Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 21:58:36 (3012)

1999-01-11 21:58:36# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[21:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af þessu vil ég benda á að það er ekkert auðvelt að koma á fót nýjum rannsóknarstofum og ég hef trú á því að Hafrannsóknastofnun Íslands sé í sjálfu sér mjög mikið og öflugt rannsóknartæki, hafi mikil tækifæri og ég trúi því varla að við getum skipt kröftunum svo.

Mig langar til í framhaldi af ummælum hv. þm. að skjóta fram þeirri hugmynd hvort það sé ekki þá kannski fyrsta skrefið að sú mikla og öfluga rannsóknastofnun sem við höfum fái óháða vísindanefnd við hliðina á sér til þess einmitt að horfa á það þeim augum sem þeir einir geta horft sem eru fagmenn á þessu sviði hvernig þeir bera sig að og hvernig við stöndum faglega vísindalega að því sem við erum að gera. Ætli það geti ekki verið leiðin til þess þó að ekki sé verið að karpa um það eða efast um að þessir menn og þetta fólk sé í sjálfu sér hið ágætasta, hvort það þurfi ekki að fá til að tryggja það sem ég sé sums staðar í ræðum og ritum líka efasemdir um að verið sé að rannsaka opnum huga. Menn hræðast fasisma hvergi meira en í vísindum. Hann getur getur hvergi verið hættulegri. Ég skal ekki segja hvort menn hafi rétt fyrir sér í þessu en ég skýt því fram hvort ekki sé hugsanlegt að okkur liggi mest á því núna að fá vísindanefnd til að starfa með Hafrannsóknastofnun til að fara yfir, leiðbeina og ráðleggja um starfssvið þeirra og vinnubrögð.