Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:08:08 (3039)

1999-01-12 13:08:08# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:08]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikilvægt íhugunarefni en það er engan veginn víst að menn leysi öll vandamál af þessu tagi jafnvel þó að þingið eigi kost á ráðgjafaráliti frá færustu sérfræðingum. Ég er t.d. nokkuð sannfærður um að ef slík ráðgjöf hefði verið fyrir hendi og gefin fyrir 15 árum þegar löggjöfin var sett í upphafi, þá hefði hún ekki verið á þann veg sem dómur Hæstaréttar varð nú um 5. gr. og það sem ýmsir vilja halda fram að dómurinn sé að segja um 7. gr. vegna þess að þá voru aðrar hugmyndir uppi í þessum efnum. Það á sér stað ákveðin réttarþróun og engan veginn er víst að álit sem gefið er á einum tíma standist fyrir dómstóli áratugum síðar. En eigi að síður breytir það ekki þeirri skoðun minni að þetta þarf að íhuga og það þarf að leggja meiri rækt við spurningar sem lúta að stjórnarskránni þegar við erum að setja okkar löggjöf og ekki síst í ljósi þess að ýmsir ytri þættir eru farnir að hafa mjög mikil áhrif á lagasetninguna. Réttarþróunin í Evrópu hefur eðlilega mikil áhrif hér og við þurfum að huga að þeim þáttum öllum og reyna líka að átta okkur á því hvert réttarþróunin er að stefna að þessu leyti.

Síðan er það alveg sjálfstætt íhugunarefni hvort sjálfstæður stjórnlagadómstóll á að koma til skjalanna en við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að við leysum ekki málin í eitt skipti fyrir öll. Jafnvel þó að við finnum farveg fyrir svona vinnubrögð, þá getur það alltaf komið upp síðar að lög verða talin stangast á við stjórnarskrá samkvæmt nýjum hugmyndum.