Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:07:21 (2998)

1999-01-11 20:07:21# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:07]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi efnahag og sjávarútveg, vegna þess sem hv. þm. sagði hér síðast, er rétt að vísa enn og aftur í álit Þjóðhagsstofnunar. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að með þeim tillögum sem hér er fjallað um er í raun boðið upp á lakari stöðu í sjávarútvegi en verið hefur. Menn eiga að hafa það í huga.

Þannig er, herra forseti, að austur í Rússlandi og víðar í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna er nú verið að einkavæða. Þeir eru að einkavæða þjóðareignir. Það gerist gjarnan þannig að forstjórar sem hafa atvinnureynslu í greininni eru eftir ýmsum leiðum að eignast fyrirtækin. Þeir geta síðan selt öðrum hluti í þessum fyrrverandi sameignum þjóðarinnar. Sér ekki hv. þm. einhver líkindi þessa kerfis og þess kerfis sem við höfum hér? Að mínu mati eru líkindin ógnvænleg og segja okkur að horfa á það sem Hæstiréttur segir. Hann bendir á að jafnræði þurfi að ríkja. Það gengur ekki að hafa úthlutunarkerfið eins og það er, allra síst ef menn vilja horfa til markaðslausna. Ef menn ætla að horfa til markaðslausna þá geta menn ekki byrjað á því að gefa vitlaust. Menn verða að horfa annað en hingað til, það getum við þó a.m.k. lesið úr dómi Hæstaréttar. Þau vinnubrögð við uppálöppun sem hér eru viðhöfð eru ekki til þess fallin að auka veg markaðslausna í kerfinu, hvað svo sem menn gera hér. Upphafið var þannig að menn geta aldrei orðið sammála um markaðslausnir, byggðar á því réttlæti sem þarf að vera til að samkomulag geti orðið.