Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:48:00 (3029)

1999-01-12 11:48:00# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:48]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði þennan hluta ræðunnar um verðmætakvótann. Að vísu hafði ég aldrei heyrt það fyrr og það er út af fyrir sig ágætt og gott og þakkarvert þegar menn koma með nýjar hugmyndir og reyna að horfa á nýja fleti og nýjar víddir í því vandamáli sem við erum að fást við. En ég held að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir því að við höldum náttúrlega áfram að tala um sjávarútvegsmál. Í þessu frv. og þessum brtt. er gert ráð fyrir því að á næstu tveim árum ætlum við að endurskoða það allt frá grunni. Það er hið ágætasta mál að menn komi með sem flestar tillögur og sem margbreytilegastar.

En ég var að spyrja eftir því hver afstaða hans væri til þeirra deilna og þeirra átaka sem hafa átt sér stað núna í æðimörg ár eða allan þennan áratug og reyndar hluta af þeim fyrri, hvort menn vildu setja alla þessa smábáta inn í aflamarkskerfið og hafa þá fasta þar, eða hvort menn vildu leyfa þeim að viðhalda því sóknarkerfi sem hefur þó verið þeim drýgst og komið þeim best og orsakað að þessi útgerð er þó enn þá til að mínum dómi. Ég er alveg viss um að hún væri horfin fyrir löngu hefðu þeir fengið að ráða sem vildu setja hana inn í hið almenna aflakerfi. Um þetta höfum við verið að takast á alveg fram á þennan dag. Um þetta var spurning mín.