Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:28:15 (3003)

1999-01-11 20:28:15# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:28]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Enn spretta upp deilur um fiskveiðistjórn og sjávarútveg hér á Íslandi. Að þessu sinni vekur Hæstiréttur umræðuna sem leiðir svo eins og einatt til deilna úti í samfélaginu og þau skoðanaskipti og þær deilur berast síðan hingað inn í sali hv. Alþingis.

Líklega eru þau fá þingin á síðustu árum sem hafa liðið án þess að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á lögum um stjórn fiskveiða. Í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt. Menn hafa leitast við að þróa fiskveiðistjórnarkerfi sem að mörgu leyti og flestu leyti virðist hafa út frá þjóðhagslegum hagsmunum gefist vel. En einatt reyna menn þó að bæta augljósa ágalla.

[20:30]

Enn einu sinni erum við hér að ræða breytingar á lögum, frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða. Ég hygg að í þessu sambandi sé rétt að setja sig í spor þeirra þúsunda einstaklinga sem hafa atvinnu af sjávarútvegi. Á ég þar bæði við þá einstaklinga sem stýra fyrirtækjum, hvort heldur er í fiskvinnslu eða útgerð, sem og þau þúsund sem starfa ýmist við fiskvinnslu eða á sjó. Þá er rétt að við spyrjum okkur: Hvert ætli sé rekstraröryggi þessara aðila sem beinlínis starfa við fiskvinnslu og fiskveiðar? Hvaða rekstraröryggi og hvaða festa er til staðar? Það er óhætt að segja að hún er lítil sem engin og er þó rekstraröryggi, öryggi í rekstrarlegu umhverfi, ein aðalforsendan fyrir eðlilegum framförum í sérhverri atvinnugrein. Mér kunnugt um það, herra forseti, að fyrirtæki þar sem starfa um og yfir 100 einstaklingar ákvað fyrir tveimur árum að laga sig að þeim lögum sem þá voru í gildi um stjórn fiskveiða og gerði áætlun til 12 ára til þess að skapa þessum rúmlega 100 einstaklingum og stjórnendum fyrirtækisins einhverja festu og einhverja áætlun til þess að vinna eftir.

Með dómi Hæstaréttar, aðeins tveimur árum eftir að áætlun þessa fyrirtækis var fram lögð með veðsetningum til hins ýtrasta, má segja að stoðunum sé að mörgu leyti kippt undan þessum áætlunum. Þá er eðlilegt að spyrja: Hvert er öryggi þeirra sem fyrirtækinu stýra og þeirra sem hjá því starfa? Vissulega eru fjölmörg önnur slík dæmi. Þannig er ég sannfærður um það að á síðustu mánuðum og missirum hafa hundruð millj. kr. farið í góðri trú stjórnenda fyrirtækja til þess að kaupa sér úreldingu eins og kallað hefur verið, en með dómi Hæstaréttar kemur í ljós að þau kaup voru óþörf. Þetta er ekki tryggt umhverfi sem þannig er skapað þeim sem í greininni starfa og ekki bæta úr skák hinar eilífu upphrópanir um sægreifa og gjafakvóta, en sýnt hefur ítrekað verið fram á bæði í þingsölum og fræðilega að hugtakið gjafakvóti stenst alls ekki. Sægreifatalið hefur svo leitt til þess að hinir heiðarlegustu menn í greininni veigra sér orðið við að umgangast fólk vegna þess að á þá er litið sem allt að því glæpamenn.

Okkur eru ljósar þær deilur sem sprottið hafa á síðustu árum um fjölda daga í svokölluðu dagakerfi krókabátanna þar sem eigendur þeirra og fjölskyldur búa við stöðuga óvissu um það hversu marga róðrardaga þeir fái þetta og þetta fiskveiðiárið.

Það snart mig mjög, herra forseti, bréf sem mér barst í tölvupósti frá eiginkonu trillusjómanns úti á landi. Í því bréfi hvatti hún í rauninni mjög til þess að þingheimur setti ,,allt undir kvóta`` eins og hún orðar það í bréfinu en tekur jafnframt skýrt fram að hún hafi ávallt og alla tíð haft efasemdir um ,,blessað kvótakerfið`` eins og það er orðað í bréfinu. En hún notar hugtak sem ég hef reyndar ekki heyrt áður. Hún telur að óvissa sóknardagakerfisins skapi ekki bara óöryggi fyrir fjölskylduna heldur líka ótta um líf og limi eiginmannsins sem böðlast við að sækja sjó hvernig sem viðrar á þeim fáu dögum sem honum var úthlutað. Hún talar einmitt um að kvótakerfið sé fjölskylduvænna heldur en óvissa sóknardagakerfisins.

Þá leyfi ég mér, herra forseti, að vitna til eins sögulegasta plaggs sem ég hef séð lengi. Það er bréf sem hv. nefndarmenn sjútvn. fengu boðsent frá framkvæmdastjóra og formanni Landssambands smábátaeigenda, með í rauninni hvatningu um að setja smábáta á kvóta. Það er sögulegt vegna þess að talsmenn Landssambands smábátaeigenda hafa einatt verið mjög kröftugir og ötulir talsmenn gegn kvótasetningu. En þetta bréf og þessi hvatning til hv. þingmanna segir e.t.v. sína sögu.

Þau dæmi sem ég hef rakið hér segja okkur í rauninni að þeir sem í greininni starfa telja óvissuna óþolandi og undir það sjónarmið hljóta menn að taka. Í rauninni fela þessi dæmi sem ég hef nefnt í sér beiðni um festu og sátt um fiskveiðistjórnarkerfi þannig að þeir sem stunda þessa atvinnugrein, sjávarútveg, geti fengið tryggt rekstrarumhverfi, getið fengið atvinnuöryggi og stundað sína atvinnu við að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Nú má segja að hæstaréttardómurinn frá því í desember setji hlutina í uppnám og þau viðbrögð sem urðu við honum af hálfu hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnar og síðan meiri hluta hv. sjútvn. eru einmitt til þess fallin að skapa þá festu sem um er beðið, þjóðfélagið þarf á að halda og ekki síst þeir sem í greininni starfa. Það er verið að bregðast við dómi Hæstaréttar um 5. gr., jafnræðisregluna svonefndu, og það er sannfæring okkar að þau viðbrögð sem birtast í frv. dugi til þess. En það er líka vert að leggja áherslu á það, herra forseti, að hér er einnig verið að leggja þunga áherslu á verndun atvinnuréttinda þeirra sem greinina hafa stundað.

Það munu vera komnar u.þ.b. 3.000 umsóknir á borð hæstv. sjútvrh. þar sem óskað er eftir veiðileyfi. Ætti að verða við öllum óskum sem þar koma fram, þá væri um að ræða yfir 1 millj. tonna af þorskígildum. Með því að aðhafast ekkert eins og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa í raun lagt til, þá er verið að bjóða þessum 3.000 einstaklingum sem hafa sótt um veiðileyfi frjálsan aðgang að annars takmarkaðri auðlind og menn geta rétt spurt sjálfa sig hverjar yrðu afleiðingar þessa. Við þessu er hv. sjútvn. einmitt að bregðast. Hún telur sig með því vera að vernda þjóðhagslega hagsmuni, vernda takmarkaða auðlind og ekki síður að vernda mikilvæg atvinnuréttindi þeirra sem sjósókn hafa stundað um árabil og áratugabil. Það hlýtur að vera skylda hv. alþingismanna að vernda þetta hvort tveggja.

Með þessum efnislegu tökum er sem sagt verið að bregðast við dómi. Það er verið að bregðast við dómi án þess að valda kollsteypu í samfélaginu. Ég nefni kollsteypu því að af málflutningi sumra hv. stjórnarandstæðinga mætti skilja að þeir vildu bregðast þannig við að aðhafast lítið eða ekkert og valda á þann hátt kollsteypu í sjávarútvegi og þar með efnahagslífi landsmanna.

Það sem líklega er þó mikilvægast og að mínu mati e.t.v. merkilegast í frv. því sem hér er til umræðu er í rauninni sú grein sem minnsta umfjöllun hefur fengið, bæði á hv. Alþingi sem og í fjölmiðlum, en það er ákvæðið um úttekt á kostum og göllum þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum búið við frá 1983. Það tel ég vera mikilvægt vegna þess að þar er gert ráð fyrir því að menn fari yfir þetta fyrirkomulag faglega og hlutlaust eftir kosningar og láti ekki það sem kalla má fyrirtíðarspennu kosningaskjálftans raska ró sinni við vandlega yfirferð á afskaplega viðkvæmu máli. Það væri ábyrgðarleysi að grípa til einhverra skyndiaðgerða, kasta kerfinu fyrir róða án þess að hafa einhverja heildstæða lausn til þess að taka við. Á þá lausn hefur ekki verið bent, síst af hv. stjórnarandstæðingum þrátt fyrir að þeir hafi margfaldlega verið um hana spurðir. Við megum ekki hleypa efnahagslífi okkar í uppnám, ógna atvinnu og þjóðarhagsmunum. Þess vegna vil ég segja að stærsta málið frv. er einmitt sú úttekt sem á að vera lokið fyrir árið 2000.

Við skulum jafnframt hafa það í huga að á meðan sú úttekt fer fram, þá búa rekstraraðilar í sjávarútvegi áfram við óvissu. Áfram eiga þeir yfir höfði sér að nú kunni enn að verða mikil breyting á lögum um stjórn fiskveiða sem eiga að skapa rekstraröryggi þessara aðila. Engu að síður er það áhætta sem menn verða að taka því að það ríður á að ná á breiðum grunni aukinni sátt um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og ætlum þó fyrst og fremst að búa við.

Herra forseti. Ég ætla ekki efnislega að fjalla meira um þetta frv. Ég tel að viðbrögð hv. meiri hluta sjútvn. hafi verið afskaplega efnisleg og ég vil mótmæla því sem fram hefur komið hjá sumum hv. stjórnarandstæðingum að hér sé kastað til höndunum. Ég leyfi mér að fullyrða að meiri hluti sjútvn. hefur lagt gífurlega mikla vinnu í þetta, eytt til þess miklum tíma og notið ráðgjafar fjölmargra sérfróðra aðila. Auðvitað má endalaust deila um hvort þetta sé hin eina rétta niðurstaða. Ég gæti sem og flestir aðrir bent á einhverjar áherslur sem mættu vera öðruvísi en það er sannfæring okkar í meiri hlutanum, og við gerum þetta í bestu trú, að þarna sé verið að bregðast eins vel og hægt er við dómi Hæstaréttar, hafandi í huga fólkið sem starfar í sjávarútvegi hvort heldur er á landi eða á sjó og með bestu trú um að hér sé þjóðhagslegra hagsmuna gætt.

Ég leyfi mér, herra forseti, að benda á ákveðna stefnumörkun sem fram kemur í frv. og það er úthlutun á um það bil 3.000 tonnum sem fara til báta allt að 200 tonna eða brúttólesta að stærð. Þar er stefnumörkun sem lengi hefur verið kallað eftir og hygg ég að margir muni fagna, þ.e. verið er að bæta aflamarksbátum og svonefndum gleymdum flota, hinum hefðbundna vertíðarflota, þá skerðingu sem sá floti hefur orðið fyrir umfram aðra á liðnum árum. Það er löngu tímabær ákvörðun og er þess vegna merkileg stefnumörkun.

Stærri mál þurfa hins vegar að bíða frekari umfjöllunar. Eins og ég nefndi áðan þá þarf að fjalla um þau yfirvegað og málefnalega og það er gert samkvæmt frv., tillögu um nefnd á breiðum grunni, eins og fram kemur í nál. hv. meiri hluta sjútvn. þar sem menn fara yfirvegað yfir hin stórpólitísku mál fiskveiðistjórnar. Það er í rauninni sama hugmynd og áður hefur verið samþykkt, ef ég man rétt, einróma á hv. Alþingi með svonefndri auðlindagjaldsnefnd þar sem þverpólitísk nefnd er skipuð til þess að fjalla þverpólitískt um þetta viðkvæma mál, auðlindagjald, og menn gefa sér til þess góðan tíma þannig að umræðan verði ekki full af upphrópunum eða fyrirsögnum eins og oft vill bera við þegar auðlindagjald ber á góma og hefur svo skýrlega komið fram í umræðum hjá hv. stjórnarandstæðingum í dag, einkum úr þingflokki jafnaðarmanna. Í rauninni býr hér sama hugmynd að baki, að þverpólitísk nefnd, nefnd á breiðum grunni, fjalli yfirvegað um málið og ljúki störfum fyrir árið 2000 og hún hlýtur þá auðvitað að taka jafnframt mið af því sem fram kemur hjá auðlindagjaldsnefndinni. Vissulega er af mörgu að taka hvað auðlindagjaldið varðar, umræðuna um gjafakvóta og þar fram eftir götunum og ætla ég ekki að fara út í þá umræðu hér að svo stöddu.

Annað sem hlýtur að verða fjallað um í þessari nefnd eru vinnsluskipin. Á síðustu árum hefur stöðugt hærra hlutfall af aflaheimildum færst yfir á vinnsluskipin og þess vegna má segja að að mörgu leyti skjóti það skökku við hversu mikil umræða fer fram um veiðar smábáta á sama tíma og stöðugt meiri afli, hærra hlutfall heildaraflaheimildanna, færist yfir til vinnsluskipanna. Nú hefur ítrekað komið fram hörð gagnrýni á nýtingarstuðla vinnsluskipanna. Það hefur jafnframt verið mjög sterklega fullyrt að afla vinnsluskipa sé að miklu leyti varpað í sjóinn aftur. Sumir fullyrða allt upp í 50%. Þó ekki væri nema 20% þá er það mikið. Vinnsluskipin koma ekki með allt hráefnið að landi svo sem hausa og annað því um líkt sem vissulega er mikil þörf fyrir eins og mörg dæmi sanna. Ég nefni ýmis fyrirtæki sem hafa verið að vinna bæði úr hausum og slógi.

[20:45]

Ég lýsi því hér með, herra forseti, að mér eru mikil vonbrigði að ekki skuli hafa verið lagt fram frv. með endurskoðun á nýtingarstuðlum og rekstrarumhverfi vinnsluskipa. Ég batt miklar vonir við það og taldi að a.m.k. á þessu kjörtímabili kæmi slíkt frv. fram að lokinni vandlegri vinnu en það hefur ekki litið dagsins ljós og mun ekki gera. Ég hlýt því að trúa því að í þeirri endurskoðunarnefnd sem er til umræðu hljóti þessi þáttur að vega nokkuð þungt.

Ég nefni jafnframt sem viðfangsefni nefndarinnar brottkast sjávarafla í svonefndu kvótakerfi. Þar hafa verið viðraðar ýmsar hugmyndir og ég gæti tekið undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni í dag að í rauninni er tiltölulega einfalt að koma með lausn á því og ég harma að menn skuli a.m.k. ekki hafa lagt út í þær tilraunir. Þannig má áfram telja en ljóst er að hin stóru mál varðandi sjávarútveginn verða rædd í þeirri úttektarnefnd sem frv. gerir ráð fyrir og á að skila fyrir lok ársins 2000. Hver veit þá nema árið 2000 verði stóra árið í fiskveiðistjórnun þar sem menn hafa vonandi komist að betri niðurstöðu og aukinni sátt um það mikilvæga hagstjórnartæki okkar sem heitir fiskveiðistjórnun.

Rétt að lokum, herra forseti. Það sem mér finnst líklega merkilegast við þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag og mun líklega fara fram á morgun áfram um þetta frv. er sú staðreynd að í rauninni hafa fáar beinar tillögur komið frá stjórnarandstöðunni um það hvernig skuli bregðast við dómi Hæstaréttar. Þó má ef grannt er skoðað sjá ýmsar vísbendingar. Ég nefni í fyrsta lagi það sem hefur verið bent á, misvísandi óskir einstakra hv. þm. stjórnarandstöðu. Þannig skrifar hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir 7. desember sl. undir fyrirsögninni ,,Kvótadómurinn, endurskoðun strax`` --- og ég endurtek, ,,endurskoðun strax``. Sama rödd heyrðist hjá nokkrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar fljótlega eftir að dómur hafði verið kveðinn upp að ríkisstjórn bæri að hraða viðbrögðum við dómi Hæstaréttar.

En hver hefur svo verið rödd hv. stjórnarandstæðinga í dag? Hún hefur verið sú að ríkisstjórn og meiri hluti hv. sjútvn. hafi unnið málið of hratt og jafnvel hafa einstaka hv. stjórnarandstæðingar gengið svo langt að leggja til að ekkert verði að gert næstu fjögur árin sem þýðir að þeir 3.000 aðilar sem bíða eftir að fá veiðileyfi afgreidd á þeim fjórum árum gætu vaðið um fiskveiðilandhelgi okkar og stefnt allri auðlindinni í voða. Þetta eru misvísandi skilaboð frá hv. stjórnarandstöðu og ekki mjög vænleg þegar einn daginn er ætlast til þess að málið sé unnið hratt og næsta dag sé það unnið til nokkurra ára.

Annað sem fram hefur komið hjá hv. stjórnarandstöðu er m.a. að einfaldasta aðgerðin við að svara dómi Hæstaréttar sé að bjóða allar aflaheimildir upp. Það hefur ítrekað komið til umræðu og fyrir því er til allrar hamingju einfaldlega ekki meiri hluti því að þrátt fyrir jafnaðaryfirbragð hv. stjórnarandstæðinga felur slíkt uppboð eingöngu eitt í sér, það að þar sem peningarnir eru fyrir þar munu aflaheimildir að lokum lenda. Það mundi í rauninni umbylta allri byggð á Íslandi og fækka sjávarútvegsfyrirtækjum niður í líklega 10--12. Þetta er þó ákveðin stefna sem einstaka hv. stjórnarandstæðingar boða og er rétt að halda til haga.

Ég nefni í þriðja lagi, herra forseti, það sem ég reyni að rýna út einhverja stefnu frá hv. stjórnarandstæðingum, það var þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hvorki meira né minna en formaður Alþfl., boðaði banndagakerfið. Ég ítreka að formaður Alþfl. boðar banndagakerfi sem lausn á vanda smábátasjómanna. Í ræðu hans fyrr í kvöld sagði hann frá því að í síðustu ríkisstjórn hefðu smábátamenn átt málsvara sem væru alþýðuflokksmenn en ættu engan slíkan í núv. ríkisstjórn.

Þá er rétt að rifja upp, herra forseti, hvert var viðhorf smábátasjómanna til banndagakerfisins, skilgetins afkvæmis Alþfl. úr síðustu ríkisstjórn, og hvernig ástandið var hjá smábátasjómönnum í upphafi þessa kjörtímabils. Rétt er að rifja það upp því að þá var þingið í umsátursástandi, trillukarlar af landinu öllu í hundraða tali héldu til umhverfis Alþingi dögum saman til að kveða niður banndagakerfið sem Alþfl. barðist fyrir í síðustu ríkisstjórn og kallar sig síðan talsmann smábátasjómanna. Þetta er ein stefna sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa boðað í umræðunni og er líka rétt að halda til haga.

Í þriðja lagi nefni ég, herra forseti, að varðandi svonefndan byggðapott í frv. hefur hv. frsm. stjórnarandstöðu, Svanfríður Jónasdóttir, brugðist við með því að kalla það spillingu. Einnig er rétt að halda því til haga að hún telur spillingu að grípa til aðgerða til að styrkja veikar byggðir landsins, eins og Breiðdalsvík svo að nærtækt dæmi sé tekið.

Að lokum, herra forseti, það sem mér þykir merkilegast úr umræðu og úr stefnu hv. stjórnarandstæðinga er að hér hafa hv. þm. jafnaðarmanna boðað ríkisútgerð og ekkert annað. Þeir hafa með öðrum orðum seilst til stefnu Alþfl. frá því á árunum 1930--1940 þar sem Alþfl. boðaði ríkisútgerð. Ekki er hægt að lesa annað út úr ræðum hv. stjórnarandstæðinga þar sem þeir gagnrýna mjög það ákvæði frv. að einkavæða aflaheimildir eins og þeir hafa kallað það.

Herra forseti. Íslendingar eiga landið og Íslendingar eiga miðin í kringum það. Það er síðan fullveldisréttur stjórnvalda hverju sinni hvernig þessi verðmæti lands og miða eru nýtt og þar eru aðeins tvær leiðir færar. Annars vegar er sovétleiðin, þ.e. að ríkið annist slíkan rekstur með ríkisútgerð ellegar þá að einstaklingum verði treyst fyrir því að skapa verðmæti úr auðlindinni með þjóðarhagsmuni í huga. Það er sú leið sem við höfum áratuga og jafnvel aldagamla reynslu af, það er sú leið sem er farin víðast hvar út um heim og þess vegna er merkilegt að heyra það núna í lok 20. aldar að þingmenn jafnaðarmanna skuli boða ríkisútgerð á Íslandi sem lausn á dómi Hæstaréttar.

Að þessum atriðum töldum, einum fimm atriðum sem eru að vísu misvísandi, hlýtur það endanlega að sannfæra mig um gildi hlutlausrar, fræðilegrar og yfirvegaðrar úttektar á fiskveiðistjórnarkerfinu frekar en að grípa til þeirra ráðstafana sem þó hafa verið kynntar af hálfu stjórnarandstöðunnar.