Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:57:51 (2994)

1999-01-11 19:57:51# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Afskaplega varð ég undrandi á því hvernig þingmaðurinn Árni R. Árnason skilgreindi eign og frelsi. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er mikil von til þess að stjórnarmeirihlutinn skilji hvað við erum að tala um ef þetta er ríkjandi hugsun hjá stjórnarmeirihlutanum.

Það er nefnilega þannig að við erum að tala um að mönnum hefur verið úthlutað auðlindinni ókeypis og nú er svo komið að verið er að selja auðlindina af þeim sem fengu henni úthlutað ókeypis. Ekki er bara verið að úthluta auðlindinni, kvótanum eða magninu heldur á líka núna að úthluta dögum, heimila að selja daga sem menn hafa fengið úthlutaða. Og að líta á þetta sem eign er eitthvað sem við flest á Alþingi höfum litið á með skelfingu. Við höfum ekki verið sammála því að það sé rétt að slík ,,eign`` erfist. Meira að segja þeir sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum hafa lýst áhyggjum yfir þessari eignarhugsun.

En nú heyri ég ekki betur en að þingmaðurinn flytji mál sitt einmitt á þeim grunni að frelsið felist í því að fá úthlutað ókeypis þjóðarauðlind og mega síðan selja hana að vild. Þannig upplifi ég ekki eign og þannig upplifi ég ekki frelsi. Það er grundvallarhugsanamunur þarna á milli.

En það er nú einu sinni þannig að það fólk sem í dag talar um réttlæti og sanngirni varðandi þjóðarauðlindir okkar lítur heldur ekki á þetta á sama hátt og þingmaðurinn.