Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:13:28 (3049)

1999-01-12 14:13:28# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eðlileg spurning hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. Spurningin er vissulega flókin og ekki einfalt að svara því hvernig setja eigi sérstakar reglur um skattlagningu á hagnaði í sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar. Það tel ég í rauninni ekki hægt.

Varðandi það að ég hafi tiplað í kringum gjaldtöku þá sagði ég hreint út að ég tel að skoða þurfi hvort ekki sé eðlilegt að útvegurinn greiði kostnað við eftirlit og megnið af hafrannsóknum, eftirlit með veiðum og þvílíka hluti. Það mundi leiða til þess að þessi gjaldtaka yrði hækkuð.

Ég hef hins vegar tekið það skýrt fram að ég er á móti því að við nýtum sjávarútveginn sem sérstaka auðlind, skattaauðlind, þar sem við mundum, eins og ýmsir jafnaðarmenn og jafnvel breiðfylkingarmenn á vinstri vængnum hafa talað um, ná inn miklum tekjum fyrir ríkissjóð. Ég get ekki fallist á það.

Niðurstaða mín er því sú að eðlilegt sé að skoða hvort útvegurinn eigi að greiða hærra gjald fyrir veiðileyfin til að standa undir kostnaði vegna sjávarútvegsins, sem ríkissjóður hefur í dag, en ekki séu efni til neinnar sérstakrar skattlagningar.