Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:41:50 (3026)

1999-01-12 11:41:50# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi í ræðu minni áðan að allur sá viðbótarafli, þau 6 þúsund tonn sem er verið að ræða um núna í pottagöldrunum, færi gegnum kvótamarkað með ákveðnum skilyrðum. Eru það engar tillögur? Það er nákvæmlega sama, herra forseti, hvaða tillögum við stjórnarandstæðingar höfum lýst í þessum ræðustóli, það er alveg sama hvaða tillögur við höfum komið með og hvað við höfum sagt, það eru engar tillögur. Það er nákvæmlega það sama sem hefur gerst í gegnum tíðina frá 1993. Hver einasta tillaga sem undirritaður hefur flutt hefur annaðhvort ekki verið hlustað á eða verið felld, önnur en sú að ég flutti till. til þál. um að könnuð yrðu áhrif veiðarfæra, dragnótar og trolls, sem var samþykkt. Og hvað var gert með hana? Hvað var gert með þessa tillögu? Búið var að úthluta fjármunum til að útfæra tillöguna. Það var ekkert gert. Ekki neitt. Ekki handtak. Þetta er árangurinn.

Ég hef áhyggjur af því, þegar ég nefndi sjósókn í skammdeginu, hvað menn ætla að fara að gera núna, t.d. í minni gömlu heimabyggð þar sem ættmenni mín eru og umbjóðendur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þeir verða núna að fara að stunda sjósókn yfir þennan tíma til að sækja sér réttindi í meðafla. Er það ekki rétt? Er það rangt?

Varðandi sátt í nefndinni vil ég segja þetta: Fyrsta blað sem ég sá eftir helgi var Dagblaðið. Á baksíðu þar var þvert yfir síðuna viðtal við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson. Hann sagði, með mínum orðum, að hann hefði samþykkt þetta með hundshaus. Er það slík sátt sem ríkir í nefndinni?