Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 12:14:25 (3032)

1999-01-12 12:14:25# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[12:14]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir almenna umfjöllun hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um veiðistjórnina og veiðistjórnarkerfið. Ég vil taka að það hefur orðið hagræðing í kerfinu en það er þvinguð hagræðing. Sú hagræðing nemur sennilega 10%. Það eru engir smáfjármunir sem þar eru í húfi.

Það má vel vera að sóknarkvóti eigi vel við þetta útgerðarmynstur. Ég er ekki frá því að það geti verið. Til þess þarf hins vegar gífurlega sterka og aðhaldssama flotastjórnun. Það tengist máli sem hv. þm. nefndi undir lok ræðu sinnar, að ekki eigi að vera möguleiki á að flytja inn hvers konar skip sem er. Ég get tekið undir það. Mér fyndist það bara vitlaust.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann hafi myndað sér skoðun á frv. sem ég óskaði eftir að tekið yrði til umfjöllunar varðandi grásleppu sem meðafla og aðgerðir vegna þess ástands sem ríkir hjá 1.500 manns sem eiga að verulegu leyti afkomu sína undir grásleppuveiðum. Hefur hv. þm. eitthvað skoðað þau mál?

Síðan vildi ég, herra forseti, gjarnan spyrja hvort hv. þm. telji að þær aðgerðir sem liggja fyrir núna í frv. geti gilt sem svar við hæstaréttardóminum sem felldur var í máli Valdimars Jóhannessonar.

Að lokum spyr ég: Er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sammála mér um það að stór hópur íslenskra sjómanna sé ekki lengur frjáls vegna þess kerfis sem þeir búa við?