Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 18:04:40 (2979)

1999-01-11 18:04:40# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[18:04]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara fram á mér verði gefið smáhljóð. Ég vil síðan þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram í dag. Hún hefur staðið í fjóra klukkutíma þar sem talað hafa þrír fyrrv. alþýðubandalagsmenn hver öðrum betri. Ég get vissulega verið stoltur af því að hafa haft þetta fólk í pólitískri samfylgd nokkuð lengi. Þó að það hafi kosið að dreifa sér á þrjá stjórnmálaflokka mátti heyra í gegnum ræðurnar hjá þessu fólki að það er í grófum dráttum sammála um það sem skiptir máli. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir það og lýsa því yfir hve ég er stoltur af að hafa átt með því pólitíska samfylgd. Ég hef nú fengið að hlusta á ræðumenn í fjóra klukkutíma halda hér skínandi ræður. Um leið vil ég, herra forseti, láta koma fram að þetta gefur mér möguleika á að stytta mjög verulega ræðu mína vegna þess að samfylgd okkar hefur að sjálfsögðu haft það í för með sér að ég hef að ýmsu leyti, ekki öllu, góð áhrif á þetta fólk. Það hefur stutt ýmislegt af því sem ég hef flutt í gegnum tíðina og ég er þakklátur fyrir það.

Ég vil sérstaklega þakka fyrir þær tillögur Alþb. sem hv. síðasti ræðumaður greindi frá áðan, tillögur Alþb. frá 1983. Það voru tillögur flokksins sem hér voru fluttar í neðri deild árið 1983 af hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni, Geir Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni. Það stóð mjög sérkennilega á í sambandi við þessar tillögur, herra forseti. Fulltrúi okkar í sjútvn. neðri deildar studdi kvótakerfið og tillögurnar um það, hv. þm. Garðar Sigurðsson, þingmaður Suðurlands á þeim tíma. Á þeim tíma var niðurstaða okkar sem stjórnmálaflokks að flytja sérstakar tillögur sem voru undirbúnar á flokksvettvangi og fluttar eins og greint var frá hér áðan af hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann var 1. flutningsmaður þessara tillagna í þessum sal, en ég hygg að það hafi aðrir komið við sögu þegar sömu tillögur eða svipaðar voru fluttar í hv. efri deild.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þetta kerfi var tekið upp er augljóst að Alþb. hefur verið gagnrýnna á það en aðrir flokkar. Það er útilokað að halda því fram að Alþb. sem slíkt, sem flokkur, hafi borið ábyrgð á þessu kerfi. Það er algerlega fráleitt. Ég heyri t.d. að hæstv. sjútvrh. hélt því fram í sambandi við dóm Hæstaréttar að dómurinn byggðist á stefnu Alþb. Af því að hæstv. sjútvrh. er alltaf svo orðvar þá orðaði hann þetta nánast svona. Að sjálfsögðu er það þannig að við stóðum að þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum árið 1990. Ég studdi þær í efri deild þingsins á þeim tíma sem þingmaður stjórnarliðsins. Þær voru niðurstaða af málamiðlun sem við vorum auðvitað ekki öll sátt við. Sumir í þingflokknum voru reyndar á móti og ég hygg að hann hafi verið afar skiptur í því máli að ég segi nú ekki meira. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann skiptist en ég og fleiri studdum þessa málamiðlun, m.a. með hliðsjón af því að við vorum aðilar að ríkisstjórninni og studdum hana.

Ég ætla, herra forseti, ekki að fara yfir þessa sögu því að það hefur verið gert prýðilega í ítarlegum yfirlitum. Ég ætla hins vegar að nefna það að alls konar brtt. hafa verið fluttar við þetta kerfi á undanförnum árum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti margar slíkar tillögur sem þingmaður Alþb., t.d. tillögu um að afnema kerfið í fyrra eða hittiðfyrra. Ég man ekki betur en ég hafi verið flutningsmaður með honum ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Ég minnist þess einnig að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti sérstakar tillögur varðandi rétt 60 ára sjómanna og eldri til að komast inn í kerfið. Þar er því margt gott að finna í sambandi við þessi mál.

Ég ætla ekki að fara frekar í þetta en mér finnst leiðinlegt að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli ekki vera hér í salnum. Ég ætlaði að lýsa því yfir hvað mér finnst hann vera ötull að tileinka sér nýja siði og benda kannski á það í leiðinni að fullmikið hafi verið gert úr því að hann hafi farið með vitið úr húsinu þegar hann fór úr stjórnarandstöðunni og þar sé engin glóra eftir lengur. Þetta séu heldur vitlausar tillögur sem við leggjum fram ef við erum þá með nokkrar tillögur. En það er ekki þannig. Þó að hann sé vænn og tillögugóður að flestu leyti eins og allir vita, þá er ekki svo ekkert vit sé eftir í stjórnarandstöðunni þó að hann sé fluttur um set. Einn og einn maður í stjórnarandstöðunni getur örugglega verið með glóru í sjávarútvegsmálum, að ég hygg, og hæstv. sjútvrh. veit það mætavel eins og allir aðrir góðir og sanngjarnir menn í þessum sal.

Ég vil síðan, herra forseti, víkja almennt að dómnum sem er upphaf þessa máls. Ég tel að það sé jákvætt í sjálfu sér, burt séð frá efni málsins, að Hæstiréttur hafi sjálfstæða skoðun og dæmi í máli, ef hann telur það rétt, eins og hann gerði. Ég tel það ekki ámælisvert. Mér finnst gagnrýnin á Hæstarétt að mörgu leyti hafa verið ósanngjarna en aðalatriðið finnst mér vera, og ég vil undirstrika það, að mér finnst ég búa í frjálsu samfélagi þegar Hæstiréttur landsins kemst að niðurstöðu sem er á skjön við önnur stjórnvöld landsins. Það finnst mér vert að tala um og þakka fyrir.

Hins vegar er það nýtt í málinu og hefur valdið því að margir talsmenn stjórnarflokkanna hafa kippst við út af dómnum, að Hæstiréttur ákveður að það sé úrlausnarefni dómstóla að kveða á um hvernig takmarka megi svokallað atvinnufrelsi og svokallaðan fullveldisrétt Alþingis, sem til þessa hefur litið á sig sem fullvalda í þessu máli, megi takmarka. Það er nýtt. Ég hef tekið eftir því, m.a. í málflutningi hæstv. forsrh., að mönnum bregður nokkuð við þessi tíðindi. Þetta er hins vegar veruleikinn og þetta er nýtt. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að líta á hæstaréttardóminn frá víðara sjónarhorni en sérfræðinganefndin gerir. Ég er óánægður með niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar að einu leyti. Ég tel að hún hafi rétt fyrir í því að dómur Hæstaréttar sem slíkur tekur eingöngu á 5. gr. og afleiðingum hennar í þrengsta samhengi. Ég held að við verðum um leið að líta þannig á að dómur Hæstaréttar í þessu máli sé stefnumarkandi, þ.e. hafi víðari skírskotun en eingöngu til 5. gr.

Eru til fordæmi fyrir stefnumarkandi dómum Hæstaréttar? Já, þau eru til. Ég hef satt að segja ekki haft tíma eða aðstöðu til að fletta upp hversu mörg þau eru. Ég hef hins vegar heyrt um eitt og flett því upp. Ég hef athugað eitt dæmi þar sem Hæstiréttur kvað upp stefnumarkandi dóm sem hafði áhrif. Það var dómur í svokölluðu þungaskattsmáli sem var kveðinn upp af Hæstarétti á árinu 1980. Með öðru orðum, burt séð frá því hvort það er rétt eða rangt sem ríkisstjórnin leggur til í málinu, held ég að þurft hefði að skoða málið víðar af því að Hæstiréttur segir í dómnum sjálfum að dómurinn sé almennur og stefnumarkandi. Þar er ég sérstaklega að hugsa um þær setningar í reifun dómsins um stjórnarskrárákvæðin sjálf.

Þetta tel ég mikið umhugsunarefni og mér finnst mjög slæmt að menn hafi ekki fengist til að tala um þetta. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim lögfræðingum sem voru kallaðir til sögunnar og komu á vettvang sjútvn. Mér fannst þeir gera ágæta grein fyrir máli sínu að svo miklu leyti sem þeir gátu það, miðað við þann þrönga bás sem þeir höfðu markað sér. Ég held að ég rjúfi engan trúnað þó að ég skýri frá því að þeir viðurkenndu að ekki væri víst að þessi dómur væri síðasti dómurinn sem Hæstiréttur mundi kveða upp með hliðsjón af ákvæðum laganna um stjórn fiskveiða og stjórnarskrárákvæðum um jafnrétti og atvinnurétt. Þeir viðurkenndu að ekki væri fráleitt að ætla að einhverjir slíkir dómar um hliðstæða og náskylda hluti gætu fallið.

[18:15]

Hvað er ég að segja með þessu? Ég er að segja að ég tel að túlkun meiri hluta sjútvn. og ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé of þröng, hefði þurft að vera víðari og tæmi ekki málið. Ég tel að þetta tæmi ekki málið og hef engin rök heyrt fyrir því að sú aðferð sem þarna er verið að beita tæmi málið.

Áður en ég kem síðan að efni dómsins og viðbrögðunum við því ætla ég að segja eitt orð um Hæstarétt. Það eru stór tíðindi, eins og ég sagði áðan, að Hæstiréttur skuli blanda sér í umræður um það hvernig má takmarka atvinnufrelsis\-ákvæði stjórnarskrárinnar af því að samkvæmt öllum bókum, bæði Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar, er það alveg skýrt að þeir hafa litið þannig á að Alþingi hefði fullnaðarvald í málum af þessu tagi. Það þýðir með öðrum orðum að Hæstiréttur Íslands er orðinn þátttakandi í umræðu um þessi mál. Þá er ég ekki að segja að Hæstiréttur sé pólitískur í þeim skilningi að hann sé að blanda sér í flokkspólitíska umræðu. Það væri ósanngjarnt að setja það upp þannig. En það er alveg augljóst að þarna er Hæstiréttur landsins á pólitísku sviði og alla vega nýju sviði að því er þetta varðar.

Þá ætla ég að rifja það upp, herra forseti, að fyrir þremur, fjórum árum flutti ég frv. til laga um breytingu á lögum um Hæstarétt. Það þótti nokkuð fjarstæðukennt á þeim tíma. Ég var reyndar ekki eini flutningsmaðurinn. Ég held að einir tveir lögfræðingar hafi skrifað upp á þetta með mér og einhverjir fleiri hér. Frv. gekk út á það að Alþingi ætti að staðfesta tillögu dómsmrh. um skipan hæstaréttardómara. Af hverju flutti ég þessa tillögu á sínum tíma? Ég flutti hana vegna þess að mér fannst að menn væru að útdeila þessum mikilvægu embættum á of flokkspólitískum forsendum. Ef þetta mál væri hins vegar tekið upp núna, sem ég hef út af fyrir sig búið mig undir að gera og nefni þess vegna í þessari umræðu, þá væri það á öðrum forsendum, þ.e. þeim að ekkert sé óeðlilegt við það að löggjafarvaldið og dómstólavaldið sé að einhverju leyti gagnvirkt eins og það heitir og gerist í sumum löndum eins og t.d. í Bandaríkjunum, þó að ég sé ekki með neina tillögu um að ganga eins langt eins og þar er gert.

Þetta vil ég nefna, herra forseti, til umhugsunar vegna þess að ég held að þetta sé raunverulegt viðfangsefni með hliðsjón af dómi Hæstaréttar og viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar og ég harma það að umræðan skuli ekki að neinu leyti hafa náð að snúast um þetta atriði heldur.

Ég hef þá nefnt þrjú atriði almennt varðandi dóminn. Það er í fyrsta lagi það að ég tel jákvætt að Hæstiréttur Íslands sýni að hann hafi sjálfstæða afstöðu, hafi frelsi til að kveða hana upp burt séð frá viðhorfum stjórnvalda á hverjum tíma. Í öðru lagi það að í dómnum felist víðtæk stefnumótun en ekki bara þröng túlkun á 5. gr. Ég er þá ekkert að segja að 7. gr. dygði í málinu. Ég er ekkert endilega að segja það. Ég er bara að segja að í dómnum felist mjög víðtæk stefnumótun, eins og hann er núna, liggur fyrir. Og í þriðja lagi nefndi ég að það gæti verið hugsanlegt að breyta lögum um Hæstarétt þannig að hæstaréttardómarar eða útnefning og skipun þeirra ætti viðkomu með einhverjum hætti í þessari stofnun.

Herra forseti. Ég kem þá þessu næst að efni dómsins. Ég ætla í fyrsta lagi að koma að því sem lýtur að 5. gr. og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og frv. við henni. Þá ætla ég að segja að mér finnst eins og að verið sé að reyna að plata niðurstöðuna með frv. ríkisstjórnarinnar. Mín rök eru þau að það væri alveg eins hægt að segja við fátækan mann: Þú færð ekki peninga en þú færð mynd af peningum sem þú getur hengt upp í stofunni hjá þér. Eða segja við fólk: Þið fáið ekki tiltekin verðmæti af hvaða tagi sem er en þið fáið mynd af þeim. Menn geta fengið þessar heimildir ofan úr ráðuneyti en það er ekkert á bak við þær. Menn geta hengt af þeim myndir upp í stofunni hjá sér en það er ekkert á bak við þær. Mér finnst, herra forseti --- en ég er alveg viss um að það er ekki þannig og ég er alveg viss um að hæstv. ríkisstjórn meinar allt ærlega í þessu máli --- en mér finnst eins og menn séu einhvern veginn að reyna að plata sig í gegnum þetta mál.

Auðvitað er ríkisstjórninni mikill vandi á höndum, efnislegur vandi en líka pólitískur af því að það er mjög stutt í kosningar og það er þess vegna sem liggur svona mikið á að rótast með málið hér í gegn því að menn vilja auðvitað ljúka því sem fyrst fyrir kosningar þannig að það hafi fennt í sporin eins og mögulegt er. En ég held satt að segja, herra forseti, að viðbragðið sem slíkt sé ekki nógu gott af því að menn séu að fara öðruvísi í hlutina en eðlilegt væri að ætla að Hæstiréttur ætlaðist til og ég ætla að koma að aðeins seinna.

Í öðru lagi er spurningin sú varðandi efni málsins: Hefði átt að taka 7. gr. þrátt fyrir ákvæði dómsins og þrátt fyrir afstöðu sérfræðinganna? Hefðu stjórnarsinnar átt að taka 7. gr. með í þeim tillögum sem þeir eru hér að gera? Ég hallast að því að betra hefði verið að taka sviðið allt en ég viðurkenni að tíminn til þess er stuttur. Hann er mjög stuttur. En ég hygg að það að takmarka þetta við 5. gr. og geyma hitt muni þýða að málið komi í hausinn á okkur síðar.

Var þá, eins og ég spurði áðan, hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi? Voru aðrar leiðir færar? Um það ætla ég að segja bara þetta í örstuttu máli. Ég tel að það sé hægt og ég tel að það liggi fyrir sannanir í þeim efnum. Mér var í dag bent á umsögn Sigurðar Gizurarsonar, fyrrv. sýslumanns, sem ég hugsa að sé kannski ekki alveg dagleg lesning hæstv. sjútvrh. af vissum ástæðum sem ég ætla ekki að fara nánar yfir. En það kemur nokkuð athyglisvert fram í umsögn hans sem ég bið menn um að skoða í allri vinsemd burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á þessum ágæta fyrrv. sýslumanni. Hann kemst að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni sem er unnin fyrir beiðni Samtaka fiskvinnslu án útgerðar að svigrúm löggjafans til lagasetningar að gengnum dómi Hæstaréttar 3. desember sl. sé þó nokkuð víðtæk. Hann kemst að þeirri niðurstöðu. Hann segir í lok álitsgerðar sinnar, með leyfi forseta:

,,Að því athuguðu sem hér hefur verið sagt að framan sýnist mega telja fráleitt að Alþingi hafi ekki eftir dóm Hæstaréttar frá 3. desember 1998 --- alveg eins og áður --- vald til að setja lögbundin ákvæði er takmarki stærð fiskiskipaflotans.``

Hann segir þetta algerlega fullum fetum. Hann segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta.

,,Raunar má leiða að því skynsamleg rök að í kjölfar dóms Hæstaréttar beri Alþingi`` --- ekki bara geti Alþingi heldur --- ,,beri Alþingi að setja slíkar lögbundnar reglur, enda séu þær vel skilgreindar. Reglur þessar þyrftu að lúta því meginmarkmiði að stærð fiskiskipaflotans sé á hverjum tíma í sem bestu samræmi við afrakstursgetu fiskstofna.``

Og hann lýkur umsögn sinni með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Ekki er hér ætlunin að leggja pólitískar línur í því efni [varðandi breytingarnar hugsanlegu], en þó má minna á að lögbinda mætti reglur um skiptingu fiskimiðanna milli stærri og minni skipa (innra og ytra belti) byggðakvóta, gjald fyrir veiðileyfi o.s.frv. Fjölbreytni í úthlutun veiðiheimilda mundi vitaskuld gefa fleiri þegnum landsins tækifæri til að njóta afraksturs fiskimiðanna en nú er og þar með jafnræði og réttlæti aukið.``

Mér finnst full ástæða til þess að óska eftir því að hæstv. sjútvrh. fari nokkrum orðum um það af hverju ekki er hlustað á þetta eða aðrar leiðir skoðaðar en hér eru. Ég held að ég verði að fara fram á það. Ég ætlast ekki til þess í einhverjum andsvörum. En ég hefði gjarnan viljað heyra ítarlegan rökstuðning fyrir því af hverju ekki er tekið mark á þeim ábendingum að stjórnvöld hafi þrátt fyrir dóm Hæstaréttar býsna mikið svigrúm og raunar meira en það, að Alþingi beri vegna dóms Hæstaréttar að setja reglur um takmörkun fiskiskipaflotans. Það er ekkert smávegis.

Herra forseti. Ég vil í þessu sambandi líka vísa til greinar sem birtist í Morgunblaðinu 15. desember sl. eftir Jóhann Halldórsson héraðsdómslögmann. Hann fer nokkuð ítarlega yfir dóminn og gerir það satt að segja ákaflega vel. Hann segir t.d., með leyfi forseta:

,,Í þessu sambandi er rétt að geta þess strax í upphafi að hugtakið veiðiheimild er til í lögum um stjórn fiskveiða eins og sjá má í 7. gr. og 6. mgr. 11. gr. laganna og er því ekki tilbúningur Hæstaréttar í þessu einstaka máli`` --- eins og látið hefur verið í veðri vaka af ýmsum stjórnmálamönnum. --- ,,Hefur hugtakið almennt verið skýrt svo að með því sé átt við hvorutveggja, bæði aflahlutdeild og aflamark. Hefur Hæstiréttur áður notað þetta hugtak í dómum sínum ...``

Það finnst mér eiginlega umhugsunarverðasta, með hliðsjón af ummælunum um að Hæstiréttur botni ekkert í því sem hann er að tala um, að hann segir hér, þessi héraðsdómslögmaður, að Hæstiréttur hafi áður notað þetta hugtak, veiðiheimild, í dómum sínum, eða eins og segir í grein héraðsdómslögmanns:

,,Hefur Hæstiréttur áður notað þetta hugtak í dómum sínum og nægir þar að vísa til dóms réttarins í máli nr. 233/1996 frá 20. febrúar 1997.``

Það er því ekki rétt að hugtakið veiðiheimild í því samhengi sem hér er um að ræða sé einhver tilbúningur eða misskilningur Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur áður notað þetta hugtak á sama hátt og hann gerir hér, eins og bent er á í þessari grein í Morgunblaðinu 15. desember 1998. Síðan segir þessi héraðsdómslögmaður, með leyfi forseta:

,,Í mínum huga er alveg ljóst að dómarar Hæstaréttar Íslands hafa ígrundað forsendur og texta umrædds dóms gaumgæfilega áður en dómur var felldur í svo þýðingarmiklu máli.``

Í lok greinarinnar segir héraðsdómslögmaðurinn, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framangreindu tel ég óvarlegt að halda því fram að smávægilegar breytingar á 5. gr. laga um stjórn fiskveiða fullnægi þeim kröfum sem Hæstiréttur gerir eða að réttinum hafi orðið á mistök við samningu dómsins. Umræddur dómur er þvert á móti stefnumarkandi`` --- það var það sem ég var að reyna að segja hér áðan --- ,,um það hvaða sjónarmiðum ber að fylgja og hvaða skorður 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar setja löggjafanum við endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða.``

Herra forseti. Ég tel að ég hafi leitt fram rökstuðning tveggja málsmetandi lögmanna á þessu sviði til þess að undirstrika það að bæði er hægt að grípa til annarra aðgerða --- það er meira svigrúm til en ríkisstjórnin vill vera láta --- og að sú aðferð sem hér er gerð tillaga um er fullþröng.

Herra forseti. Hvað er þá aðalatriðið í þessum dómi? Það eru auðvitað stjórnarskrárákvæðin og allt það. En hvað er það sem Hæstiréttur sjálfur tínir fram, mér liggur við að segja, í smáatriðum aftur og aftur í þessum annars stutta dómi og stuttu greinargerð? Ef ég á að gagnrýna Hæstarétt fyrir eitthvað þá finnst mér að greinargerðin og reifunin hefðu mátt vera ítarlegri. Ég hefði t.d. viljað sjá reifun á því hvað sé drjúgur hluti þjóðarinnar. Ég vil sjá svoleiðis hluti nákvæmar útlistaða en þarna er gert þannig að huglægt mat hvers og eins þurfi ekki að liggja til grundvallar því hvað sé drjúgur hluti og hvað ódrjúgur í þessu sambandi. En það er alveg ljóst að í þessum knappa texta eru nokkur atriði sem Hæstiréttur er alveg sérstaklega að draga fram. Nú ætla ég að lesa það sem ég kalla aðalatriði dómsins, herra forseti. Það er undir IV í dómnum. Þar segir, með leyfi forseta:

[18:30]

,,Eins og að framan greinir hefur sú regla verið við lýði frá setningu laga nr. 82/1983, að leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands væru bundin við skip, sem haldið hefði verið til veiða á ákveðnum tíma. Réttur þeirra, sem slík skip hafa átt, hefur frá öndverðu verið annar en hinna, sem ekki hafa haft yfir skipum af þessu tagi að ráða. Fram að setningu laga nr. 38/1990 var tilhögun úthlutunar veiðiheimilda ákveðin til eins eða tveggja ára í senn og hafði löggjafinn málefni þessi þannig til reglubundins endurmats um árabil. Í málflutningi áfrýjanda hefur verið fallist á, að ekki hafi verið óeðlilegt í upphafi að binda veiðar í fiskveiðilögsögunni við skip með tiltekna veiðireynslu, þegar nauðsyn þótti bera til að takmarka veiðarnar. Slíkt bráðabirgðafyrirkomulag hafi þó ekki mátt festa í sessi, eins og nú hafi verið gert.``

Í þessum kafla, örstutta kafla, eru þrjár viðvaranir um það að varanleg langtímaúthlutun veiðiheimildanna sé það sem varast skal í þessu efni. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Eins og áður getur taldi löggjafinn brýnt að grípa til sérstakra úrræða á árinu 1983 vegna þverrandi fiskstofna við Ísland. Var skipting hámarksafla þá felld í þann farveg, sem hún hefur síðan verið í, að úthlutun veiðiheimilda yrði bundin við skip. Er óhjákvæmilegt að líta svo á, að þessi tilhögun feli í sér mismunun milli þeirra, sem leiða rétt sinn til veiðiheimilda til eignarhalds á skipum á tilteknum tíma, og hinna, sem hafa ekki átt og eiga þess ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð, að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun ...``

Á þremur öðrum stöðum í þessum eina kafla nefnir Hæstiréttur þennan tímaþátt sem aðalvanda málsins. Það liggur við, ef það er hægt að nota það óvirðulegt orð um jafnvirðulega stofnun og Hæstarétt, að Hæstiréttur Íslands tönnlist á því í dómnum að það sé hinn varanlegi frágangur málsins sem sé það sem er vafasamt. (Gripið fram í: Ég mundi segja að hann ítreki.) Ítreki, ég get gert það fyrir hv. þm., takk fyrir ábendinguna. (Gripið fram í: Ítreki enn og aftur.) Nema ég geri það, takk fyrir. Með öðrum orðum tel ég að þurft hefði að athuga miklu betur hvort brtt. eins og sú sem við höfum sýnt hér, þrír þingmenn Alþb., hefði ekki dugað í þessu efni. Nú spurði ég sérfræðinganefndina á fundum aftur og aftur í nefndinni um það, í tvö skipti, hvort það dygði að setja þarna inn sólarlagsákvæði. Þeir sögðu það ekki vera og rök þeirra voru fyrst og fremst þau að Hæstiréttur gerði kröfu um að kerfinu væri breytt strax. Við því ætla ég að segja þetta: Ég fellst ekki á þau rök og ég tel að Alþingi þurfi ekki að fallast á þau rök. Ég tel að Alþingi ætti í þessu máli að taka sér þann fullveldisrétt að segja: Setjum í lögin ákveðið sólarlagsákvæði og setjum í gang vinnu við að endurskoða þau. Það er neyðarréttur Alþingis að gera þetta í staðinn fyrir að þvinga fram ákvæði sem við erum öll í vafa um að dugi.

Af þessum ástæðum liggur tillaga fyrir, herra forseti, og er á þskj. 661 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

Að í stað 10. töluliðar c-liðar brtt. meiri hlutans komi:

,,Lög um stjórn fiskveiða falla úr gildi 31. desember 2002. Fyrir Alþingi það sem hefst haustið 2001 verði lögð tillaga um nýja skipan fiskveiðimála er taki mið af 1. gr. laganna, fenginni reynslu og fyrirliggjandi dómum Hæstaréttar.

Til að undirbúa tillöguna kýs Alþingi níu manna nefnd hlutfallskosningu þegar að loknum næstu alþingiskosningum. Nefndin starfar á ábyrgð og á kostnað Alþingis en hefur sérstaka samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið sem leggur til sérfræðiþekkingu og aðstoð eftir því sem nefndin óskar eftir. Nefndin hafi samráð við alla aðila málsins í störfum sínum. Nefndin kýs sér sjálf formann.``

Ég geri engar kröfur til þess, herra forseti, að hafa réttar skoðanir á því hvort þarna á að vera ártalið 2002 eða eitthvað annað. Ég geri heldur engar kröfur til þess að hafa réttar skoðanir á því hvernig nefndin verður til, ég ætla mér það ekki. Við skrifuðum þetta þannig niður að svona hefðum við viljað hafa þetta en ef aðrir vilja hafa það öðruvísi finnst mér að það ætti að ræða.

En ég tel að eftir að hafa blaðað dálítið í þessu máli, og ég viðurkenni það að ég er enginn sérfræðingur í fiskveiðimálum sem slíkum á borð við marga ágæta þingmenn sem hér eru. Ég er ekki góður í þessum síðari hluta málsins, þ.e. sem snertir handfærabátana, ég er það ekki. Ég gæti trúað að mjög margir væri miklu betri en ég og satt að segja vona ég það fyrir hönd þingsins að það séu margir betri en ég í þeim fræðum. En ég held þó, herra forseti, að þetta sé að mörgu leyti lykill málsins sem við erum hérna með --- við erum að bregðast við þessum dómi --- og þess vegna vil ég biðja menn í allri vinsemd að velta því fyrir sér hvort ekki er hægt að hugsa sér að koma til móts við þau sjónarmið sem hér eru uppi.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er flókið mál að falla frá öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar eftir það sem á undan er gengið og ætla sér að fara einhverja allt aðra leið eða svipaða leið og hér er um að ræða, ég geri mér alveg grein fyrir því og menn mundu telja að þeir væru niðurlægðir pólitískt eða eitthvað þess háttar ef eitthvað slíkt yrði gert og ég ætlast ekki til neins af því taginu. Ég vil að menn haldi virðingu sinni í þessu máli eins og öðrum. En mér finnst samt sem áður nauðsynlegt að það liggi a.m.k. fyrir í þessari stofnun og á einum stað í þingtíðindum, og helst víðar, að ég tel að þessi leið hafi verið fær og sé fær og ég bið um að hún verði skoðuð rækilega. Með hliðsjón af því ætla ég að lýsa því yfir fyrir hönd okkar flutningamanna að við munum ekki óska eftir því að þessi tillaga fari til atkvæða við 2. umr. Við förum fram á að stjórnarmeirihlutinn velti þessari tillögu mjög vandlega fyrir sér ef nokkur kostur er, en hún komi þá til meðferðar við 3. umr. málsins.

Þetta var, herra forseti, varðandi dóminn og efni hans og hvað á að gera. Ég ætla ekki í framhaldi af þeim ræðum sem hafa verið fluttar á undan mér að fara yfir umsagnir um málið, það hefur verið gert mjög vel og skilmerkilega og ég þakka fyrir það. Það á að segja frá umsögnum, sýna þeim sem sinna málinu vel með því að senda myndarlegar umsagnir að við metum það að fólk sinni Alþingi og málatilbúnaðinum hér í því sambandi, þannig að ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Ég ætla kannski aðeins að víkja að einu atriði sem er ekki stórmál í þessu dæmi og í tillögunum og það lýtur að byggðaþættinum. Ég hef tekið eftir orðaskiptum um það mál. Ég er byggðarsinni, sveitamaður, eins og flestir þingmenn Reykvíkinga hafa alltaf verið, en ég fer fram á það við alla aðila, líka Byggðastofnun, sem á að fá þetta mikla vald, að menn komi þessu í búning sem verður þannig að niðurstaðan verði hafin yfir tortryggni. Ég er alveg viss um að menn vita um hvað ég er að tala. Ég er ekki í sjálfu sér með neina uppskrift að þessu en ég gæti hugsað mér t.d. að tekin yrði um það ákvörðun, því yrði lýst yfir af ráðherra sjávarútvegsmála eða ráðherra Byggðastofnunar eftir atvikum að leitað yrði eftir einhverju faglegu áliti, eftir einhverjum föstum reglum um þessi mál. En ég held að það sé vont fyrir þá sem eru í stjórn Byggðastofnunar, sem hafa oftast verið stjórnmálamenn, að þeim verði ætlað að þeir séu að úthluta þessu fyrir sig og kjósendur sína. Ég er alveg viss um það að þeir ágætu menn sem hér eru inni í dag, það ágæta fólk sem er hér í dag, vill ekki svoleiðis, það hefur enginn áhuga á því. Það er bara eitthvað sem við höfum lesið um og reyndar séð fyrr á árum en ég held að það væri hægt að búa aðeins betur um þetta. Ég skildi t.d. gagnrýni hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur þannig að hún væri eiginlega að auglýsa eftir einhverju slíku, faglegri nálgun á þessu máli frekar en að ég skildi mál hennar að neinu leyti þannig að hún væri neikvæð gagnvart þeirri almennu hugsun sem felst í þessu ákvæði.

Að lokum, herra forseti, ætla ég að segja að ég óttast, ef málið fer svona í gegn eins og það liggur hér fyrir --- ja, ég óttast það ekki, ég er alveg viss um það að því er ekki lokið. Ég er alveg viss um að þetta kemur hér aftur inn, ég er alveg viss um að það verður að fara í lögin strax. Ég heyri að ætlunin er að gera það og ég held að rétt væri að ákveða að það yrði gert strax eftir kosningar þegar fyrir lægi hvernig mál skipuðust í þeim vegna þess að tíminn núna fram að kosningum er stuttur og viðkvæmur.

Ég held að í frv. sé því miður eins og er engin lausn á þeim vanda sem Hæstiréttur var að benda okkur á. Hún sé a.m.k. takmörkuð og dugi ákaflega lítið. Að allra síðustu ætla ég að segja að mér finnst líka umhugsunarvert hvert við erum komin í sambandi við smábátana. Við erum að reyna að framkvæma þarna millimetralýðræði, við erum að ganga ofboðslega langt í þeim efnum. Við erum komin niður í eitt tonn, það er nú reyndar tilviljun sem veldur því að á einum stað er talan 601 tonn og á öðrum stað eru reyndar 500 kíló. Þó að við séum alls góðs makleg og flest fullkomin, eða viljum a.m.k. vera það, er ég alveg viss um að það er ekki gott kerfi sem er þannig að Alþingi finni sig knúið til að setja millimetramálsreglur af þessu tagi. Ég er ekkert að segja að það sé hægt að gera annað í þeirri stöðu sem er núna. En ég segi alveg eins og er, ég held að umhverfi greinar sem kallar á aðferðir af þessu tagi sé ekki gott umhverfi. Ef þessi lög verða endurskoðuð, sem ég ætla sannarlega að vona að verði, leyfi ég mér að láta þá sérstöku ósk í ljósi að þar reyni menn að koma við almennum reglum, t.d. alveg sérstaklega í sambandi við smábátana þannig að menn þurfi ekki helst að vera minnst doktorar í kjarneðlisfræði, liggur mér við að segja, til að skilja textana. Ég er viss um að allir eru sammála mér að það þyrfti að gera þetta öðruvísi.

Í trausti þess að það sé þannig læt ég máli mínu lokið, herra forseti.