Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:09:46 (2999)

1999-01-11 20:09:46# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:09]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að hv. þm. tilgreindi umsögn Þjóðhagsstofnunar til nefndarinnar verð ég að viðurkenna að ekki er hægt að lesa úr þeirri umsögn það álit að frv. í heild sinni eða tillögur meiri hluta nefndarinnar muni leiða til lakari afkomu eða óhagkvæmni í sjávarútvegi.

Vegna samanburðar á úthlutun þessara réttinda hér á Íslandi við upphaf þessa stjórnkerfis og því sem við tók þegar Sovétríkin hrundu, þ.e. samanburðarins á yfirtöku sovétforstjóranna á fyrirtækjunum við úthlutun veiðiheimilda á Íslandsmiðum, verð ég að viðurkenna að ég sé nánast ekkert líkt með þessu tvennu. Yfirtaka forstjóranna var auðvitað gerð eins og við teljum okkur vita, samkvæmt fréttum og eftir greiningu stjórnmálamanna og hagvísinda, meðan upplausnarástand ríkti á þessum slóðum og hver greip það sem hann náði í. Þessir menn höfðu betri færi en aðrir til að grípa þessi fyrirtæki. Þannig er nú staða þeirra í dag til orðin.

Það var ekki svo með aflaréttindi á Íslandsmiðum. Þar voru allir í áhættu. Eins og ég hef áður nefnt var á þeim tíma undantekning ef fyrirtæki í sjávarútvegi bar sæmilegan arð. Það var undantekning að finna fyrirtæki sem töldu sig geta starfað jafnlengi og þeir þóttust sjá. Í fyrsta lagi vegna sífelldra afskipta stjórnmálamanna. Ég tel að það sé eitt meginatriðið sem við ættum að forðast. Ég tel að úthlutanir á fárra ára bili, ég tala nú ekki um með uppboði árlega eða svo, líkist fremur slíku ástandi.