Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:44:09 (3027)

1999-01-12 11:44:09# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef oft veitt því athygli að hv. þm. hefur mikinn áhuga á útgerð og útgerðarháttum, sérstaklega strandhéraðanna, og hefur oft komið með mjög góðar og þarfar ábendingar og tillögur þar um. Ég reyndi að hlusta á ræðu hans og reyndi að leggja mig fram. Hann fór á mjög athyglisverðan hátt yfir vandamálin sem við stöndum frammi fyrir gagnvart aflakvótakerfinu, gagnvart brottkastinu og gagnvart þeirri gífurlegu sóun sem við vitum að á sér stað við fiskveiðarnar.

En ég gat ekki heyrt, ég gat ekki áttað mig á því hvað það er sem hann leggur til. Við höfum verið að takast á um hvernig við eigum að standa að útgerð smábátanna, hvernig það geti gagnast þeim best, hvernig það geti gagnast þjóðfélaginu best, hvernig við gerum það best. Við höfum verið að deila um þetta, við erum búin að deila lengi um þetta. Nú stöndum við frammi fyrir þeim vanda sem þessi dómur hefur í för með sér og við erum að reyna að tryggja atvinnuréttindi þessara útgerða og þessara manna og menn deila um hvernig eigi helst að gera það. En ég gat ekki áttað mig á því hver var afstaða hv. þm.