Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:11:52 (3000)

1999-01-11 20:11:52# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:11]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að verjast brosi þegar fulltrúar Sjálfstfl. ræða um afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu, einkum þegar sjávarútvegur er til umfjöllunar. Við þurfum ekkert að líta mjög langt aftur í tímann eða leita mjög lengi til að sjá af hverju það er hlægilegt. Við þurfum ekki annað en horfa á þá löggjöf sem við höfum nú fyrir framan okkur til að sjá af hverju það er hlægilegt. Af hverju setja menn ekki almennar reglur sem byggja á markaðslausnum? Af hverju krækja menn fyrir nánast hverja útgerð í landinu með svo sértækum aðgerðum að það vantar einungis heiti á sumar þeirra inn í lögin? Herra forseti. Afskipti stjórnmálamanna af sjávarútvegi hafa verið of mikil og þau eru of mikil, líka undir stjórn Sjálfstfl.

Vegna þess sem hv. þm. sagði um veiðirétt til skamms tíma, þá er það svo að jafnvel þó að farið yrði í að bjóða út veiðiréttinn þá eru til ýmsar aðferðir við það. Ég veit að hv. þm. þekkir að hagfræðingar eru ekki á einu máli um hversu hættulegt sé að bjóða veiðiréttinn út til skamms tíma. Menn segja líka: Það er enginn vandi að bjóða veiðiréttinn út til langs tíma, jafnvel mjög langs tíma. Þannig eru til á þessu allir varíantar, ef svo má orða, og ýmsar skoðanir um aðlögunartíma, tíma úthlutunar, hversu langan tíma þarf o.s.frv. Það er hins vegar alveg ljóst, herra forseti, að sú aðferð að bjóða upp veiðiréttinn er nær jafnræðisreglunni sem Hæstiréttur fjallar um en sú stífa úthlutun, stranga regla og kalda krumla stjórnmálanna sem hvílir á lögunum um stjórn fiskveiða í dag.