Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:02:42 (2996)

1999-01-11 20:02:42# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í öllum flokkum er hugsandi fólk sem gerir sér grein fyrir því hversu alvarlegt er að leiðin sem farin var þegar ákveðið var að takmarka um stundarsakir aðgang að auðlindinni, varð sú sem raun ber vitni. Hún varð að eignarréttartengdum réttindum. Ef Alþingi hefði þá, ég átti þá ekki sæti hér, farið þá leið að úthluta innan ársins með leigu eða öðrum hætti og gengið þannig frá að hverju sinni hefði verið skilað inn kvóta þegar menn sæju að þeir mundu ekki nýta hann, þá hefðum við aldrei lent í þeirri stöðu sem við erum í í dag.

Ég geri mér grein fyrir því að þýðir ekkert að koma með ,,ef`` og ,,hefði`` í þeirri stöðu sem Alþingi hefur komið á, að aðgangur að auðlindinni, óveiddur fiskurinn í sjónum, erfist og einhver geti setið heima í sófa og ráðskast með auðlindina. Það er ekki nokkur maður á Íslandi sem telur það réttlátt, þvert á móti. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði.

Hitt er að þegar til þess kemur að stjórn fiskveiða verður breytt varanlega þá verður það að gerast á einhverju árabili þannig að hægt sé að komast út úr þessum eignarréttartengdu málum. Þau eru vandinn í dag. Í stað þess að reyna það tímanlega þá hafa menn bætt og stagbætt kerfið og gert það verra og verra, þar til örfáar fjölskyldur munu eiga óveidda fiskinn í sjónum.