Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 21:53:35 (3010)

1999-01-11 21:53:35# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[21:53]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að þakka hv. þm. fyrir þessa ræðu vegna þess að ég held að það sé upphaf alls þess sem getur orðið til góðs að menn þori og vilji og ætli sér að reyna að hugsa nýjar hugsanir. Að stunda rannsóknir með opnum huga var einhvern tíma sagt að væri eini grunnurinn til þess að menn gætu náð einhverjum árangri. Ég hef ekki stöðu eða getu til þess að segja til um hvort allar skoðanir eða einhverjar af skoðunum hv. þm. séu nákvæmlega réttar eða rangar, ég ætla ekki að dæma um það. En ég held að á hinu háa Alþingi komi menn og reyni að ræða hinar ýmsu víddir þessa máls opnum huga, það sé forsenda þess að við eigum í framtíðinni möguleika á því að reyna að endurskoða, reyna að bæta og reyna að ná árangri. Þess vegna vil ég ítreka þakkir mínar til þingmannsins fyrir að ræða þessa hluti frá svo óvenjulegum sjónarhornum.

Ég vil líka taka undir með honum þegar hann segir frá því hvernig fjölmiðlar fara með eina umræðu. Mér kæmi ekki á óvart þó að niðurstaðan verði sú eftir þessa kvöldfundi að þessarar ræðu hans yrði hvergi getið í neinum fjölmiðli. Það væri þá í líkingu við margt annað sem við höfum séð til þeirra.

Í þriðja lagi langar mig líka til að spyrja hv. þm. hvort ekki geti verið rétt að einmitt við þær aðstæður sem eru núna eins og ég þekki t.d. til vestur á fjörðum að við erum með mjög fallandi nýtingu í fiski. Nýtingin fellur frá því á sama tíma í fyrra um leið og rækjan er að hverfa og ég hef lesið skrif frú Unnar Skúladóttur um þetta. Gæti kannski ekki verið að það sé rétt sem margir sjómenn halda fram að við séum komnir yfir stóru bunguna, yfir vöxtinn og nú taki við hjá okkur það sem við þekkjum, að náttúran rís og náttúran hnígur?