Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:35:05 (3023)

1999-01-12 11:35:05# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:35]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða þingmannsins um athugun á rétti launþega í sjávarútvegi vil ég rifja upp að sjútvn. hefur ákveðið að fara þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að gera álitsgerð um hver atvinnuréttindi útvegsmanna eru, með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrárinnar, og enn fremur að stofnunin gefi álit sitt á því hvort aðrir sem starfa við sjávarútveg, þ.e. sjómenn og fiskverkunarfólk, eigi stjórnarskrárvarinn atvinnurétt í greininni.

Ég hygg að þetta muni varpa ljósi á stöðu réttinda þessa fólks og vænti þess að ekki séu deilur uppi á hinu háa Alþingi um að sjútvn. hafi frumkvæði að því að afla álitsgerðar af þessu tagi.

Ég vil einnig segja, vegna þess sem fram kom í ræðu þingmannsins um ýmsa ágalla á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, (Gripið fram í: Framkvæmd.) að hann er ekki einn um þá skoðun að ýmir ágallar séu á þessu kerfi. Þá skoðun er að finna meðal þingmanna í öllum flokkum og þá skoðun er einnig að finna meðal ýmissa sem hafa kynnt sér kerfið hérlendis. Ég minni á heimsókn skoskra sjómanna á sl. sumri sem kynntu sér kerfið og höfðu ýmislegt gott um það að segja enda hefur margt reynst vel í því. En þeir bentu á að að þeirra mati væru á því gallar sem væru alvarlegastir þeir að kerfið leiddi til brottkasts á fiski og byggðaröskunar. Við hljótum að taka alvarlega álit annarra manna á þessu kerfi okkar og íhuga það.

Ég minni á að stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að bregðast við sjónarmiðum af þessu tagi með því að skipa nefnd til að endurskoða lögin í heild sinni. Sú nefnd mun starfa á breiðum grundvelli þannig að það mun örugglega verða að þau sjónarmið sem hér voru reifuð eigi hljómgrunn eða aðgang að starfi nefndarinnar.