Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 12:23:06 (3036)

1999-01-12 12:23:06# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[12:23]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Málið sem þingið fjallar um þessa dagana, frv. ríkisstjórnarinnar um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, er gífurlega þýðingarmikið, ekki síst í ljósi þess að frv. er tilkomið vegna dóms frá æðsta dómstóli landsins, sem þykir mjög nýstárlegur og grípur mjög ákveðið inn í lagaframkvæmd í vissum atriðum. Þó er ekki að öllu leyti fullljóst hvert dómurinn er að fara varðandi einstaka þætti, a.m.k. ef marka má umræðuna sem síðan hefur farið fram. Þar koma fram mjög ólík sjónarmið. Ég ætla við 2. umr. málsins að víkja að því sem snýr að Alþingi varðandi meðferð flókinna mála eins og þeirra sem hér eru, samspili þessara mála og þingsins sem stofnunar við stjórnkerfið að öðru leyti, þar á meðal við dómskerfið eða þá sem yfir lögfræðilegri þekkingu búa.

Ég held að þau viðbrögð sem hér birtast við dómi Hæstaréttar í tillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta sjútvn. séu afar ófullnægjandi. Þau eru mjög takmörkuð og spurning hvort þau taka á þeim þáttum sem Hæstiréttur vísar til í dómsniðurstöðu sinni. Dómur Hæstaréttar er tilkominn vegna tiltekins máls og málshöfðunar sem kunnugt er og Hæstiréttur hafði auðvitað ekki tilefni til að fara yfir allt sviðið eða leggja mat á fiskveiðistjórnarlögin í heild sinni. Álit réttarins fór a.m.k. að verulegu leyti eftir því hvernig þetta tiltekna mál var fyrir lagt. Samt má lesa margt út úr dómi réttarins sem vísar til þess að ekki sé eingöngu verið að fjalla um atvinnuréttindin, þá þætti sem ríkisstjórnin er að bregst við með frv. sínu og meiri hluti sjútvn. Þar virðist vísað í fleira, til jafnræðisviðhorfa sem tengst geta því kerfi sem nú er lögfest og hugmyndin er að lögfesta áfram með þessu frv.

Það er auðvitað ekki hlutverk dómstóla að útfæra forsendur t.d. í stjórnarskrá. Það er Alþingis að setja reglurnar. En dómstólar hafa eðlilega rétt og skyldur til að kveða á um skilning og túlkun á forsendum, í þessu tilviki varðandi stjórnarskrá lýðveldisins og á því byggir Hæstiréttur dómsorð sitt. Það er túlkun á tilteknum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Virðulegur forseti. Það er mikið umhugsunarefni í hversu afar veikri stöðu Alþingi er til að taka á málum af þessum toga og hversu illa og ófullkomlega er búið um samspil Alþingis sem löggjafarvalds við upplýsingabrunna í samfélaginu, til þess að leita ráðgjafar, ekki síst varðandi möguleika á því að fá túlkanir á forsendum eins og hér um ræðir, þ.e. forsendum stjórnarskrárinnar. Mér verður æ meir hugsað til þess, virðulegur forseti, hve knýjandi er orðið að styrkja Alþingi sem stofnun, langtum meira en tekist hefur þrátt fyrir ágæta viðleitni í þá veru á undanförnum árum. Sú viðleitni er þó afar langt frá því að geta talist fullnægjandi. Mér finnst málið sem við ræðum hér og aðrir þeir dómar sem fallið hafa og byggja á túlkun stjórnarskrár og þar með á afgreiðslu Alþingis eða forsendum löggjafar sem Alþingi hefur sett, kalla á að þingið athugi sinn gang af fullri alvöru og fjalli um hvernig við getum styrkt stöðu þingsins þannig að það rísi undir þeim kröfum sem nútímasamfélag og réttarþróun gerir. Í tengslum við það þyrfti jafnframt að skoða samskipti Íslendinga í alþjóðasamfélaginu, varðandi alþjóðasáttmála sem við höfum gerst aðilar að í sívaxandi mæli. Í mörgum tilvikum er það sjálfsagt og eðlilegt þó að önnur atriði á því sviði séu álitaefni sem kunnugt er. Þetta leiðir hugann að því. Mér finnst umræðan sem hér hefur fram farið um þetta mál --- þá vísa ég til 1. umr. sem ég tók ekki þátt í m.a. vegna þess hve tíminn fyrir jólin var knappur til þingstarfa og umræðu um þetta efni --- hafa of lítið beinst að þessum þætti og þess vegna leyfi ég mér að fjalla um þetta við 2. umr.

Þegar við ráðum í dóm Hæstaréttar, sem er forsenda fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar þótt ég sé ekki sáttur við það hvernig lesið er í málið, þurfum við að átta okkur á því að sjónarmið innan réttarins og meðal löglærðra manna eru mismunandi. Innan Hæstaréttar ríkja vafalítið mismunandi viðhorf til mála sem þessara. Því er réttmætt að menn velti fyrir sér hvort líklegt sé að niðurstaða dómstólsins hefði orðið önnur ef sjö hefðu verið í dómi í stað fimm, eins og stóðu að þeim dómi sem hér var uppkveðinn. Ég er ekki að ræða það út frá því sjónarhorni að skylt hefði verið að hafa sjö dómara í dómi, að það hefði verið nauðsynlegt eða eðlilegt, heldur út frá því að ástæða er til að ætla að allólík viðhorf geti verið til þróunar mála og einnig til réttarþróunar. Þar á meðal geta viðhorfin til tengsla við alþjóðasáttmála sem við erum aðilar að verið ólík.

[12:30]

Mér sýnist að sá dómur sem um ræðir sé meira í anda þróunar dómshefða eins og við höfum orðið vör við að þær þróist á meginlandinu, innan ríkja Evrópusambandsins og einnig þegar litið er til sjálfs Evrópudómstólsins. Þetta er því ekki þröngur dómur, það er ekki bókstafstúlkun sem liggur að baki heldur víðari sjónarmið sem verið er að taka tillit til og ákveðin lykilatriði í stjórnarskrá okkar sem verið er að gefa nýtt inntak og þá alveg sérstaklega hugtakinu jafnræði.

Það er nokkuð ljóst að dómur af þeim toga sem hér hefur verið felldur af Hæstarétti hefði tæpast fallið fyrir nokkrum árum, segjum 5--10 árum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hér endurspeglast þróun í dómskerfinu sem trúlegt er að áframhald verði á og sem við þurfum að átta okkur á, einnig á Alþingi og búa okkur undir að líta á málin með hliðsjón af þeirri þróun sem er að verða innan dómskerfisins. Auðvitað er afleitt, virðulegur forseti, ef það á að gerast trekk í trekk --- og það má búast við að við eigum eftir að fá í framhaldi af afgreiðslu þessa máls aðra dóma sem Alþingi getur þurft að taka tillit til og sem geta kannski orðið okkur áminning um það eftir á en of seint að það hefði þurft að spá betur í þau spil sem við erum að ræða en raun ber vitni og taka sér til þess eitthvað rýmri tíma til þess að ná niðurstöðu.

Spurningin er þá, virðulegur forseti: Til hvaða ráða ætti þingið að grípa? Ég hef engar úthugsaðar tillögur fram að færa hér og nú um það efni en ég vil leyfa mér að vísa til þess sem gerist í þróuðum ríkjum réttarfarslega sem er sjálfsagt að líta til í þessum efnum. Ég nefni í því sambandi þýska stjórnlagadómstólinn sem er beinlínis til þess settur að kveða á um gildi lagasetningar með tilliti til stjórnarskrár. Ég er ekki að segja að aðstæður á Íslandi þurfi að vera hliðstæðar að öllu leyti, það er auðvitað atriði sem þarf að skoða vel. En sá dómstóll er beinlínis kosinn af stjórnmálaflokkunum, kosið er í stjórnlagadómstólinn af stjórnmálaflokkunum. Niðurstöður hans eru bindandi og þinginu gjarnan gefinn ákveðinn tímafrestur til þess að leysa úr árekstrum milli settrar löggjafar og stjórnarskrár.

Í Frakklandi er sérstakt stjórnlagaráð starfandi og þingmenn, einnig þingmenn í minni hluta, geta skotið settum lögum, ekki aðeins frumvörpum heldur lögum sem þingið hefur sett til stjórnlagaráðsins til þess að fá viðbrögð, til að fá um það úrskurð hvort viðkomandi lög standist stjórnarskrá. Þá eru það ekki einhver tiltekin atriði sem þar eru undir heldur geta það verið lögin í heild sem stjórnlagaráðið kveður upp úr um hvort fái staðist. Menn ættu að bera saman aðstöðu okkar á Alþingi Íslendinga við þær aðstæður sem nú ríkja og þá möguleika sem væru ef við værum með stjórnlagadómstól í einhverju formi til þess að prófa á --- og ég gleðst yfir, virðulegur forseti, að hæstv. dómsmrh. og sjútvrh. er kominn, en ég er að ræða um þætti sem falla ekkert síður undir dómsmrh. en sjútvrh. sem stendur bak þessu frv. --- og hvernig við værum í allt annarri stöðu til að taka á málum og gildir það bæði um stjórn og stjórnarandstöðu, um þingið almennt ef það væri til staðar á vegum þingsins eða tengt þinginu stofnun sem hægt væri að skjóta frumvörpum til eða settum lögum og fá um það niðurstöðu hvort viðkomandi lög standist stjórnarskrá lýðveldisins eða ekki.

Ég held að í ljósi þess sem hefur verið að gerast sé knýjandi fyrir Alþingi Íslendinga að taka á þessu máli alveg sérstaklega, hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt fyrir þingið að stuðla að því að hér komi stofnun, nefnd eða ráð eða sérdómstóll, hvað menn vilja kalla það, sem þingið getur notað sér til halds og trausts í sambandi við mat á málum og sem tengist áliti á réttarþróun.

Mér finnst að umræðan um þetta mál eigi ekki síst að snúast um þetta. Auðvitað er hægt að ræða endalaust um þær tillögur sem fyrir liggja, m.a. að reyna að einfalda stjórnkerfið að því er varðar smábáta sem er það fyrirferðarmesta í þessu frv. Það er allt saman stórt mál út af fyrir sig og þýðingarmikið fyrir þá sem eiga í hlut og almennt fyrir þróun sjávarútvegs hvernig á þeim málum er haldið og sannarlega fátt sem vísar meira á þörfina á einföldun og skilvirkni í lagasetningu en sá frumskógur réttarheimilda eða lagaheimilda sem hefur þróast síðan 1984 varðandi smábátaflotann, sem er það flókið að það er ekki fyrir nema vel lesna og helst útlærða sem hafa tekið sér langan tíma í að fjalla um það að botna nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum og eðlilegt að þeir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta villist fljótt í þeim skógi öllum saman.

Virðulegur forseti. Við þurfum að nota þetta tilefni og tilefni sem hafa komið fram nú að undanförnu --- verið var að dæma af Hæstarétti ólöglegan flutning tiltekinnar stofnunar af því það rækist á við almenn ákvæði, stjórnarskrárákvæði, að flytja hana út fyrir Reykjavík. Það er auðvitað allt annað mál og miklu stærra sem við erum að fjalla um hér, en þetta tengist.

Virðulegur forseti. Ég nefndi þýska stjórnlagadómstólinn og franska stjórnlagaráðið. Ég held að leita megi til Norðurlanda að úrræðum þar sem menn hafa leitast við að draga hæstarétt með einhverjum hætti inn í mat á löggjöf og lagasetningu, t.d. í Svíþjóð. Ég á eftir að kanna það nánar en ég hygg að þannig hátti til hjá Svíum að sænska þingið hafi tryggt sér slíka möguleika.

Ég vil nefna svona rétt til umhugsunar hvort ekki væri athugandi fyrir Alþingi að koma á fót fastri ráðgefandi nefnd löglærðra manna þar sem um gæti verið að ræða tilnefningar frá Hæstarétti inn í slíka nefnd, tilnefningar frá lagadeild Háskóla Íslands. Ég legg áherslu á að ég segi lagadeild Háskóla Íslands --- ekki Lagastofnun, og eftir atvikum frá félögum lögmanna sem gætu átt erindi inn í Lögmannafélagið eða einhverjir slíkir sem gætu átt erindi inn í slíka nefnd, til þess að vera fastur ráðgjafi fyrir Alþingi í málefnum af þessum toga.

Við stöndum hér höndum uppi á Alþingi Íslendinga þegar spurningin er um að leita álits fyrir þingið. Menn eru endalaust að rugla saman reytunum við framkvæmdarvaldið sem er yfirleitt búið að múlbinda þessar stofnanir --- fyrirgefið, virðulegur forseti, ég biðst velvirðingar, það er kannski ekki rétt að segja að múlbinda --- en sem búið er að nýta sér þá möguleika til ráðgjafar sem helstir eru fyrir þingið, búnir að leita álits hjá þeim sem þingið er svo aftur að leita álits hjá og þar er búið að binda menn fyrir fram, hugsanlega með álitsgerðum.

Ég leyfi mér að ítreka það sem hefur komið fram hjá mér áður í sambandi við ýmis mál, þar á meðal varðandi frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði, að umræðan um Lagastofnun Háskóla Íslands sem álitsgjafa er komin út á hreinar villigötur. Ég heyrði það hjá formanni sjútvn., í framsögu formanns sjútvn., að einmitt væri leitað álits þangað og ætti kannski að leita frekara álits. Hvað er Lagastofnun Háskóla Íslands? Hagsmunafyrirtæki starfsmanna háskólans. Það er engin stofnun til þess að veita hlutlæga löggjöf. Þar eru skoðanirnar jafnmargar starfsmönnunum. Svo eru menn að flagga álitsgerðum einstakra starfsmanna Lagastofnunar Háskóla Íslands á Alþingi Íslendinga og almenningur utan þings heldur eðlilega að menn séu að tala um hlutlæg lögfræðiálit. Þetta er ekki lagadeildin sem þyrfti að fjalla um viðkomandi mál. Þetta er á ábyrgð þeirra sem veita álitið og fá borgað fyrir það.

Það er náttúrlega hneyksli fyrir þingið hvernig bar að í sambandi við gagnagrunn á heilbrigðissviði þar sem eitt aðalmálið sem lá fyrir, reitt fram inn í umræðuna var álit Lagastofnunar Háskóla Íslands. Þrír tilteknir ágætir menn stóðu að því áliti sem lá fyrir þinginu sem hafði verið pantað frá aðalhagsmunaaðila í málinu, Íslenskri erfðagreiningu, og borgað fyrir. Engin gagnsókn, enginn til þess að prófa viðkomandi lögfræðinga, starfsmenn háskólans. Engin gagnsókn var í málinu þannig að þeir væru að svara krítískum spurningum. Þeir voru að svara spurningum frá aðalhagsmunaaðilanum sem var að sækja á um einkaleyfi.

Ég nefni þetta, virðulegur forseti, til þess að vekja athygli á því öngstræti sem við erum stödd í á Alþingi að því er þetta snertir, ósjálfstæði þingsins og vandræði að fá bærar álitsgerðir sem einhver veigur er í. Við eigum að nota það mál sem um ræðir til þess að taka okkur tak í þeim efnum.

Jafnframt, virðulegur forseti, eigum við að styrkja þingið að öðru leyti eins og forusta þingsins hefur verið að leitast við að gera, m.a. með tilstyrk hæstv. forseta á undanförnum árum að því er varðar gagnaöflun og annað af því tagi. Þegar kemur að þessu, spurningunni um álitsgerðir varðandi sjálfa stjórnarskrána og túlkun hennar, erum við náttúrlega með svo stórt mál á ferðinni að það kallar á það að mínu mati að sköpuð verði festa með fastanefnd eða sérstökum dómstól eða ráði sem yrði þar til kvatt. Réttarþróunin öll kallar á þetta. Hvað sem menn vilja segja um óhæfi dómstóla er það auðvitað svo, virðulegur forseti, að dómstólar þurfa í vaxandi mæli að svara spurningum sem eru stórpólitískar í eðli sínu. Ég er ekki að segja flokkspólitískar en almennt séð pólitískar. Það er það sem er að gerast í réttarþróun á meginlandinu sem farin er að grípa inn í okkar mál í sívaxandi mæli í gegnum EES-samninginn og Evrópudómstólinn, sbr. 6. gr. EES-samningsins þar sem okkur ber að taka tillit til réttarþróunar og niðurstöðu Evrópudómstólsins. Þessi dómstóll er í rauninni farinn að kveða upp hápólitíska dóma, frumkvæðisdóma er hafa síðan áhrif á réttarþróun.

[12:45]

Virðulegur forseti. Mér þætti gott ef hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. léti uppi sjónarmið sín varðandi það sem ég hef nefnt. Mér finnst þetta það þýðingarmikið í samhengi við málið sem hér um ræðir. Jafnhliða vil ég beina þessu máli til hæstv. forseta til umhugsunar. Ég veit að hæstv. forseti hlýðir á mál mitt en mér finnst þetta viðfangsefni sem forsætisnefnd þingsins og forusta þurfi að gefa gaum að. Við gætum lent í brotsjóum áður en varir í samhengi við stjórn fiskveiða. Að því kemur að kveðnir verða upp dómar um þá niðurstöðu sem hér er fjallað um og það sem ekki er lagt til hér en sumir lesa út úr dómi Hæstaréttar að dómurinn hafi verið að fara. Á það getur reynt fyrr en varir. Væri ekki gott að þingið væri betur í stakk búið, hefði einhvert björgunarbelti, þegar menn lentu í þeim brimgarði? Hann getur verið skemmra undan en margan grunar.

Í lögunum um stjórn fiskveiða erum við, virðulegur forseti, með gífurlega snúin álitaefni sem eru vegna samspils 1. gr. við útfærsluna. Það er þess eðlis að knýjandi er að kafa í það til að átta sig á raunverulegu inntaki sameignarákvæðisins varðandi nytjastofna á Íslandsmiðum. Sá sem hér talar ber nokkra ábyrgð á því að það ákvæði var tekið inn, vakti athygli á því árið 1983 í umræðu um fyrstu löggjöfina um þetta efni, að taka bæri þetta viðhorf, sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum, inn í löggjöfina sem síðan var gert 1987. Það hefur verið þróað síðan og settir inn ýmsir varnaglar við 1. gr. eins og þar kemur fram.

Við stöndum frammi fyrir spurningum, virðulegur forseti, um hversu langt jafnræðiskrafan geti leitt. Hver er sú sérstaða útgerðaraðila sem taka ber tillit til varðandi atvinnuréttindi? Hver er hún? Hvar eru mörk hennar? Hver er réttur byggðanna í landinu sem hefur skapað í rauninni grunninn fyrir úthlutun eins og hún var gerð og rækilega og eðlilega hefur verið gagnrýnt að gerðist án þess að nokkurt gjald kæmi fyrir? Síðan geta menn gengið út úr kerfinu með stórar upphæðir. Það sker allra mest í augu við núverandi stjórnkerfi fiskveiða og er hvað mest gagnrýnt. Hver er réttur fólksins og sjávarbyggðanna sem skapa þennan auð á hverjum tíma?

Ég ætla, virðulegur forseti, tímans vegna ekki að fara lengra út í hugleiðingar um þetta. Ég vildi aðeins koma þessu viðhorfi á framfæri en síðan fjalla um fáeina aðra þætti sem snerta frv. og talsvert hefur verið rætt um. Annars vegar er það spurningin um breytingar á núverandi löggjöf sem hugsanlega væru til bóta og það sem ekki hefur verið tekið inn. Mér finnst að það gildi um mikið af því sem rætt er um í sambandi við þetta að það skortir á fótfestu. Það vantar ansi mikið í grunninn, bæði í gagnrýni en líka í sambandi við útfærslur. Ég tel að þetta eigi við þingið almennt. Í rauninni geta allir á þingi tekið það að nokkru leyti til sín að við höfum á liðnum árum ekki fjallað nógu rækilega um grundvallarþætti þessa máls, ekki þá bara lögfræðilega heldur samhengið við nýtingu auðlindarinnar. Það þarf auðvitað að skoða út frá mælikvarða sjálfbærrar þróunar. Í þeim efnum höfum við fengið gott orð utan úr heimi upp á síðkastið. Við huggum okkur gjarnan með því. Það getur út af fyrir sig verið gott að líta til þess sem jákvætt er um okkur sagt utan að. En ég tel að veikleikarnir hjá okkur við meðferð þessara mála séu gífurlega margir.

Eitt atriði hefur verið rætt og gagnrýnt harðlega m.a. af minni hluta sjútvn. Það er kallað byggðapotturinn. Fleiri hugtök komu við sögu, pottagaldrar held ég, hjá málsnjöllum manni úr þingflokki jafnaðarmanna. Hann talaði um pottagaldra í sambandi við þá viðleitni sem fram kemur í þessu frv. og hefur auðvitað borið á áður. Menn hafa reynt að tjasla upp á þetta kerfi og berjast við afleiðingar þess, taka til hliðar ákveðið magn aflaheimilda til að bregðast við sértækum vandamálum. Menn höfðu 500 tonn vegna smábáta fyrir nokkrum árum. Það var síðan afnumið. Nú eru menn með tillögu um 1.500 tonn til þess að bregðast við vá í tilteknum byggðarlögum.

Ég sagði fyrr í umræðunni, í andsvörum við formann sjútvn., að ég er við núverandi aðstæður, á þessari stund, eindreginn stuðningsmaður þess að hafa slíka neyðarútgöngu eða slíkt viðlagaákvæði í lögunum. Ég hefði gjarnan kosið að þarna væri um að ræða stærri pott til þess að bregðast við afleiðingum kerfisins á meðan við finnum okkur ekki aðra leið sem ásættanleg er af meiri hluta þingsins til að skipta um kerfi. Ég tilfærði nýlega sláandi dæmi um aðstæður í sjávarplássi á Austurlandi sem eru eins og einhver orðaði það réttilega, skólabókardæmi um aðstæður sem verður að bregðast við og í rauninni er óhjákvæmilegt að bregðast við því. Það snertir réttlætiskennd manna. Það snertir hag það margra að ekki verður fram hjá gengið. Þær aðstæður gætu komið upp í hvaða kjördæmi landsins sem er og hvenær sem er, þinginu að óvöru, vegna þess að kerfið felur í sér að hægt er að kippa grunninum undan atvinnu manna og lífsafkomu með því að flytja aflaheimildir burtu eða ráðstafa öðruvísi en gerst hefur.

Það hefur komið fram áður, bæði hjá mér og enn frekar af hálfu fyrrv. formanns sjútvn., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ítrekað hefur flutt tillögur í þinginu til að bregðast við vandamálum sem skapast af núverandi kerfi. Það var síðast á síðasta þingi með þingmáli 263, um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Þar eru ítarleg atriði sem snerta marga augljósa ágalla kvótakerfisins. Þar var m.a. gert ráð fyrir því, og ég var meðflutningsmaður að því máli, að settur yrði viðlagapottur upp á 7 þúsund lestir til ráðstöfunar í byggðarlög sem misst hafa umtalsverðan hluta veiðiheimilda sinna, þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs. Þetta var heimild sem gert var ráð fyrir að yrði virk á fiskveiðiárinu 1998/1999, 7 þúsund tonn. Ég held að menn taki þarna of lítið undir með þessum 1.500 tonnum. Síðan er sá ágalli á málinu að því er varðar aðsteðjandi vanda nú á þessari stundu að þetta verður ekki virkt fyrr en á næsta fiskveiðiári samkvæmt tillögu meiri hlutans og kannski ekki útfært fyrr en í byrjun næsta árs, ársins 2000. Það kemur til ný stjórn Byggðastofnunar eins og minnt hefur verið á sem væntanlega verður ætlað að útfæra málið þó hugsanlegt sé að núverandi stjórn móti tillögur. Ég geri kröfu til þess, í sambandi við þetta mál, að þannig verði um hnúta búið að hægt verði að grípa á vandamálum af þeim toga sem ég nefndi. Þau geta dunið yfir sjávarbyggðirnar fyrirvaralaust. Þannig stæðu menn ekki tómhentir án þeirra tækja sem til þarf.

Um leið vil ég leyfa mér, virðulegur forseti, að gagnrýna þá röksemdafærslu sem fram hefur komið hjá minni hluta sjútvn. og tekið er undir af hverjum alþýðuflokksmanninum á fætur öðrum, eða jafnaðarmanninum, hvað sem menn vilja kalla sig. Þeir hafa lagst í víking gegn sértækum aðgerðum til að bregðast við ágöllum núverandi kerfis. Þetta er ein aðaluppistaðan í málflutningnum. Það kemur ekki svo mjög á óvart hjá þeim sem vilja láta markaðinn um að leysa sem flesta hluti, ef ég hef lesið rétt í málflutninginn, að það eigi að vera sjálfvirkar, sjálfgengar reglur út frá óskilgreindum hugmyndum um jafnræði sem leysa eigi allan vanda. Ef vandinn er það stór að menn nái ekki saman um hann á Íslandi, þá á að færa þetta undir Evrópuréttinn. Það er mat þingflokks jafnaðarmanna sem vill koma Íslendingum inn í Evrópusambandið hið fyrsta og fá nú óvæntan stuðning frá utanrrh. landsins. Hann hefur nýverið lýst áhuga á því að koma Íslendingum í gættina a.m.k. með því að kanna til þrautar sjávarútvegsþátt málsins. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur því fengið liðsstyrk í forustu Framsfl. í þessu mikla hugðarefni, að færa Íslendinga undir Evrópuréttinn í allri grein með aðild að Evrópusambandinu.

Ég heyrði þetta, virðulegur forseti --- ég ætla ekki að ræða það sérstaklega --- í jómfrúrræðu hjá ungum þingmanni sem er nýkominn í þingið og túlkaði þetta mjög ákveðið í umræðunni í morgun. Ég las reyndar í blaðagrein í Morgunblaðinu eftir sama hv. þm. Þar mátti sjá viðhorf hinna ungu jafnaðarmanna, alþýðuflokksmanna, til byggðarmálanna. Nefndur hv. þm. er því miður ekki hér viðlátin, hv. 15. þm. Reykv., sem skrifaði í Morgunblaðið 7. janúar 1999 undir fyrirsögninni ,,Byggðamál og borgarsvæði``. Það væri vert fyrir menn að lesa sér svolítið til í þeim fræðum til að átta sig á því hvert hin vaska sveit jafnaðarmanna stefnir í sambandi við byggð í landinu og tillögugerð þar að lútandi.

Virðulegur forseti. Ég sé fulla ástæðu til þess að nefna þetta. Það hlýtur að vera mönnum mikil spurning hvert sú fylking sem hefur verið að reyna að koma undir sig fótunum að undanförnu stefni, hvert inntak þeirrar stefnu er. Það skiptir kannski ekki öllu máli hvaða höfuð verða á henni ef málafylgjan er af þeim toga sem margar greinar benda til.

Virðulegi forseti. Litið til einstakra efnisþátta er af mörgu að taka í sambandi við málið. Ég hef látið það koma fram. Ég tel að í þessu frv. hafi menn stytt sér leiðina og ekki kafað djúpt í forsendur sem ég tel að lesa megi út úr dómi Hæstaréttar. Verði niðurstaðan sú að frv. verði lögfest með þeim breytingum sem fyrir liggja þá sýnist mér að til þess komi fyrr en síðar að nýir dómar falli og þingið þarf þá að bregðast við. Meginatriðið í máli mínu hér er að þingið búi sig til að geta lesið betur í málin en verið hefur, efli sig til að fást við forsendur lagasmíðar þannig að eðlilegra réttarviðhorfa sé gætt og eðlilegt tillit tekið til stjórnarskrárvarinna ákvæða varðandi lagasetningu og lagasmíð.

Það væri mikið fengið, virðulegur forseti, ef þessi atburður, svo leiður sem hann verður að teljast fyrir Alþingi Íslendinga, dómurinn sem ég met almennt séð jákvæðan, verður til að þingið taki sér tak og verði sér úti um tæki til að slíkir atburðir verði ekki árvisst brauð, hvað þá daglegt.