur til að taka á þessum málum. Ég lagði til í frv. í fyrra og hef áður, í mörg ár, talað fyrir þeirri leið að svo lengi sem framsal með varanleg veiðiréttindi séu leyfð, þá sé söluandvirði þeirra gert upp sem tekjur innan söluársins. Ég hef lagt til að ekki verði heimilt að fyrna það og seldar veiðiheimildir að frádregnum keyptum veiðiheimildum séu skattlagðar nánast að fullu. Þetta er hægt að gera. Ég hef átt samskipti við ýmsa sérfræðinga í skattamálum til þess að fá það á hreint hvort á þessu væru einhverjir annmarkar.

Herra forseti. Hv. þm. megja gjarnan vita að ég er hér með sex blaðsíðna greinargerð frá ríkisskattstjóra sem ég fékk fyrir jólin. Það eru svör við ítarlegum spurningum sem ég lagði fyrir ríkisskattstjóraembættið um hvernig nálgast mætti þetta mál og skattleggja söluhagnað þennan. Ég hygg að með þeirri leiðsögn sem þar er að finna sé það ekki of mikið verk fyrir þá sem vilja að setja í lögin um tekju- og eignarskatt, bæði að því er varðar lögaðila og eins um einstaklinga í útgerð, ákvæði sem ná utan um þetta mál. Einstakir aðilar hirða með sér stórfelldan söluhagnað úr sjávarútveginum ef þeir hætta og eins hagar til í innbyrðis viðskiptum ef hann fellur til. Þetta er eðlilegast að takmarka með því að láta greiða sérstakan tekjuskatt af slíkum hagnaði sem komi til útreiknings og greiðslu á undan öðru uppgjöri fyrirtækjanna. Þó væri hægt að hugsa sér að við slit á fyrirtækjum eða þegar fyrirtæki væru gerð upp mætti, þegar öðrum eignum hefði verið ráðstafað á móti skuldum, ganga á þennan hagnað þar til skuldir hefðu að fullu verið greiddar. Slík ákvæði mætti útfæra og ættu þá allir að geta skilið sæmilega sáttir við sitt. Þá tæki ríkið hagnaðinn til sín í þeim mæli sem eftir væri, í aðalatriðum allan. Þó væri, til að ýta undir betri skattskil, nauðsynlegt að leyfa þar einhver frávik og ríkið gæfi eftir af skattinum þegar fyrirtækið sem verið væri að gera upp ættu ekki fyrir skuldum með ráðstöfun annarra eigna. Hver á skattprósentan að vera? 85--90% eða eitthvað því um líkt eða 50% brúttóskattur ofan á 30% tekjuskatt fyrirtækjanna ef um hann er að ræða.

Þannig má, herra forseti, nálgast þetta mál. Með þessu væri komið til móts við þá gagnrýni sem vegur kannski hvað þyngst í óánægjunni með núverandi stjórnkerfi fiskveiða.

Hvað fleira ætti að gera, herra forseti? Jú, að mínu mati hefur lengi verið brýnt að grípa til ákveðinna aðgerða svo lengi sem aflamarkskerfið er við lýði og bæta umgengnina um auðlindina. Öllu heldur er þörf á að bregðast við þeirri hættu sem er samfara þessu kerfi umfram önnur. Það er viðurkennt.

Aflamarkskerfi. Það að mæla þann afla sem menn hafa rétt til að koma með að landi felur í sér þá hættu að menn flokki aflann og leggi verðmætasta hluta þess sem þeir hafa fengið upp á dekkið í hverri veiðiferð. Það liggur í hlutarins eðli að sú hætta er fyrirfarandi --- eins og sagt er á þessu fína lögfræðimáli frá Hæstarétti --- við slíkar aðstæður. Ég hef ekki almennilega áttað mig á hvað orðið þýðir. Við skulum bara segja að sú hætta sé viðvarandi. Meðan menn ætla að reyna að stýra sókninni svona ýtir það frekar undir að aflinn sem að landi kemur sé flokkaður. Ef menn hafa tiltekinn fjölda sóknardaga þá er engin ástæða til annars en reyna að bjarga öllum verðmætum í land, sem þeir á annað borð komast yfir í hverri veiðiferð, er það ekki? Hvort sem það er smár eða stór fiskur. Þetta skilja menn og við þessu er hægt að bregðast.

Aldrei hefur komist af stað, herra forseti, nein vitræn umræða um hvort ekki megi útfæra reglur um meðafla, einhvers konar meðaflaákvæði, þannig að hvatt sé til þess að koma með allt að landi, þó kvótinn sé reiknaður af tilteknum hluta aflans. Það má aldrei. Af einhverjum undarlegum ástæðum bregðast menn yfirleitt þannig við, helstu hagsmunagæsluaðilar þessa kerfis, að allar slíkar hugmyndir eru barðar niður. Það er undarlegt, herra forseti. Ef mönnum þykir vænt um kerfið og trúa að það sé besta kerfi í heimi, af hverju vilja menn þá ekki lagfæra á því ágallana? Nú held ég að enginn maður reyni að bera á móti því að aflamarkskerfið felur þessa hættu í sér umfram sóknartakmarkanir, að brottkast verði meira. Af hverju vilja menn þá ekki leita leiða til að sníða af að einhverju leyti gallana? Það er undarlegt.

[17:15]

Ég hef t.d. margsinnis lagt til að heimilt yrði að skilgreina innan vissra marka einhvers konar meðaflareglu þannig að þegar sótt væri á tiltekin mið í tiltekna stofna, við skulum segja sumarveiðar á ýsu á Faxaflóa, mættu menn koma með 15% af þorski og landa því sem meðafla þó þeir hefðu ekki kvóta fyrir því af því að ég hygg að það sé svo að einn og einn þorskur slæðist með ýsunni, ef ekki í land þá a.m.k. upp á dekkið. Hvað er hætt við að gerist ef menn hafa engan kvóta fyrir honum og leigukvótinn kostar svipað eða meira en kílóverðið af þorski er í landi? Þá er veruleg hætta á því að einn og einn fari í hafið aftur og sennilega dauður. Það er bara þannig, þetta vita menn. Samt eru svona veiðar stundaðar. Samt eru bátar með nánast engar þorskveiðiheimildir að berjast um á öðrum veiðum, reyna að veiða flatfisk í snurvoð og koma dag eftir dag að landi eingöngu með flatfisk. Það vita allir sem hafa verið á snurvoð að yfirleitt kemur eitthvað annað með, eitt og eitt ígulker eða einn og einn þorskur. Hvert fer hann þá ef hann kemur ekki að landi?

Ef menn mættu t.d. við slíkar veiðar landa einhverjum meðafla og þeir fengju kannski 5 kr. á kg sem næmi einhverri lítilli þóknun fyrir það að ganga frá fiskinum sem yrði síðan seldur á uppboði og Slysavarnaskóli sjómanna fengi andvirðið halda menn ekki að hann kæmi að landi. Hafa menn ekki þá trú á íslenskum sjómönnum að þeir mundu sjá til þess að Slysavarnaskóli sjómanna fengi sitt? Ég held það. Aldrei hefur mátt reyna eitthvað slíkt til þess þó ekki væri nema til reynslu að ná árangri í því að bæta umgengni um auðlindina.

Hins vegar getur ráðuneytið ákveðið einn daginn að koma megi með undirmál að landi utan kvóta. Svo ákveður það hinn daginn að banna það. Íslenska sjútvrn. hefur gert það með reglugerð. Stundum mátti koma með undirmál utan kvóta að landi en stundum ekki. Vita menn það? Nei, það er ekki víst að allir hafi áttað sig á því. Ráðuneytið tók sér vald til þess. En hið háa ráðuneyti hefur aldrei mátt heyra það. Þeir sem ráðið hafa ferðinni þar og í krafti meiri hluta farið með húsbóndavaldið í ráðuneytinu hafa ekki léð máls á því að skoða einhverjar slíkar útfærslur til að taka á þeim augljósa ágalla besta fiskveiðikerfis í heimi að það ýti undir að fiski sé hent í sjóinn við vissar aðstæður.

Ég held í fimmta lagi, herra forseti, að ef menn væru að ræða það að setja einhvern grunn, eitthvert öryggisnet, þá á ég ekki við skitin 1.500 tonn til Byggðastofnunar inn í kerfið til að bæta stöðu byggðarlaganna og draga úr því öryggisleysi sem fólk í minni byggðarlögunum býr við, einkum minni sjávarútvegsbyggðunum, þá væri það til mikilla framfara. Auðvitað blasir það við að mínu mati að það voru reginmistök að byggðatengja ekki að einhverju leyti réttindin strax í upphafi. Það var enn eitt málið sem var barið niður og var rægt í hel. Það var rægt í hel af hæstv. ráðherra Halldóri Ásgrímssyni og öðrum fylgimönnum hans sem vildu koma þessu kerfi á eins og það er. Muna menn hvað var notað til að drepa niður allar umræður um það að byggðarlögin mættu hafa nokkurn rétt í þessu? Það var spilling, misnotkun, klúður. Það yrði svo ægilegt klúður þegar sveitarstjórnirnar færu að úthluta þessu, það væri ekki hægt. Það stóð aldrei til, a.m.k. ekki í mínum huga. Það stóð aldrei til. En það dugði þessum mönnum til að rægja niður allar hugmyndir um að eitthvert öryggisnet yrði sett undir byggðarlögin í þessum efnum. Það var mjög auðvelt að gera það. Það mátti t.d. gera það eins og tillögur Alþb. á árunum 1985--1987 gengu út á að úthluta öllum veiðiheimildunum á skip nákvæmlega eins og gert var í kerfinu. En ef þau yrðu seld yrði tiltekinn hluti veiðiréttindanna eftir í byggðarlaginu. Einfalt kerfi. Sveitarstjórnin þurfti ekkert að koma nálægt því eða kássast í því. Þessu var úthlutað nákvæmlega hlutfallslega á grundvelli aflareynslu eins og var. Eini munurinn var sá að útgerðaraðilinn hafði ekki óskoraðan rétt til þess að selja allt burt úr byggðarlaginu. Hann gat selt skipið sitt, vonandi fengið fullt verð fyrir það og hann gat jafnvel látið einhvern hluta veiðiréttindanna fylgja skipinu en restin varð eftir.

Hvað mátti gera í viðbót? Það mátti ákveða hvernig yrði farið með það sem eftir var. Hvað var einfaldast að gera? Það var að fyrir lægi sú leiðbeining í lögunum að því yrði úthlutað hlutfallslega á þá sem eftir væru í byggðarlaginu og stunduðu útgerð. Einfalt, skýrt, ekkert klúður, engin sveitarstjórn, ekkert vesen. Þetta mátti ekki. Nei.

Hvað hefði gerst á Breiðdalsvík ef nákvæmlega þessi regla hefði verið við lýði? Ætli það hafi ekki verið þar 3.000 þorskígildi fyrir ekki löngu? Einn togari og einn bátur. Segjum bara að þó það væri ekki nema þriðjungur af fiskveiðiréttindunum sem voru uppistaða atvinnulífsins á Breiðdalsvík þangað til fyrir stuttu hefðu verið tengd byggðarlaginu. Svo hefði það gerst sem síðan gerðist að togarinn væri seldur og báturinn farinn og sameinað fyrirtæki komið í hendur annarra aðila, þá væru þúsund tonn eftir á Breiðdalsvík. Þó skipin hefðu farið burt úr byggðarlaginu þá hefðu 30% orðið eftir. Þá hefðu Breiðdalsvíkingar núna þúsund tonn. Hvað gætu þeir gert við þau? Þeir gætu sett auglýsingu í Morgunblaðið og sagt: Útgerðaraðilar óskast til samstarfs við Breiðdælinga. Í boði eru þúsund tonn til að koma fótum undir nýtt útgerðarfyrirtæki á staðnum. Hver vill koma? Ég skal svo lofa ykkur því að símarnir á Breiðdalsvík yrðu svoleiðis rauðglóandi að annað eins hefði ekki þekkst í vinsælustu innhringingarþáttum útvarpsstöðvanna, hvað þá annað. Auðvitað mundu fjölmargir kvótalitlir útgerðarmenn um allt land fagna því að geta komið til samstarfs og flutt útgerð sína í byggðarlag þar sem þeir fengju stuðning af því tagi við að hefja útgerð.

Nú sé ég að formaður hv. sjútvn hristir höfuðið og það vekur mér nokkra furðu. Heldur hv. formaður sjútvn., ef ég má leyfa mér að túlka höfuðhreyfingarnar, að engir útgerðarmenn séu þannig staddir með útgerðir sínar að þeim mundi þykja spennandi að sjá svona auglýsingu í Morgunblaðinu og þó það væri Degi? Ég skal lofa ykkur því að ekki væri mikill vandi að koma fótum undir myndarlegt útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á nýjan leik á Breiðdalsvík ef heimamenn ættu þar þúsund tonn. Ég þekki mörg dæmi um það að einmitt þetta hefur bjargað byggðarlögum og ég ætla að leyfa mér að nafngreina eitt þeirra, Grenivík. Það var lán og gæfa Grenivíkur þegar erfiðleikar dundu þar yfir núna fyrir nokkrum árum sem við þekkjum sum hér að sveitarfélagið hafði ráðist í útgerð nokkrum árum áður, keypt bát og veiðiheimildir og hélt eftir þeim veiðiheimildum þegar illa fór og hefur síðan getað notað þær í samningum við aðra aðila til að halda uppi fiskvinnslu á staðnum. Þar erum við að tala um minni veiðiheimildir en ég hef verið að nefna. Það dugði samt vegna þess að auðvitað er mikil beita að hafa þær veiðiheimildir, jafnverðmæt og þessi réttindi eru því miður orðin í kerfinu.

Svona ætti að mínu mati að reyna að tryggja stöðu byggðarlaganna í þessu kerfi. Það er einfalt og auðvelt. Ef menn hafa áhyggjur af byggð í Grímsey er ein aðgerð öllum öðrum fremri til þess að tryggja að hún haldist. Hver er hún? Það er að festa einhverjar myndarlegar veiðiheimildir við eyna og segja bara: Það er bara hlutdeild Grímseyinga og hún er hér. Svo lengi sem menn vilja koma og róa frá Grímsey og gera þar út, leggja þar upp, hafa þeir hlutfallslegan aðgang að þessum veiðiheimildum. Þetta regúlerar sig sjálft því að eftir því sem mönnum mundi fækka, þeim mun meira kemur í hlut hvers og eins og þá verður aftur spennandi að koma á staðinn. Ég býst við því að minni staðir sem eru algerlega háðir trilluútgerð og bátaútgerð mundu blómgast. Staðir eins og Grímsey, Borgarfjörður eystri, Bakkafjörður, Norðurfjörður á Ströndum, hvað þeir heita, ef þeir hefðu 200, 300--400 tonn hver í fastan grunnkvóta. Það þarf ekki meira.

Reyndar er þetta ekki ný hugsun. Það er t.d. þannig að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. samgrh. Halldór Blöndal fóru í heimsókn til Grímseyjar, og mér er sagt að þeir hafi ekki talið það mikið mál að taka tillit til sérstöðu Grímseyjar og láta þá hafa veiðiheimildir. Ég hafði verið þar á ferð skömmu áður og ég hafði sagt að þó að ég teldi rökin vera fyrir hendi, samanber það sem ég hef verið að segja, hefði ég því miður efasemdir um að fyrir því yrði unnt að skapa meiri hluta að festa sérstaklega veiðiheimildir við Grímsey. Var ég þó ekki að tala um einhvern Seljavallapott heldur varanlegan grunn fyrir útgerð og byggð á staðnum til að standa á. En hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. lofuðu þessu úti í Grímsey og væri fróðlegt að þeir kæmu til umræðunnar og útskýrðu fyrir mér og öðrum hvort þetta er á leiðinni. Er þetta á leiðinni? Það var hringt utan af sjó í Þjóðarsálina og þeim var hrósað, hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni og hæstv. samgrh. Halldóri Blöndal, fyrir gjafmildina sem þeir hugðust sýna Grímseyingum. Ég hef reyndar ekki frétt af þessum kvóta enn. Ég var skammaður í sama símtali fyrir að hafa verið með efasemdir og það væri einhver munur að fá svona höfðingja í heimsókn eins og forsrh. og samgrh. og varð ekki mikið um það, glöðum á góðri stund, að lofa Grímseyingum kvóta. Hann er að vísu ekki kominn enn þá. Það er það sama með jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem þeir munu hafa lofað á þeim bæjum að væru á næsta leiti. En þetta væri það sem ætti að gera, herra forseti.

Af því að hæstv. sjútvrh. munar mjög í tillögur og það er skiljanlegt af því að hann hefur lítið af þeim sjálfur og nýjum eða frumlegum hugsunum í þessum efnum, þá skal ég koma með eina í viðbót handa honum. Ég tel að gáfulegra væri að ráðstafa aukningu í þorski en þær hugmyndir sem í gangi hafa verið að bjóða þær upp. Vilji menn gera eitthvað fyrir sjávarútvegsbyggðarlögin og þá sérstaklega þau byggðarlög sem standa höllustum fæti, minni sjávarútvegsbyggðirnar sem eru algerlega háðar þorskveiðum og báta- og smábátaútgerð, ættu menn við næstu aukningu í þorskveiðiheimildum að taka einhvern hluta frá og nota það til að setja inn á staðina einhvern svona grunn. Það eru full rök fyrir að gera það. Það lætur nærri að við séum að fara upp í veiðiheimildir í þorski sem nema meðaltalsafla, meðaltalsjafnstöðuafla á öllu kvótatímabilinu. Það er ekki fjarri lagi að við séum að nálgast það um þessar mundir, 250--270, 300 þús. tonn sem er í sjónmáli og þá er að mínu mati ekkert að því að Alþingi ákveði að við tökum einhvern hluta aukningarinnar frá og setjum þó seint sé inn á byggðarlögin eða inn í pott sem lýtur í aðalatriðum þessum lögmálum sem ég hef verið að fara yfir. Ég spái því að þá mundu menn þurfa minna fyrir því að hafa á næstu árum að vera með í höndunum vanda þessara sjávarútvegsbyggðarlaga vegna afleiðinga kerfisins.

Hin hugsunin að bjóða þessa viðbót upp vegna þess að menn langar svo í auðlindagjald er a.m.k. ekki heppileg hvað það varðar að bæta stöðu hinna minni byggða því að ólíklegt er að einmitt þeir sem hafa misst frá sér veiðiheimildir af því að þar er allt í kaldakoli, stæðu best að vígi að borga hæsta verðið fyrir það sem yrði boðið upp, eða hvað? Gengur þetta ekki þannig fyrir sig samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar? Ég er hræddur um það. Þar yrðu auðvitað þeir peningasterkustu sem hefðu besta hlutinn.

Herra forseti. Í allra síðasta lagi, svo rædd séu hér nokkur atriði sem gaman hefði verið að Alþingi hefði verið að fást við er staða fiskvinnslunnar, við værum að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að tryggja að hún fái hráefni í land á komandi árum. Hefur enginn áhyggjur nema ræðumaður af því sem er raunverulega að gerast að íslenska fiskvinnslan á í sífellt harðari baráttu við að fá ferskt hráefni til vinnslu? Hún er ekki bara að kaupa það frá Rússlandi. Hún er að kaupa það frá Kanada og Alaska og guð má vita hvaðan. Í Ólafsfirði er rekið myndarlegt fiskvinnslufyrirtæki sem saltar fisk og þurrkar fisk til útflutnings á Suður-Ameríku, hefur verið þar í landvinningum og hefur algerlega bjargað atvinnulífi á Ólafsfirði því þar er nú ekki tittur af kvóta Ólafsfirðinga sem áður var unninn í landi, ekki einn einasti tittur. Hvaðan fær þetta fyrirtæki hráefni? Frá Alaska og Kanada og Rússlandi. Þannig er komið að staðir sem á pappírnum eiga mörg þúsund þorskígildi af kvóta, að vísu í sameign með öðrum, nálægu byggðarlagi, verða að kaupa hvern einasta sporð sem þar er unninn úr fjarlægum heimsálfum. Það gengur sífellt á þann hlut af fersku hráefni sem er landað inn í vinnsluna og hún á í vaxandi mæli í erfiðleikum, ekki bara að borga fyrir hráefnið það háa verð sem heimtað er, heldur að fá það. Það hefur enginn áhyggjur af þessu. Það er ekki verið að bregðast við þessu hér. Er það? Kerfið er þannig að eftir fimm ár gæti hver einasti sporður á Íslandi verið kominn á 70 frystitogara. Það er opið fyrir það, allt nema þá það sem væri lokað undir girðingunni á sex tonna bátum. Enginn hefur áhyggjur af því að keyra svona áfram, er það? Bátaflotinn gæti þess vegna þurrkast upp og hætt að landa yfir höfuð fersku hráefni til vinnslu í landi. Þetta er þannig.

[17:30]

Ef fjallað er um stöðu fiskvinnslunnar í þessu sambandi, menn velta fyrir sér þeirri þróun sem þar hefur verið í gangi og spá í hana, er þar þá eitthvað vitlaust gefið? Eru samkeppnisskilyrðin þarna ósanngjörn? Eða eigum við jafnvel að gera það sem reyndar flestar aðrar þjóðir gera, að leggja einhverjar kvaðir eða skilyrði á þá sem fá veiðiréttinn til þess að vinnsla haldist í landi? Það væri eitthvað sem hefði verið áhugavert, herra forseti, að ræða um. En það er ekki hér á ferðinni og hefur ekki verið og hefur þó hæstv. núv. sjútvrh. haft sjö ár til þess að reyna að koma einhverjum slíkum hlutum fram og rúmlega það. Hann getur ekki beinlínis borið fyrir sig tímaskorti, eða hvað?

Herra forseti. Ég verð að segja það að oft hefur mér þótt umræðan um sjávarútvegsmál á Íslandi furðuleg. Ég ætla tímans vegna ekki að fara að rekja það, sem þó hefði verið gaman, þ.e. það sem ýmsir félagar mínir og starfssystkin hafa sagt um þau efni, sérstaklega fyrir kosningar, í ljósi þess hver viðbrögðin hafa síðan verið eftir þær, ef t.d. þeir hinir sömu menn hafa ratað í þá ógæfu að flokkar þeirra hafa síðan gerst aðilar að ríkisstjórnum. Það er satt best að segja harla skrautlegt. Ég minni stundum á auglýsinguna í Bæjarins besta eða hvað það hét, blaðið á Ísafirði, (KHG: Vestfirska fréttablaðið.) Vestfirska fréttablaðið, þar sem ónefndir menn lofuðu því að fyrr skyldu þeir dauðir liggja en styðja nokkra þá ríkisstjórn sem framlengdi kvótakerfið. Síðan gerðust sömu menn stuðningsmenn ríkisstjórna í heil átta ár sem festu kvótakerfið í sessi í þeirri endanlegu mynd sem það er nú. (KHG: Það er óhætt að nefna þá.)

Stundum hefur líka verið minnt á sérstaka sjávarútvegsstefnu ónefndra flokka á Suðurnesjum eða í Grundarfirði svo dæmi séu tekin. En allt skiptir þetta kannski litlu máli borið saman við hitt, sem er aðalatriðið, að menn reyni að nálgast þessi mál og ræða þau efnislega. Ég held að umræðan á Íslandi hafi aðallega goldið fyrir þá sérkennilegu áráttu Íslendinga sem nóbelsskáldið lýsti reyndar vel á sinn hátt og ég er ekki fær um að gera eða endurtaka einu sinni, en ég gæti reynt að segja að væri þessi mikla árátta til að ræða alla hluti í svart/hvítu, að hlutirnir séu annaðhvort alvondir eða algóðir. Er það ekki sérkennilegt, herra forseti, að einhverjar algengustu fullyrðingar sem við heyrum um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið eru þessar tvær, að þetta sé algerlega óverjandi og óþolandi ástand og menn ganga svo langt að segja að þeir ætli í heilagt stríð gegn kerfinu. Og hin fullyrðingin sem er sennilega næstalgengust, hver er hún? Að þetta sé besta kerfi í heimi. Það er pínulítið bil þarna á milli, er það ekki? En svona hefur umræðan verið. Einu mennirnir sem hafa fengið á sig skammir og skot úr öllum áttum eru þeir sem ekki hafa tekið þátt í þessu. Það eru þeir sem hafa verið að reyna að segja kost og löst á hlutunum eins og þeir koma þeim fyrir sjónir. Ég tel mig vera í þeim hópi. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé að kvarta undan gagnrýninni eða einhverjum skotum sem maður hefur fengið á sig. Ég held áfram mínum málflutningi þrátt fyrir það. En ég held að þetta sé svona, herra forseti. Ef menn hefðu í meira mæli fengist til að róa umræðuna aðeins niður og vera ekki endilega að nálgast viðfangsefnið út frá því að þetta sé annaðhvort gersamlega algerlega alvont eða þá besta kerfi í heimi, þá hefðu menn hugsanlega náð eitthvað meiri árangri og umræðan orðið aðeins vitrænni.

Herra forseti. Ég fór í sögulega upprifjun eins og ég vék aðeins að í byrjun, m.a. vegna þess að ég var að reyna að átta mig á því, ef það mætti hugsanlega verða til þess að skýra málið fyrir einhverjum öðrum, hverjar rætur þessa kerfis sem við erum að fjalla um væru, aflamarkskerfisins annars vegar og veiðileyfanna hins vegar. Og ég komst að því að þær væru einar og hinar sömu. Þetta er runnið upp af sömu rót. Viðmiðunin er sótt til þeirra sem sóttu sjó á árunum 1981--1983 og sækir viðmiðunin annars vegar til afla þeirra og hins vegar til skipastólsins eins og hann var þá samansettur.

Ég fór líka að skoða hvað menn voru að segja og hvað menn lögðu til á árunum þegar kvótakerfið var upp tekið. Ég hef heilmikið velt því fyrir mér hvernig málin hefðu getað þróast ef menn hefðu staðið öðruvísi að málum t.d. 1983. Það er náttúrlega enginn vafi á því, herra forseti, við verðum að horfast í augu við það, að þær ákvarðanir sem þá voru teknar á Alþingi hafa reynst alveg gífurlega afdrifaríkar og var það þó sagt sett á til bráðabirgða í eitt ár. Hérna uppi í henni efri deild sálugu fóru menn í svardaga og réttlættu stuðning sinn við málið með því að þetta væri bráðabirgðaráðstöfun til eins árs, þetta væri að sönnu alveg skelfilegt kerfi og ómögulegt og þeir mundu aldrei styðja það sem frambúðarkerfi, en ætluðu að styðja það í þetta sinn af því að þetta væri bráðabirgðaráðstöfun í eitt ár. Var það ekki? (Gripið fram í.) Það kom annað á daginn. Kerfið er búið að lifa góðu lífi síðan, eða hvað við eigum að kalla það.

Ég ætla þess vegna að leyfa mér, herra forseti, a.m.k. að rifja upp hvað ég lagði til og er þá enn að leggja í það púkk að menn geri grein fyrir sínum sjónarmiðum og sínum tillögum. Ég flutti ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum, Geir Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni, brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar í neðri deild í desember 1983 og það væri gaman að velta því fyrir sér hvernig málin hefðu getað þróast ef þær hefðu allar verið samþykktar. Þá hefði Alþingi í grundvallaratriðum valið aðra leið þó það hefði sett á takmarkanir, því við vorum ekki andstæðingar þess að grípa þyrfti til aðgerða vegna alvarlegs ástands í fiskstofnunum.

Einhverjir hafa kannski gaman af því, herra forseti, að það sé rifjað upp að fyrsta brtt. sem ég var fyrsti flutningsmaður að, var um sameign þjóðarinnar á auðlindunum. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Á undan 1. gr. komi ný grein sem orðist svo:

1. mgr. 2. gr. laganna orðist svo:

Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.``

Þetta var fellt. Það var fellt þá. En þetta er sannarlega, herra forseti, fyrsta tillagan sem flutt var um að sameignarákvæði á auðlindunum kæmi inn í lögin um stjórn fiskveiða. Ég hef að vísu tekið eftir því að síðan hafa ýmsir menn gjarnan viljað eiga höfundarréttinn að þessu og ég hef heyrt menn í fjölmiðlum eigna sér af því allan heiður að þeir hafi (Gripið fram í: Og fá það samþykkt.) komið þessari hugsun á blað. Jæja, fá það samþykkt. Það er rétt að það var síðan samþykkt nokkrum árum seinna og þeir menn eiga vissulega heiður skilið sem áttu hlut að því máli. Þarna kom sameignarákvæðið í fyrsta skipti til atkvæðagreiðslu á Alþingi í þessum búningi. Hugsuninni hafði verið hreyft í fyrri frumvörpum, m.a. stjórnarskrárfrumvörpum. Bæði hv. þm. Ragnar Arnalds og eins hv. þm. Bragi Sigurjónsson höfðu verið með málflutning uppi sem gekk í sömu átt. En þarna var það í fyrsta skipti flutt sem lagatexti og fellt. Menn gerðu m.a. grein fyrir atkvæði sínu. Það gerði hæstv. núv. forseti þingsins og einhver hefur kannski gaman af að rifja það upp, þ.e. ekki sá sem nú situr í stóli heldur hv. þm. Ólafur G. Einarsson. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Íslendingar hafa þegar helgað sér landgrunnið allt með gögnum þess og gæðum. Tillaga þessi er því óþörf og ég segi nei.``

En hún var engu að síður samþykkt nokkrum árum síðar og hefur heldur betur reynst afdrifarík eða hvað? Er það ekki til hennar sem Hæstiréttur einmitt vísar?

En við lögðum fleira til, herra forseti, sem gaman væri að vita hvaða afleiðingar hefði haft ef það hefði verið samþykkt. Þó það sé kannski hálfgerð leikfimi að ræða þessa hluti í þáskildagatíð, þ.e. ef þetta og þá hitt, þá er það nú samt þannig að maður veltir því stundum fyrir sér, og það er allt í lagi, hvort menn hefðu kannski sloppið við ýmis óþægindi ef menn hefðu staðið öðruvísi að málum. Við lögðum til að fiskveiðistefnan yrði árlega mótuð af Alþingi með þál., hún yrði ekki sjálfvirk formúla í höndum sjútvrh. eins og því miður varð heldur yrði Alþingi sjálft látið staðfesta rammann um fiskveiðistjórnina með þál. árlega. Við lögðum til að grundvöllur þeirrar afgreiðslu Alþingis yrði þríþættur, þ.e. að tryggja að atvinna yrði sem samfelldust, að sem mest hagkvæmni fáist við nýtingu fiskstofna og að þess sé gætt að ekki verði gengið á stofnana. Ég held að það hefði ekki verið slæmt ef menn hefðu strax á árinu 1983, fyrir 15 árum síðan, ákveðið að leggja þessa þrjá meginþætti til grundvallar, atvinnuþáttinn í landi, hagkvæmnina við veiðarnar og sjálfbæra nýtingu stofnanna. Þá var það hugtak að vísu ekki þekkt, a.m.k. ekki í þeim skilningi og nafnið ekki orðið til, en þarna er hugsunin.

Við lögðum til í þriðja lagi að ráðherra skipaði nefnd til að eiga aðild að þessum málum þannig að fulltrúar fiskverkenda, útgerðarmanna, sjómanna og verkafólks í fiskvinnslu kæmu að þessu í samstarfsnefnd með stjórnvöldum í stað þess að niðurstaðan varð sú að einum aðila var úthlutað öllum réttindunum, þ.e. útgerðinni. Þarna hefði gjarnan mátt bæta við byggðarlögunum.

Við lögðum til í fjórða lagi að nefndin sem fengi tiltekið stjórnsýsluhlutverk gæti heimilað tilflutning aflaleyfa en óheimilt væri að selja aflaleyfi. Strax 1983, í desember það ár, stóðu heitar umræður um það á Alþingi að þegar þessi takmörkun yrði á sett væru líkur á að hún yrði smátt og smátt verðmæt, hún yrði verðmæti í höndum manna, aðgangurinn að miðunum. Og ætti þá að leyfa sölu á þeim aðgangi? Menn hefðu betur svarað þeirri spurningu strax og fengið botn í það mál áður en lagt var af stað heldur en láta það þróast smátt og smátt eftir því sem málinu var olnbogað áfram.

Við lögðum í síðasta lagi til, herra forseti, af því sem ég nefni til sögunnar eftirfarandi:

,,Á eftir 10. gr. laganna komi ný grein sem verði 12. gr. og orðist svo:

Ekki verður með stoð í lögum þessum ákveðið aflamark á handfæra- eða línubáta. Þó er heimilt að ákveða heildarmark fyrir línuveiðiskip.``

Hvað vorum við að leggja þarna til, sem talsvert hefur verið rætt um síðan? Við vorum að leggja til frjálsar handfæraveiðar og heildartakmörkun á línuveiðar. Menn hefðu kannski sloppið við mikla þrautagöngu ef þeir hefðu gert þetta og þá um leið það sem var sjálfsagður hlutur, stöðvað sjálfvirka fjölgun í þessum hluta flotans sem síðan var skilinn eftir sem gat og óx og óx og skapaði þau endalausu vandræði sem menn hafa síðan verið með í höndunum hvað varðar fiskveiðistjórn á smábátum. Ég held það, herra forseti. Stór hluti af þeirri ógæfu sem fiskveiðistjórnin hefur á ýmsan hátt, því miður, ratað í rekur sig aftur til þess að undirbúningur málsins var allur í skötulíki. Þessu var olnbogað í gegnum þingið á næturfundum í kringum jólin, í desember 1983, og það var réttlætt með því að um væri að ræða bráðabirgðaráðstöfun til eins árs. Það hefur heldur betur reynst bráðabirgðaráðstöfun eða hvað? Í raun og veru vantaði allar skilgreiningar, alla útfærslu og svör við öllum þeim áleitnu spurningum sem þó kviknuðu eða hlutu í framhaldinu að kvikna. Og hvað hafa menn síðan verið að gera? Menn hafa verið að prjóna flíkina. Ég hef einu sinni á fundi, og það má alveg fara inn í þingtíðindin, líkt þessu við það, af því að ég sé hérna fallega peysu úti í salnum, að þetta væri ekki ólíkt því sem mundi gerast ef tekinn væri hringprjónn og fitjað upp á peysu utan um mann og svo væri peysan prjónuð á manninum. Það er í raun og veru það sem gerðist með kvótakerfið. Flíkin var prjónuð á manninum. Það var bara fitjað upp þarna 1983 í hasti til bráðabirgða. Svo komu náttúrlega alls konar hlutir í ljós, það kom handleggur hér og öxl þar og þá var bara prjónað í allar áttir og kerfið varð þannig til sem alls konar reddingar, útúrdúrar og vandræðagangur. Það er nú þannig.

[17:45]

Að mínu mati er alvarlegasta meinsemdin --- og þá er ég kominn aftur að upphafinu, þessu með 5. gr. og réttindin --- að menn skilgreindu ekki réttindin nákvæmlega og lögfræðilega strax í byrjun. Það er meginógæfan. Ef menn hefðu strax 1983 sagt: Þessi réttur er afnotaréttur af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og hann verður þannig útfærður og í reynd meðhöndlaður þannig að hann sé afnotaréttur, þá hefðu menn getað sparað sér margan krókinn og mikið af keldum að mínu mati. En því miður var þetta ekki gert. Í kjölfarið hafa siglt deilur um það hvað þetta væri, hvort þetta væri í raun eignarréttur eða ígildi hans o.s.frv.

Vissulega urðu þær breytingar sem gerðar voru á lögunum um stjórn fiskveiða, þ.e. 1. gr. 1987 ef ég man rétt og síðan aftur 1990, til mikilla bóta þegar sameignarákvæðið kom inn en þó var kannski enn þá mikilvægari viðbótin sem kom inn 1990 og útskýrði í raun betur hvaða tilgangi sameignarákvæðið í lögunum ætti að þjóna því að viðbótarsetningin gerir það. Hún útlistar að sameignarákvæðið feli í sér að úthlutun réttindanna geti aldrei falið í sér eignarréttarmyndun eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila. Aðalgildi þeirrar setningar er að með því er réttur Alþingis eða löggjafans til þess að breyta leikreglunum varinn. Það er og hefur alltaf verið að mínu mati aðalatriði málsins. Ekki hitt að leggja einhvern einkaeignarréttarlegan skilning í þetta orðalag að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar.

Ég hef oft sagt að aðalmisskilningurinn í þessu máli sé sá að menn halda að fiskimiðin séu hlutafélag og hver Íslendingur eigi 1/275000 af hlutabréfunum. Það er ekki þannig. Þetta er ekki þannig mál. Þetta er félagsleg sameign þjóðarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að þetta er sameign sem Alþingi fer með forræðið á fyrir hönd þjóðarinnar, setur leikreglur um nýtingu á í þágu þjóðarheildarinnar. En þetta þýðir ekki að Íslendingur, sem flytji til útlanda, labbi niður í sjútvrn. og fái hlutabréf sitt í miðunum og fari með það upp í Kaupþing og selji það. Þetta er ekki þannig. Þetta er ekki hlutafélag. Menn mega ekki leggja einkaeignarréttarlegan skilning í orðalag 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þetta er félagsleg sameign. Þannig eiga menn líka að nálgast þetta mál hvað sem líður dómi Hæstaréttar og túlkunum á honum fram og til baka.

Herra forseti. Ég held að viðbrögð manna við málinu séu á villigötum. Ég er nokkuð sannfærður um að á það mun reyna á næstu mánuðum, kannski hefði það alltaf gerst hvernig sem Alþingi hefði brugðist við, hvort þessi þrönga túlkun og skilgreining á dómnum stenst og jafnvel þó að svo verði, þó að menn sleppi fyrir horn eins og ég hef orðað það, leysir það ekki Alþingi undan þeirri skyldu að reyna að finna efnislegar lausnir sem einhver friður geti orðið um. Það verkefni stendur eftir jafnóleyst, eða hvað? Halda menn að þjóðin muni öll sofna vært og bara varpa andanum léttar og segja: Þetta er í lagi, þetta sleppur fyrir horn með dómi Hæstaréttar, og þar með séu allir hamingjusamir og öllu réttlæti fullnægt? Ég held að það verði ekki þannig.

Reyndar hef ég, herra forseti, af því nokkrar áhyggjur að umræðan um sjávarútvegsmál eigi eftir að breytast á næstu mánuðum eða missirum og þá í átt sem ég er ekki viss um að allir velti mikið fyrir sér núna því að aðalvandamálið hefur að ýmissa sögn verið gróðinn, ekki satt, og hvernig eigi að skipta honum. Ég hef því miður þá tilfinningu nokkuð ónotalega, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að við séum komin yfir mesta góðæristoppinn í sjávarútveginum og nú liggi leiðin heldur niður á við hvað varðar heildarafkomu greinarinnar að breyttu breytanda. Þar er að sjálfsögðu um mismunandi aðstæður að ræða, en það er alveg ljóst að ýmsar greinar sjávarútvegsins eiga aftur við lakari afkomu að stríða. Allir þekkja hvernig ástand mála er hjá rækjuiðnaðinum en það hefur einnig gengið erfiðleika bæði á loðnu og síldveiðum. Þar er lækkandi afurðaverð og það er ansi hætt við því að aukinn þorskafli á næstu árum kunni að verða veginn upp eða öllu heldur mínusaður sem nemur minni veiðum í öðrum stofnum sem standa mun lakar, stofnum eins og karfa, grálúðu og fleirum.

Það liggur fyrir samkvæmt nýjum upplýsingum frá hlutabréfamarkaðnum að arðsemi í sjávarútvegsfyrirtækjum er minni en í öðrum atvinnugreinum og virðist það ekki benda til þess að meginvandamálið sé að ekki skuli hafa tekist að koma sértækum skatti umfram aðrar greinar á þau fyrirtæki.

Svo mættu menn líka hugleiða, herra forseti, hvaða skilaboð eru út úr þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar að hún er að verulegu leyti, a.m.k. hvað landvinnsluna snertir, mönnuð með erlendu farandverkafólki, væntanlega vegna þess að íslenskt verkafólk fæst ekki til starfa í þessari atvinnugrein. Kjörin og starfsaðstæður eru þannig. Er það ekki áhyggjuefni? Finnst öllum að það sé bara framtíðarsýn sem sé allt í góðu lagi með að þessi atvinnugrein sem vinnuveitandi, eða a.m.k. að þessum hlutanum til, sé ekki meira aðlaðandi en svo að Íslendingar fáist þar ekki til starfa?

Herra forseti. Sjálfsagt er ekki mikill áhugi á því að fara aðeins yfir í almennar hugleiðingar um stöðu greinarinnar þó margt leiti á hugann í tengslum við umfjöllun um þetta mál og ekki víst að við höfum ýkja mörg tækifæri sambærileg eða betri til þess að ræða um hlutina almennt. Þess vegna hef ég tekið mér það bessaleyfi að gera það nokkuð í tengslum við það að lýsa viðbrögðum mínum eða viðhorfum til þessa frv. og brtt. meiri hlutans og nálgunar hæstv. ríkisstjórnar á því og segi það að lokum að ég spái því að við eða þeir sem á Alþingi munu sitja á komandi árum séum ekki búin að sjá það síðasta af þessu máli.