Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 18:46:10 (2981)

1999-01-11 18:46:10# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Kosturinn við hæstv. sjútvrh. er sá að hann getur alltaf farið í Heimdall þegar hann vill. Með þessa miklu stjórnmálareynslu og hið virðulega fas hans þá smellir hann sér í Heimdall þegar minnst varir. Það er gott þegar menn á virðulegum aldri eins og ég og hann geta smellt sér svona í æskulýðshreyfingar stjórnmálaflokkanna. En það leysir nú engan vanda.

Í fyrsta lagi, varðandi það að fresta því að taka á málinu, þá orðaði ég það þannig: Já, ég tel að Alþingi eigi að taka sér þann tíma fullveldisrétt að endurskoða málið til að finna öruggari viðbrögð við dómi Hæstaréttar en þau sem hér er gerð tillaga um. Ég tel að þau viðbrögð sem ætlunin er að sýna séu ekki nægilega örugg. Ég treysti þeim ekki. Það er ekki vegna þess að ég vilji ekki að menn sýni á spilin eða neitt því um líkt. Ég held hins vegar að það eigi við alla og líka hæstv. ríkisstjórn að menn séu ekki algerlega sannfærðir um að lausnir þeirra haldi í gegn 100%.

Í öðru lagi, herra forseti, er Hæstiréttur þýðingarmikið og virðulegt stjórnvald. Það þýðir ekki að Alþingi eigi alltaf að bregðast við nákvæmlega eins og Hæstiréttur krefst. Ég segi: Ég tel að þær stundir geti komið í málum sem þessum --- segjum að Hæstiréttur hefði dæmt ógilda 7. greinina --- að Alþingi gæti neyðst til þess að taka sér þann neyðarrétt fyrir hönd þjóðarinnar, að fresta niðurstöðu um breytt kerfi um tvo eða þrjá mánuði og frysta óbreytt ástand þangað til.

Að árin eru fjögur en ekki þrjú, það er hrein tilviljun, herra forseti. Ég er ekki með neinn refsskap í þeim efnum. Ef hæstv. ráðherra vill koma til móts við okkur flutningsmenn með því að segja tvö ár þá er það hans mál, það væri gaman ef hann vildi gera það.