Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:43:34 (3045)

1999-01-12 13:43:34# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, StB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Lögin um stjórn fiskveiða eru til meðferðar rétt eina ferðina og nú vegna dóms Hæstaréttar sem vissulega er ekki venjulegt. Eins og við var að búast hefur umræðan um grundvallarbreytingar á lögunum um stjórn fiskveiða blossað upp eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp.

Umræður um kvótakerfið eru svo logandi í þjóðfélaginu að ekki var við öðru að búast en breytingar á lögunum kölluðu á hugleiðingar manna úr öllum áttum um hvort hagfelldar breytingar mætti gera sem sátt gæti orðið um. Þegar umræðan er komin af stað í þinginu bendir hins vegar fátt til þess að svo geti orðið ef marka má umræðuna hér og þá miklu umfjöllun sem jafnan fer fram í fjölmiðlum um lögin um stjórn fiskveiða og allt sem lýtur að nýtingu auðlinda sjávar.

Af hálfu stjórnarflokkanna var ekki gert ráð fyrir því að taka upp lögin um stjórn fiskveiða á þessu stigi. Hæstaréttardómurinn kom hins vegar mörgum á óvart og eins og eðlilegt og nauðsynlegt var af hálfu ríkisstjórnarinnar var brugðist strax við og leitað leiða til þess að skýra stöðuna, koma í veg fyrir óvissu og standa þannig að málum að þrátt fyrir dóm Hæstaréttar yrði ekki nein viðvarandi óvissa um þennan mikilvæga atvinnuveg okkar, sjávarútveginn. Eftir skoðun málsins varð það niðurstaðan að rétt væri að bregðast við dómi Hæstaréttar með því að leggja til að breytingar yrðu gerðar á 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og öðrum ákvæðum laga sem tengjast aðgangi að veiðileyfum en ekki væri efni til þess að leggja til breytingar á 7. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þetta er sá útgangspunktur sem valinn var og við höfum verið að vinna á grundvelli hans síðustu dagana í þinginu.

[13:45]

Í dómi Hæstaréttar er hvergi vikið að því að ástæða sé til að bregðast við með öðrum hætti en þeim sem ríkisstjórnin gerir í frv. sínu, þ.e. að taka til við breytingar á 5. gr. Eins og oft vill verða fer umræðan um víðan völl og það hefur heyrst að menn hafa talið að einnig þyrfti að gera breytingar á 7. gr. en niðurstaðan er hins vegar sú sem hér er til umfjöllunar, breytingar á 5. gr., og breytingar sem leiða af henni og varða fyrst og fremst smábátaútgerðina.

Að mínu mati voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar hárrétt að því er varðar breytingar á 5. gr. laganna og engra annarra kosta var völ en að ganga mjög hratt til verks að þessu leyti og sjá til þess að allri óvissu væri eytt sem fyrst. Í dómi Hæstaréttar kemur fram það sjónarmið að eðlilegt sé og full heimild til að bregðast við og forða ofveiði á fiskstofnunum. Í dómnum segir m.a., með leyfi forseta, ég vildi aðeins árétta það sem þar kemur fram:

,,Löggjafanum er rétt að takmarka fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ef uggvænt þykir, að fiskstofnar séu í hættu. Byggist það á almennum valdheimildum handhafa löggjafarvaldsins og fullveldisrétti ríkisins, sbr. 2.--4. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar standa því ekki í vegi að í lögum sé mælt fyrir um slíkar takmarkanir, enda sé almannahagsmunum fyrir að fara. Af forsögu núgildandi fiskveiðistjórnarlaga er ljóst, að löggjafinn hefur talið að almannaheill ræki til takmörkunar veiðanna. Ekki eru efni til þess að því mati verði haggað af dómstólum.``

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að undirstrika alveg sérstaklega það sem kemur fram í dómi Hæstaréttar því að sumir hafa efast um heimildir til að takmarka aðganginn að auðlindum sjávar og atgangur sá, sem ýmsir hafa staðið fyrir og hefur helgast af því að reyna að fá aðgang að auðlindinni, hefur verið miðaður við að stjórnvöldum væri ekki heimilt að takmarka aðganginn.

Að mínu mati hefur kvótakerfið sem slíkt sannað gildi sitt sem sóknarstýringaraðferð. Vandinn og deilurnar hafa hins vegar staðið um útdeilingu á aflahlutdeild og þar með aflamarki á hvert skip og ekki síst hinu ótrúlega verði á aflaheimildum sem ganga kaupum og sölum á milli útgerða. Ég lít svo á að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við hafi sannað gildi sitt að langmestu leyti en þetta sé stærsti og erfiðasti gallinn á því sem er hins vegar í rauninni ekki galli á löggjöfinni heldur er framkvæmdaratriði og snýr að útvegsmönnum sem kaupa og eru tilbúnir til að kaupa aflaheimildir á svo háu verði sem raun ber vitni. Ég tel því að það sé fyrst og fremst vandi útgerðarmannanna sjálfra sem hafi skapað það háa markaðsverð sem ógnar e.t.v. kerfinu sem slíku.

Spurt er hvort kvótakerfið sé í hættu eftir dóm Hæstaréttar. Ég tel að svo sé alls ekki. Með þeim breytingum sem við erum að fjalla um á 5. gr. er komið til móts við það sem dómurinn fjallar um og þá niðurstöðu sem hann gefur en eftir sem áður á að vera hægt að halda þessu kerfi. Hins vegar þurfum við auðvitað að gæta þess að gera á því endurbætur eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum. Þann tíma sem ég hef verið á þingi höfum við staðið fyrir mjög umfangsmiklum lagfæringum á lögunum um stjórn fiskveiða sem ég tel að hafi allar verið til mikilla bóta og við þurfum að þróa kerfið og færa það til betri vegar. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim breytingum sem við höfum gert, hvort sem um er að ræða takmörkun á framsali, reglum um skattalega meðferð, sem varðar að vísu ekki lögin um stjórn fiskveiða, sem var afar mikilvægt að gera breytingar á. Í þriðja lagi má nefna ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða um hámarkseign einstakra útgerðaraðila. Fleira mætti nefna af breytingum sem við höfum verið að gera á lögunum um stjórn fiskveiða og allar miða að því að gera kerfið skilvirkara og betra sem grundvöll fyrir sjávarútveg á Íslandi.

Ég nefndi áðan að verðið á aflaheimildum sem ganga í kaupum og sölum, bæði leiguverð og sala á varanlegum aflaheimildum, er allt of hátt. Í rauninni er óskiljanlegt hvernig það hefur verið að þróast og ég vil að það komi fram að ég tel að útgerðarmenn beri á þessu mjög mikla ábyrgð og það sé svo komið að slík verðlagning á aflaheimildum sé sá partur af þessu öllu saman sem ógnar einna helst lögunum um stjórn fiskveiða og í raun öllu fiskveiðistjórnarkerfinu.

En hvaða leiðir eru til að bæta þessa stöðu, bæta hér úr? Við höfum kosið til verka svokallaða auðlindanefnd. Hún er að störfum og henni er ætlað að skoða hvernig við getum nýtt auðlindir okkar sem best og hvernig við tökum á gjaldtöku gagnvart auðlindunum. Starf nefndarinnar er að því er ég best veit komið nokkuð á veg en engar niðurstöður liggja fyrir eða eru mér vitanlega uppi á borðinu. Ég bind mjög miklar vonir við starf þessarar nefndar. Í nefndina voru kjörnir fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og við verðum að binda miklar vonir við starf nefndarinnar og að hún geti orðið til þess að leggja fram tillögur sem mætti fjalla um á Alþingi og gætu leitt til meiri sáttar um nýtingu auðlinda, bæði auðlinda hafsins og auðlinda í jörðu og nýtingu þeirra.

Hvað varðar nýtingu auðlinda sjávar og hið svokallaða kvótakerfi hafa menn gagnrýnt annars vegar að nota þetta aflamarkskerfi sem ég tel að hafi sannað gildi sitt. Menn hafa síðan gagnrýnt það og krafist þess að tekið yrði upp veiðileyfagjald, settur skattur á sjávarútveginn og þannig yrðu þeir sem hefðu veiðiheimildir knúnir til að greiða afla- eða veiðigjald eða auðlindagjald í ríkissjóð.

Ein leiðin sem menn hafa nefnt til að komast út úr þessu kerfi, brjóta kerfið upp er uppboðsleiðin, þ.e. að notuð yrði sama aðferð og menn nota við sölu laxveiðileyfa í ám og vötnum. Auðvitað þarf að skoða þá hugmynd eins og allt annað í þessu sambandi en ég hef ekki séð hvaða möguleikar væru á því að bjóða upp aflaheimildir og skapa þá miklu óvissu sem mundi fylgja því. Sala á aðgangi, sala á veiðileyfum fyrir íslenskan sjávarútveg verður að vera þannig að það sé stöðugleiki. Það sé ekki algerlega hendingu háð hvaða heimildir útvegsmenn og þar af leiðandi hvaða möguleika fiskvinnslan í landi hefur til þess að vinna og selja síðan afurðir. Ég get ekki séð að sú leið, sem ýmsir ,,ábyrgir aðilar`` --- við skulum hafa þetta innan gæsalappa --- hafa nefnt, sem er uppboð á veiðiheimildum, sé fær nema settar séu mjög miklar girðingar, mjög harðar og háar girðingar eins og er nú í tísku að tala um á vinstri væng stjórnmála a.m.k., til þess að tryggja að á einni nóttu færu ekki allar veiðiheimildir úr einstöku byggðarlögum.

Í annan stað má nefna að það mætti skoða, og það hlýtur að verða skoðað í náinni framtíð, hærra aðgangsgjald að auðlindinni. Við þekkjum það í dag að innheimt er veiðileyfagjald af útgerðinni sem er viss krónutala á tonn. Það er ekki há upphæð en það er vafalaust eitt af því sem verður skoðað í framtíðinni að teknu tilliti til þess kostnaðar sem ríkissjóður hefur af rannsóknum á auðlindum hafsins og eftirliti með veiðum o.s.frv. Ég tel að eðlilegt sé að það gjald sem greitt er fyrir veiðileyfi standi undir þeim kostnaði sem tengist beint útveginum. Ég hef hins vegar ekki getað fallist á að tilefni væri til að efna til sérstakrar skattlagningar á sjávarútveginn sem hluta af stjórnkerfi í sjávarútvegi.

Þá vil ég nefna hér sem eitt af því sem hefur verið rætt og ég tel að þurfi að ræða um, að vísu er ekki sérstök ástæða til þess við þessa umræðu að eyða miklum tíma í það því hér er um svo þröngt og afmarkað svið þessarar löggjafar að ræða en það er skattlagning söluhagnaðar þegar útgerðarmenn ganga út úr rekstri í sjávarútvegi. Það getur hins vegar ekki verið partur af lögum um stjórn fiskveiða, það hlýtur að verða að taka öðruvísi á því en það er alveg ljóst að hið háa verð veiðiheimilda, sem verið er að greiða fyrir, kallar á umræðu um það hvernig megi ná til baka, þá í þágu almennings, þeim mikla hagnaði sem verður í einhverjum tilvikum af sölu á réttindum í sjávarútvegi.

[14:00]

Umræðurnar um það frv. sem hér er til meðferðar hafa hins vegar fyrst og fremst snúist um smábátana. Menn hafa að því er virðist verið nokkuð sammála um, þrátt fyrir minni háttar efasemdir af hálfu stjórnarandstöðunnar, að gera þessar breytingar á 5. gr. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um þær breytingar sem jafnframt er verið að gera á því skipulagi sem snýr að smábátaútgerðinni.

Sú gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar gæti bent til þess að stjórnarandstaðan hefði hreinlega ekki áttað sig á því hvaða hætta er á ferðinni ef ekkert verður að gert til að verja smábátaútgerðina. Mikilvægasta viðfangsefni okkar er að setja lög um stjórn fiskveiða sem fjalla um heildarhagsmuni. Hins vegar fer ekki hjá því að við verðum að líta til einstakra útgerðarhópa þegar verið er að setja lög. Hér er það gert með því að fara sérstaklega í þá þætti sem snúa að smábátaútgerðinni. Mér sýnist að hér hafi meiri hluti hv. sjútvn. náð býsna góðri lendingu.

Það er afar mikilvægt, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir, að tryggja að útgerð smábáta geti verið bærilega eðlileg. Smábátaútgerðin þróast mjög mikið og með tilkomu fiskihraðbáta og betri báta almennt hefur bátum fjölgað mjög mikið eins og allir þekkja. Með þessu frv. og brtt. hv. sjútvn. er leitast við að verja smábátaútgerðina og tryggja að smábátaútgerðin geti sinnt því mikilvæga hlutverki sem hún hefur tekist á hendur í síauknum mæli.

Ég hefði hins vegar talið heppilegra að við hefðum í þessum áfanga, af því nú er farið ofan í þessa löggjöf, getað einfaldað kerfið. Niðurstaðan er hins vegar sú að halda áfram með svokallað dagakerfi sem ýmsir leggja mjög mikla áherslu á og ég hef lagt áherslu á að væri nauðsynlegt. Niðurstaðan er sem sagt sú sem við höfum hér fyrir framan okkur. Ég geri engar athugasemdir við breytingartillögur meiri hluta sjútvn. Mér sýnist að þar hafi náðst lending sem við getum verið bærilega ásátt um, miðað við aðstæður.

Gagnrýnt hefur verið að Byggðastofnun skuli ætlað að hafa til ráðstöfunar tiltekin tonn sem nýta mætti til að koma til móts við byggðarlög sem lenda í hremmingum. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þetta og reynt að gera tortryggilegt. Ég tel þetta mjög mikilvægan hluta löggjafarinnar og algerlega óhjákvæmilegan, ekki síst vegna þeirrar óvissu sem hæstaréttardómurinn hefur valdið. Fyrir vikið er nauðsynlegt að Byggðastofnun geti, eins og hér er gert ráð fyrir, komið til móts við byggðir sem lenda illa úti. Þá er gert ráð fyrir að koma til móts við minni aflamarksbáta. Ég tel það einnig hafa verið nauðsynlegt.

Á heildina litið sýnist mér hv. sjútvn., meiri hluti hennar, hafa unnið býsna gott starf, komist að niðurstöðu sem ástæða er til að vekja athygli á að styrkir smábátaútgerðina. Ég vænti þess að breytingarnar geti orðið til að festa kerfið í sessi.

Ég ítreka að auðvitað þurfum við að vera á verði. Við þurfum að hafa fiskveiðistjórnarkerfið í stöðugri endurskoðun, ekki til þess að valda óvissu heldur til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Þar á ég við breyttar aðstæður í útgerðinni og ekki síður breyttar aðstæður almennt, en stöðugleikinn er það allra mikilvægasta fyrir sjávarútveginn.

Fyrir liggur að álag á auðlindir jarðarinnar hefur vaxið mjög mikið. Maðurinn er laginn við að finna leiðir til að nýta auðlindir. Það er afar mikilvægt fyrir okkur hér á Íslandi, í þessu stóra landi, fyrir fámenna þjóð sem byggir á auðlindum hafsins að ganga þannig um land og haf að ekki sé tjaldað til einnar nætur. Ég vil því nefna það sérstaklega að við eigum að standa þannig að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða að umfram allt skuli þess gætt að það tryggt sé að við ráðum við sóknina, að ekki verði brestur á stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum. Sá var nú tilgangurinn með lögunum um stjórn fiskveiða, að stjórna aðgangi að fiskimiðunum án þess að búa við sérstakt lögregluríki hvað það varðar.