Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:05:58 (3038)

1999-01-12 13:05:58# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:05]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna ummælum hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. um þetta efni og þeim undirtektum sem hann veitir við þeim hugmyndum, vissulega ekki útfærðum, sem ég var að reifa í máli mínu. Við erum greinilega alveg sammála um að leita þurfi nýrra úrræða fyrir þingið og ríkisvaldið einnig eftir atvikum til að atburðir af þeim toga sem þessi stofnun á undanförnum mánuðum hefur ítrekað verið að reyna endurtaki sig ekki, verði ekki margir því greinilegt er að verulega skortir á að skilningur hafi verið nógu vel ígrundaður, að forsendur hafi verið nægilega vel kannaðar í sambandi við lagasetningu og þingið þarf að gefa meiri gaum að réttarþróuninni og hvert hún er að leiða okkur vegna lagasetningar.

Virðulegur forseti. Ég hefði talið að það þyrfti að koma þessu máli hið fyrsta í formlegan farveg af hálfu þingsins því að það er auðvitað þingið sem hér á í hlut og ríkisvaldið, ríkisstjórn og framkvæmdarvaldið, hefur haft sín úrræði og eins og ég gat um, sumpart þurrausið þá brunna sem helst er fyrir þingið að leita í. Við þurfum að gæta þess að það séu viskubrunnar sem við höfum í að leita í sambandi við þessi mál og að tekið sé af framsýni og víðsýni á málum við lagasetningu og ákvarðanir sem miklu varða fyrir þjóðarheildina.