Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:37:53 (2993)

1999-01-11 19:37:53# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:37]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það hefur verið forvitnilegt að hlusta hér á ræðuskylmingar þingmanna Vestfirðinga. Þó verð ég að viðurkenna að þegar þeir og stundum fleiri þingmenn tala um strandveiðiflotann og virðast telja það tæmandi orð yfir það hugtak að skip stundi veiðar eingöngu á grunnslóð þá verð ég að segja rétt eins og er að ég held að við hin vitum öll að þessir bátar sem við teljum sex brúttólestir eða minni eru ekki nema lítið brot af þeim flota. Allir hinir hafa margoft lýst því yfir og margir þingmenn hafa tekið undir það, að þessir hinir séu gleymdi flotinn, það séu þau skip sem hafi jafnvel verið lengur í útgerð og að jafnvel fleiri eigi lifibrauð sitt undir útgerð hvers og eins þeirra heldur en hinna smáu vegna þess að það eru jafnvel fleiri menn á sama bát. Fleiri fjölskyldur hafa störf af því að vinna bæði við veiðina og vinnsluna. Þeir hafa orðið fyrir skerðingum umfram hina sem hér rétt eins og oftast áður hafa fengið athyglina í umræðunni. Það er skiljanlegt að þeir kalli sig gleymda flotann.

Herra forseti. Það á við um þetta eins og fleira sem gerst hefur á háu Alþingi, þegar það ræðir sjávarútveg og fiskveiðar frá Íslandi sérstaklega, að menn vilja af einhverjum ástæðum koma sér hjá því að ræða málið út frá nokkurri heildarsýn. Ég get svo sem unnt mörgum að vilja draga fram málstað hinna smæstu sem starfa í smáum einingum. Satt að segja tel ég að einhverjir hv. þm. hafi leyft sér það í þessari umræðu og að líkindum oftar að bera fram sjónarmið sem sennilega eru sett fram undir einhvers konar áhrifum af rómantík.

Herra forseti. Ég held að það sé hreinræktuð rómantík að tala um menn á þessum smáu bátum sem trillukarla sem hafi litla kosti því að fjölmargir þeirra eru á svo öflugum bátum að hinir, á skipum allt upp í 12 tonn, sem teljast vera tvöfalt stærri og eru búnir að vinna langa ævi við fiskveiðar, horfa á eftir þessum hraðbátum, sem fara miklu lengra til fiskveiða, miklu lengra á haf út og eru miklu fljótari að því og taka þess vegna ár eftir ár miklu meiri afla og flestir þeirra höfðu aldrei haft fyrir því að ávinna sér þau réttindi eftir eðlilegum leiðum. Ég segi eftir eðlilegum leiðum vegna þess að við lifum hér við þá staðreynd að við höfum ekki ótæmandi auðlind.

En víkjum að dómnum, herra forseti. Það er það mál sem við stöndum frammi fyrir. Þó svo að hv. þingmenn hafi vikið hér að afleiðingum hans með þeim orðum að frv. og brtt. meiri hluta sjútvn. við frv. gangi hvergi nærri, eins og einhver orðaði það, til móts við dóminn eða þvert á dóminn, eins og einhver annar hv. þm. orðaði það, þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum og ég tel þau ekki byggð á umræðu um lögfræðileg mál eða réttarfarslegar afleiðingar heldur einungis á pólitískri lífssýn. Og það er allt í lagi með það. Við skulum þá bara ræða það á þeim forsendum. En vegna þess að að þessu máli hefur verið vikið á hinni forsendunni, þ.e. hver sé hin réttarfarslega staða eftir að slíkur dómur er genginn, þá er ljóst að dómurinn segir að ein tiltekin lagagrein í tilteknum lagabálki standist ekki stjórnarskrá. Ég er handviss um það, herra forseti, og ég byggi það á viðræðum mínum við lögmenn, við fræðimenn í lögum og af reynslu minni á þeim skamma tíma sem ég hef setið á háu Alþingi og áður í öðrum störfum af því að umgangast lög og dóma, að það er ljóst mál að þegar Hæstiréttur fellir slíkan dóm. Þá er ekki til setunnar boðið á háu Alþingi né heldur í hæstv. ríkisstjórn. Ráðherra í málinu ber skylda til að leggja fram frv. til að bæta úr þessum ágalla laganna sem Hæstiréttur hefur kveðið upp úr um. Þeim dómi verður ekkert áfrýjað. Og háu Alþingi ber skylda til að afgreiða frv. með niðurstöðu, hvort sem það er óbreytt eða breytt. Það er skylda Alþingis í öllum slíkum málum. Að bíða, eins og þrír hv. þingmenn hins nýja Alþb. skulum við segja, því það er ekki svipur hjá sjón hvorki að breidd né stærð miðað við það sem áður var, sú tillaga að draga það að skapa nýtt réttarástand sem eigi að taka við af hinu sem dugir ekki, tel ég að standist engan veginn þær kvaðir og skyldur sem við berum sem löggjafarvald. Það er að víkja sér undan viðfangsefninu.

Það á ekkert erindi inn í umræðuna hvort taka beri hægari, yfirvegaðri umræðu um endurskoðun laganna í heild sinni sem þyrfti þá lengri tíma. Það á einfaldlega ekkert skylt við það. Það er annað viðfangsefni. Dómurinn krefst viðbragða sem markast við efni og innihald dómsins.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að dómurinn segir 5. gr. laganna sem fjallar um útgáfu veiðileyfa ekki standast stjórnarskrá og því verðum við að líta á afleiðingar þessa dóms. Margir hv. þm. telja að það varði úthlutun aflaréttinda í aflamarkskerfinu en mér sýnist alveg ljóst að ákvæði laganna um aflamarkskerfið, um aflahlutdeild, um aflamark séu öll í síðari greinum laganna og engin þeirra er byggð þannig upp að hún sé leidd af 5. greininni. Þannig að ég, herra forseti, get ekki litið svo á að dómurinn beri í sér að við hljótum að endurskoða fleiri ákvæði laganna en hina umræddu 5. gr. Það er eina grein laganna sem er minnst á í dómnum. Hún er umrædd í kröfu áfrýjanda, sem var upphaflega stefnandi, og hún ein er umrædd í dómnum.

Hins vegar er það ljóst að aflaréttindi krókabátanna, sem við köllum svo, eru í lögunum, eins og þau voru fyrir dóminn, beinlínis leidd af réttindum þeirra með veiðileyfi samkvæmt 5. gr. Til þess að þeir hafi sambærilega möguleika og aðrir bátar og aðrir sjómenn í því ástandi sem þá þarf að skapa verður að greina á milli þeirra réttinda þeirra og veiðileyfis bátanna og það er viðfangsefni þessa frv. að stórum hluta.

[19:45]

Það er svo, herra forseti, að réttindi þeirra hafa til þessa verið framseljanleg en einungis bundið því að skip kom í stað skips eða bátur í stað báts. Það er meginmunur á réttindum þeirra til þess að flytja þau gagnvart því sem á við um skip í aflamarkskerfinu, þau má flytja milli skipa brot af heildarréttindunum. Lögmenn, sem hafa fjallað um afleiðingar dómsins, telja óyggjandi að með því að aðilar --- sem verði nú ekki skyldir til að kaupa skip úr veiðum --- eigi rétt á veiðileyfum fyrir skip sem fullnægja öryggisákvæðum og öðrum sambærilegum skilyrðum um skipaskráningu og skoðun skipa, hljóti að fá rétt til að kaupa aflaréttindin sjálf en þurfi ekki að gangast undir það að þurfa að kaupa þau í heild sinni af einhverjum öðrum sem fyrir er í greininni. Þess vegna, herra forseti, er það nauðsyn þeirra vegna og hinna sem fyrir eru að réttindi smábátamannanna, eins og hinna á stærri skipunum, séu aðgreinanleg frá veiðileyfinu og heimilt verði að flytja þau á milli í viðskiptum eða öðrum tilvikum í minna mæli en allt í senn.

Tillögur okkar stjórnarliða um breytingar á frv. liggja nú fyrir og voru kynntar í byrjun umræðunnar. Með þeim er ráðgert að eftir aðlögunartíma, sem ljúki með næsta fiskveiðiári, fyrir alla þá sem hafa stundað veiðar í dagakerfinu, hvort sem þeir velja af ráðnum hug að gangast undir ákvæði þess aftur eða að flytjast inn í aflamarkskerfið, þá gildi um þá jafnlangur aðlögunartími. Hann er misjafn að réttindum sem byggist á því að þeir hafa að hluta misjöfn réttindi í dag og þeir munu þá hafa valið sér misjöfn réttindi.

Fyrir 1. mars næstkomandi geta eigendur sóknardagabáta valið um þessa kosti. Rétt er að geta þess að þeir sem velja sér sóknardaga eftirleiðis hljóta að gera það vitandi um að þeir bera í sér þrengri kosti en hinn möguleikinn. Þeir verða eingöngu sóttir að sumri og verða eingöngu sóttir með handfærum. Þetta hvort tveggja gefur mun slakari möguleika til afla en verið hefur en það sama á ekki við um þá krókaveiðibáta sem flytjast yfir í aflamarkskerfið. Það eina sem kemur skár út fyrir sóknarmennina er að þeir geta framselt daga sín í milli en um það gilda sérstök ákvæði sem varða mat á sóknargetu hvers og eins báts. Þessa skoðun mína hlýt ég að láta í ljós ásamt því sem mér hefur lengi sýnst um þessi ólíku stjórnkerfi í fiskveiðum að því fyrr sem þau renna saman í eitt og samfellt kerfi, þeim mun fyrr muni sjómenn og útvegsmenn sem stunda fiskveiðar á Íslandsmiðum sitja við sama borð, starfa við sömu réttindi, ábyrgð og skyldur gagnvart því hvernig þeir umgangast og nýta auðlindina.

Það getur skipt máli, herra forseti, vegna þess að við hin, sem stundum ekki þennan atvinnuveg eigum líka afkomu okkar undir því hvernig þeim tekst til. Ég segi þetta vegna þess að ég tel alrangt að líta svo á, sem hér hefur verið gert í umræðum og oftar, að þeir skili ekki framlagi sínu til þjóðarbúsins. Það tel ég alrangt, ég tel þá gera það fyllilega. Sá skerfur kemur fram í þeim viðskiptum sem þeir eiga við fyrirtæki og einstaklinga með kaupum sínum á aðföngum og öðrum vörum.

Besta lýsingin, herra forseti, er af litlu þorpi úti á landi þar sem af liðlega 100 störfum eru tæplega 40 störf beinlínis við sjávarútveg. Hverfi þessi 40 verða hin óþörf. Þau eru öll afleidd af þörfum smáu fyrirtækjanna sem stunda sjávarútveg. Segið okkur svo að sá sjávarútvegur hafi ekki lagt sitt til í þjóðarbúið.

Ég er auk þess, herra forseti, þeirrar skoðunar að farsælla sé fyrir þá menn sem hingað til hafa valið að stunda krókaveiðar eftir dagatakmörkunum, eins og það heitir, að flytja sig yfir í aflamarkskerfið. Það verður þeim frjálsara og þess vegna hentugra að bregðast við þeim þrengingum sem eru fram undan.

Lítum nú á þá umræðu sem fór fram áðan af hv. síðasta ræðumanni og þeim sem veittu honum andsvör. Hún snerist um það hvað þeir eða einhver þeirra hefði gert til þess að verja núverandi dagakerfi. Skoðum hvaða áhrif það hefði haft fyrir þessa menn. Það er alveg ljóst hver ákvæði laganna eru, það er vitað hver var afli þeirra á síðasta fiskveiðiári og það er líka vitað hvað þeir höfðu marga sóknardaga samkvæmt því. Þeir voru heilir níu. Þá var þar einungis gert ráð fyrir sömu viðmiðunum um afla, miðað við aflaheimildir, en vegna þess að þeir hafa farið fram úr --- sem aðrir í flotanum mega ekki --- hlaut sóknardögunum að fækka.

Hvað merkti þá að verja þetta kerfi? Jú, það merkti að þeir hefðu orðið að róa við færri sóknardaga, minni aflamöguleika en það sem þeim er boðið með þessu frv.

Það er spá mín, herra forseti, að ákvæðin um veiðar sóknarbátanna muni leiða til þess áður en langt líður að þeir munu allir sækja eftir því að fá að starfa samkvæmt almennum ákvæðum laganna um stjórn fiskveiða á Íslandi inni í aflamarkskerfi vegna þessa sem ég hef nefnt. Þeir munu telja sjálfir að það henti þeim betur. Ég tel að það hafi komið skýrt fram í máli þeirra sameiginlegu hagsmunasamtaka og væntanlega hefði það mátt koma fyrr fram.

Við höfum litið á annað atriði í ljósi þessa dóms. Um það hefur verið fjallað í þessari umræðu með ólíkum hætti. Ég var í hópi sem taldi rétt, vegna þess sem dómurinn bæri með sér, að líta ekki svo á að ljóst væri að öllum byggðarlögum við sjávarsíðuna væri tryggð framtíð um næstu missiri og ár, hversu stór eða smá þau væru, í gegnum hvers konar breytingar þau hefðu gengið í sjávarútvegi. Ég hygg raunar, herra forseti, að við höfum nú þegar þau tíðindi af sjávarútvegi í þessum byggðum á síðustu mánuðum að rétt væri að eiga einhver ráð ef til þyrfti að taka.

Þess vegna hef ég fallist á í starfi okkar stjórnarliða að þessu máli að við tökum til hliðar aflaheimildir sem væri hægt í samstarfi við Byggðastofnun að beita til þess að endurreisa atvinnulíf sem hefur orðið fyrir hnekki í þeim sveitarfélögum sem á því þurfa að halda eða þar sem atvinnan hefur hreinlega flust í burtu.

Ég hlýt líka að viðurkenna að aðgerðir af þessu tagi geta hvenær sem er gengið of langt og ég vil eingöngu vara við því og tel að við eigum að gæta þess að þetta verði gert í samhengi við aðrar aðgerðir í byggðamálum og vísa til þess að við höfum til umfjöllunar á hinu háu Alþingi till. til þál. um stefnu í byggðamálum á næstu árum. Mér þykir ljóst að við verðum að sameina og samræma aðgerðir okkar, en við getum ekki litið svo á að mínu viti að hagur þessara byggðarlaga sé örugglega tryggður, burt séð frá afleiðingum eða áhrifum af þessum dómi.

Ég velti því talsvert fyrir mér, herra forseti, meðan umræðan hefur gengið að þó svo að stjórnarandstæðingar hafi ekki gert grein fyrir mörgum hugmyndum um það hvernig bregðast mætti við í ljósi dómsins eða hvernig þeir telja að við hefðum átt að haga stjórn fiskveiða að öðru leyti þá er mér ljóst að þeir hafa nú lagt fram hugmyndir, sumar hverjar endurteknar frá fyrri árum. Merkilegast er þó að upplifa þetta í dag þegar líður að aldamótum, fullur áratugur er liðinn frá falli þess múrs sem greindi að miðstýrð ríki og frjáls Vesturlönd þar sem fólk, bæði einstaklingar og fyrirtæki þeirra, gat ráðið málum sínum, t.d. hagsmunum í atvinnustarfi, með eigin ákvörðunum um það hvort það vildi halda eða selja t.d. réttindi sem eru afar lík þeim sem við höfum í sjávarútvegi. Þar er einfaldlega átt við gæði t.d. í landbúnaði eða námarekstri þar sem menn nýta land og þær auðlindir sem þar finnast.

Hinum megin við múrinn bjó fólk við það fyrirkomulag að það mátti engar slíkar ákvarðanir taka sjálft en beið ávallt eftir úthlutun sem var í ljósi breytilegra forsendna á hverjum tíma. Og meira að segja breytilegra þó talað væri hástemmdum orðum um að unnið væri eftir fimm ára áætlun, tíu ára áætlun eða guð má vita hvað. Þeir höfðu að vísu ekki guði þar, sögðu þeir.

Herra forseti. En á hinu háa Alþingi Íslendinga í dag er talað um að nauðsynlegt sé að skoða nýjar leiðir til að úthluta veiðiheimildum á Íslandsmiðum, ekki í ljósi áunninna atvinnuréttinda, ekki í ljósi framtaks einstaklinga, stjórnenda og þeirra starfsmanna að eigin frumkvæði. Nei, í ljósi nýrra forsendna. Það er sem sé að úthluta alltaf af og til. Ég verð að viðurkenna að ég varð mjög hugsi undir ræðum af þessu tagi.

Auðvitað er ljóst að við verðum að ræða þessi mál út frá mörgum breytum sem hafa áhrif. En ég tel stórlega varasamar endurúthlutanir án tillits til þeirra sem hafa lagt í áhættu og eiga undir starfsvali og fjárfestingum bæði afkomu sína og fleiri. Varasamast af því öllu eru tvö atriði: Að gera verðlaus þau réttindi og þær fjárfestingar sem í hefur verið lagt --- sem er ekki eingöngu gert með fjármunum heldur líka með fyrirhöfn og starfi og þekkingu --- og að kippa fótunum undan því sem við höfum talað um á Íslandi að sé einhver mesti ávinningur síðari tíma vegna aukins frjálsræðis í fjárfestingum og slíkum ráðstöfunum. Það er stöðugleiki. Efnahagslegur stöðugleiki er hvergi til í veröldinni við slíkt kerfi sem hefur ekki markaðslausnir.