Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:11:23 (3047)

1999-01-12 14:11:23# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá viðbrögð frá hv. þm. um þetta atriði, ekki síst með tilliti til ræðunnar sem hann flutti í morgun. Ég vakti sérstaka athygli á því að verðið væri ótrúlega hátt. Ég tel að það sé of hátt, bæði verð á leigukvóta og varanlegum aflaheimildum. Ég tel út af fyrir sig ekkert fyrir löggjafann að gera í þessu, ég tók það sérstaklega fram. Engu að síður tel ég ástæðu til að vekja athygli á þessu. Með því kapphlaupi og háa verði sem hefur viðgengist eru útgerðarmenn að ógna kerfinu. Þeir ógna kerfinu að ég tel og það er ekki í þágu útgerðarinnar og alls ekki í þágu fiskvinnslunnar sem endanlega verður að taka á sig hluta af verðinu. Auðvitað kemur það fram í fiskverðinu.

Fyrst og fremst eru þetta varnaðarorð af minni hálfu. Mér er hins vegar mjög vel ljóst að stjórnvöld hafa afskaplega lítið um það að segja hvað útgerðarmenn eru tilbúnir til þess að greiða fyrir aflaheimildir. Þannig er nú bara hinn frjálsi markaður.