Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:27:57 (2988)

1999-01-11 19:27:57# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Enn fer hv. þm. rangt með. Í tíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. --- á meðan smábátasjómenn áttu málsvara innan þeirrar ríkisstjórnar sem þeir eiga ekki innan núv. ríkisstjórnar --- átti ég hlut að því að gert var samkomulag við sjútvrh. um málefni smábáta sem kvað m.a. á um að þeir yrðu ekki látnir sækja sjó á þessum litlu bátum yfir hörðustu vetrarmánuðina. Það geta forustumenn LS staðfest hvenær svo sem hv. þm. leitar eftir því, hvenær sem hann vill.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að það hefur verið verk þeirrar ríkisstjórnar sem hann gekk til liðs við að reyna að afnema frjálsar krókaveiðar og ýta smábátamönnum inn í aflamarkskerfið. Enn er verið að gera það. Og hann á hlut að því. Það er verið að gera það með því að hvetja sjómenn á þessum litlu bátum til þess að róa undir líf og blóð yfir hörðustu vetrarmánuðina og taka þar áhættu sem ég er sannfærður um að þessir sjómenn mundu ekki taka ef ekki væri verið að veifa þessari gulrót um aflareynsluöflunina fyrir framan nefið á þeim. Hv. þm. er einn af þeim sem ætla að bera ábyrgð á því.

Vissulega vona ég að þau viðvörunarorð sem ég hef reynt að koma á framfæri verði til þess, eins og hann raunar var að ýja að sjálfur, að sjútvn. muni skoða þessi alvarlegu mál á milli 2. og 3. umr.