Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:11:36 (3048)

1999-01-12 14:11:36# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég veiti því athygli að hv. þm. Sturla Böðvarsson er að tipla í kringum gjaldtöku í sjávarútvegi. Hann nefndi að e.t.v. væri ráðlegt að skattleggja þar sérstaklega söluhagnað. Ég vænti þess að hv. þm. hafi velt þessum málum eitthvað fyrir sér áður en hann varpar þessari hugmynd fram. Ég vil því gjarnan fá svör við nokkrum spurningum sem hljóta að leita á mann þegar hugmyndin er reifuð.

Í fyrsta lagi: Finnst þingmanninum eðlilegt að skattleggja söluhagnað í sjávarútvegi umfram söluhagnað í öðrum atvinnugreinum? Nú höfum við heyrt um mjög háar fjárhæðir þegar menn eru að selja fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Telur hann að það eigi að vera sérákvæði í skattalögum gagnvart sjávarútvegi þegar um söluhagnað er að ræða? Hvernig sér hann það fyrir sér? Á þetta að gerast við sölu hlutabréfa í fyrirtækjunum og þá hlutabréfum allra, bæði einstaklinga, fyrirtækja, lífeyrissjóða --- allra? Hvernig telur hann að hægt sé að fara með það sem kallað er óbein eignaraðild í sjávarútvegi, ef beita ætti þeirri aðferð?

Ég hef velt þessu fyrir mér sjálf. Mér finnst þetta vera afskaplega flókið og hef ekki alveg náð til lands þegar þessi aðferð er skoðuð. Þess vegna væri áhugavert að fá að heyra hvaða skoðanir eða niðurstöður hv. þm. hefur fundið í vangaveltum sínum um þetta mál.