Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 17:54:03 (2976)

1999-01-11 17:54:03# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[17:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara því. Það er í aðalatriðum réttur skilningur. Ég held að framsal á veiðiréttindum smábáta, ef það eru réttindi sem eru í einhverju eðlilegu samræmi við afköst og eðli þeirrar útgerðar, sé tóm vitleysa og það eigi ekkert að leyfa það og þess þurfi ekki. Ég held t.d. að gömlu hugmyndirnar um einhvers konar reglu sem þýddi 10 tonn á tonn eða eitthvað þannig í stærð bátsins væri miklu heppilegri.

En aðalatriðið er þó það að veiðiheimildir þeirra smábáta sem stunda þá útgerð og þeirra manna sem hafa það að aðalatvinnu þurfa að vera í einhverju sæmilegu samræmi við það að menn geti skapað sér góða afkomu og búið. Það á ekkert að vera öðruvísi. Þetta er atvinna þessara manna, þetta eru einyrkjar og þetta er rétt eins og með bóndann að hann þarf að hafa sæmilegan framleiðslurétt til þess að geta haft þokkalega afkomu fyrir sig og fjölskyldu sína. Þetta á ekkert að vera meira. Það er eðli þessarar útgerðar. Þannig vil ég sjá hana. Ég vil frekar sjá smábátana, 20--30% fleiri og hvern fyrir sig, hafa bara hóflegar veiðiheimildir fyrir einn útgerðaraðila eða eina fjölskyldu til að komast vel af en sjá kannski 20--30 þeirra vera í óskaplegri kraftútgerð með margfaldar veiðiheimildir á við það sem aðrir hafa og þörf er á. Það er ekki draumakerfi mitt í þessu. Ef hólfin væru tvö, sem ég held að væri heppilegast, annars vegar smábátar, bátar undir 10--12 tonnum og hins vegar bátar af miðlungsstærð, dagróðra- og grunnslóðaflotinn þar sem stærðarmörkin, ég viðurkenni að það er svolítið erfitt að setja þumalinn á eitthvað visst, ég hef stundum sagt að 75--150 tonn væru í öðru hólfi, þá mundi ég segja: Ekkert framsal í neðri hópnum en hugsanlega einhverjar mjög takmarkaðar framsalsheimildir í þeim efri, engin leiga. Og jöfn skipti, ef því væri að skipta. Allt í lagi þótt hámark væri á fleiri en einni tegund en reyna að hlífa þessu kerfi við viðskiptaeðli hins kerfisins.