Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:21:37 (2985)

1999-01-11 19:21:37# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:21]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari ræðu mátti sjá gamalkunnugt andlit þingmanns sem fyrir hartnær 23 árum réðst á formann Framsfl. og þáv. forsrh. með dylgjum og óhróðri sem voru með þvílíkum endemum að þingmaðurinn hefur ætíð skammast sín fyrir það og ekki viljað kannast við ræðu sína.

Ég vil segja um fáein efnisatriði í því sem fram kom hjá þingmanninum að það er einfaldlega rangt að það verði hlutverk núverandi stjórnar Byggðastofnunar að annast úthlutun eða ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem hér er lagt til. Þetta ákvæði tekur gildi 1. sept. nk. en kjörtímabili núverandi stjórnar lýkur 8. maí. Enginn veit hvernig ný stjórn Byggðastofnunar verður kosin. En ég hlýt að skilja þetta sem vantraust á fulltrúa Alþfl. í stjórn Byggðastofnunar, Sigbjörn Gunnarsson, fyrrv. alþingismann, sem keppir við hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um sæti á Alþingi fyrir Norðurl. e.

Í öðru lagi eru það ómakleg ummæli frá hv. þm. að verið sé að stuðla að aukinni slysahættu. Þvert á móti er að finna í þessum tillögum ákvæði sem eiga að draga úr áhættu við að sækja sjóinn á litlum bátum á erfiðum tíma árs. Handfærakerfið er þannig byggt upp að þessir litlu bátar eigi aðeins að róa á þeim tíma árs þegar skárri veður eru, þ.e. frá 1. apríl til 30. sept. Það er þvert á móti verið að girða fyrir að menn sæki sjóinn yfir svartasta skammdegið á þessum litlu bátum.