Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:25:47 (2987)

1999-01-11 19:25:47# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:25]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er undir minni forustu sem sjútvn. leggur til að takmarka svigrúm smábátasjómanna á handfærum til að róa yfir svartasta skammdegið. Ég minnist þess ekki að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi nokkurn tíma lagt fram tillögu í þá veru.

Í öðru lagi vil ég nefna varðandi þorskaflahámarksbátana að með þessari lagasetningu er líka verið að opna leið fyrir þá til að stækka báta sína og róa yfir vetrartímann á stærri bátum en þeir hafa mátt búa við fram til þessa undir núverandi löggjöf.

Hins vegar er rétt að gert er ráð fyrir því að þorskaflahámarksbátar geti sótt sér aflareynslu á árinu 1999. Það er mjög einföld skýring á því. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum hvatt sem flesta til að fara úr dagakerfinu yfir í þorskaflahámarkskerfið og reynt að gera það aðlaðandi fyrir þá til þess að draga úr veiðum þess hluta flotans sem rær á dögum. Mjög margir bátar hafa á undanförnum árum farið úr dagakerfinu yfir í þorskaflahámarkskerfið, jafnvel þótt þeir hafi lágan kvóta í þorski vegna þess að þeir sáu sér tekjuvon í að róa á aukategundir, ýsu, steinbít og ufsa. Ef lokað er fyrir þessa tekjuvon án þess að nokkuð annað komi á móti hafa þessir menn verið narraðir úr einu kerfinu yfir í annað á fölskum forsendum. Það kemur ekki til greina að mínu viti.

Hins vegar get ég upplýst það, sem hv. þm. á auðvitað að vera kunnugt um, þó hann láti eins og hann viti ekki af því, að þetta er annað af þeim tveimur atriðum sem ég greindi frá á fundi í sjútvn. að meiri hlutinn væri að ræða sín í milli og gæti leitt til þess að fram kæmi brtt. frá honum fyrir 3. umr. málsins. Hv. þm. hefði því getað sparað sér stóru orðin.