Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:20:07 (3052)

1999-01-12 14:20:07# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur staðið nokkuð lengi í dag og fer nú að ljúka. Fjölmörg atriði hafa komið fram sem talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert skýra grein fyrir og ég sé ekki sérstaka ástæðu til að fara yfir þau. Ég vil hins vegar freista þess í nokkrum orðum að draga fram þætti sem ég tel vera meginatriði í málinu.

Herra forseti. Þetta mál snýst um pólitískan grundvallar\-ágreining. Það gerði það þegar við 1. umr. og núna í 2. umr. Við skoðun breytingartillagna frá meiri hlutanum og nál. bæði meiri hluta og minni hluta er alveg ljóst að um grundvallarágreining er að ræða. Þetta hefur gleymst svolítið í tæknilegri umræðu um útfærslu smábátakerfisins sem er vitaskuld mikilvægur þáttur í fiskveiðistjórninni en hæstv. ríkisstjórn hefur notað þennan þátt til að draga umræðuna frá hinum pólitíska ágreiningi.

Það sem okkur stjórnmálamönnum ber skylda til að gera hér er að bregðast við dómi Hæstaréttar. Það var tilefnið til að breyta löggjöf. Nú hafa allir flokkarnir á hinu háa Alþingi stefnu í sjávarútvegsmálum, mismunandi vel útfærða. Ýmsir af flokkunum eru að undirbúa stefnu sína fyrir komandi kosningar, og vitaskuld er umræða sem þessi tækifæri til að draga fram helstu þætti í slíkri stefnumótun. Hins vegar er tilefnið annað, það er dómur Hæstaréttar sem við þurfum að bregðast við.

Það er ljóst um hvað dómurinn fjallar því að hann segir það beinlínis sjálfur. Hann dæmir ólöglega úthlutun veiðileyfa. Það kemur alveg skýrt fram í dómnum. En Hæstiréttur gerir annað. Hann setur ramma um stjórn fiskveiða og hann tengir þennan ramma þremur lagaákvæðum. Það eru þessi tvö ákvæði stjórnarskrárinnar sem voru skoðuð út frá þeim málavöxtum sem lágu fyrir dómnum, þ.e. jafnréttisákvæðið og atvinnufrelsisákvæðið. Þriðja stoðin í þessu uppleggi Hæstaréttar er 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Oft hefur verið vitnað til 1. málsliðar þessarar greinar, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.``

Þetta er 1. málsliður. En greinin í heild hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Þetta er mjög skýrt í lögum. Það er ekki einungis að nytjastofnarnir séu sameign heldur verður fiskveiðistjórnarlöggjöf að stuðla að verndun og hagkvæmni í nýtingu fiskstofna. Það er beinlínis krafa löggjafans við lagasetningu að hér sé hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi. Það er líka sagt hvað þetta fiskveiðistjórnarkerfi á að gera. Það á ekki bara að vera hagkvæmt, það á að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Því eru sett ströng skilyrði í lögum um stjórn fiskveiða hvað útfærslu löggjafarinnar varðar.

Síðan er kveðið á um það í þessari grein að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Við höfum hins vegar séð það gerast á þeim tíma sem liðið hefur frá því að fyrst var sett löggjöf um núverandi kvótakerfi.

Ríkisstjórnin túlkar dóm Hæstaréttar þannig að einungis sé verið að tala um veiðileyfi vegna þess að dómurinn tók einungis afstöðu til þess hvort heimilt væri að synja Valdimar Jóhannessyni um veiðileyfi á grundvelli bréfs hans eins og hann lagði það upp á sínum tíma. Niðurstaða Hæstaréttar var að ráðuneytinu væri ekki heimilt að synja honum um veiðileyfi vegna þess að úthlutun veiðileyfa er tiltölulega einföld. Hún byggir á því að sá einn geti fengið veiðileyfi sem átti skip á árunum 1981--1983, og það er þessi viðmiðunarregla sem Hæstiréttur segir að brjóti í bága við ákvæði þeirra laga sem ég vísaði til. Hann færir fyrir því rök að menn hafi mátt setja þessi lög í upphafi þegar mikil hætta vofði yfir fiskstofnum og af því að þetta var gert tímabundið en síðan breyttist form löggjafar. Þessa umræðu þekkjum við.

Við eigum sömuleiðis að þekkja það sem segir í lögum um stjórn fiskveiða, að við úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum, þ.e. kvóta, komi einnig einungis þeir til greina sem áttu skip á árunum 1981--1983. Það er alveg ljóst í lögunum um stjórn fiskveiða.

Það er þess vegna, herra forseti, sem við höfum sagt í þessu máli: Þetta er stærra mál en svo að hægt sé að reyna að leysa einungis spurninguna um hverjir eigi að fá veiðileyfið. Við stjórnarandstæðingar höfum sagt: Þessi dómur felur í sér að menn verða einnig að skoða úthlutun veiðiheimilda, þ.e. kvótans, vegna þess að sama regla er lögð til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda. Þessu hafnar ríkisstjórnin alfarið. Það er í þessu, herra forseti, sem hinn pólitíski ágreiningur liggur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þess vegna framsetningin sem stjórnarandstæðingar hafa komið með í þessu máli allt önnur. Ríkisstjórnin skoðar einungis 5. gr., túlkar hana reyndar á nokkuð sérkennilegan máta vegna þess að hún tekur upp stjórnkerfi um smábáta og breytir því í veigamiklum atriðum, fyrst í frv. og síðan enn og aftur og reyndar mun meira í brtt. sem eru til umræðu og koma til atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr.

Herra forseti. Það var hægt að taka upp veiðistýringu smábáta án dóms Hæstaréttar. Ef menn kusu að gera breytingar, hvort sem menn kusu að gera þær í átt við það sem meiri hluti sjútvn. leggur til í brtt. sínum eða í einhverja aðra átt, þá þurftu menn ekki dóm Hæstaréttar til að gera þessar breytingar. Ekkert í dómi Hæstaréttar kveður á um að útfærslan skuli vera með þeim hætti sem meiri hluti sjútvn. hefur lagt upp með.

Við erum að takast á um hugtakið ,,gjafakvótakerfi``. Við höfum lýst þessu fiskveiðistjórnarkerfi þannig að eitt aðaleinkenni þess sé að kvótum er úthlutað ókeypis, nær ókeypis því það er reyndar greitt smávægilegt þróunarsjóðsgjald fyrir veiðileyfin eða fyrir kvótann. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagst hatrammlega gegn þessu sjónarmiði. Þeir hafa að vísu hörfað smátt og smátt aðeins í áttina að þeim málflutningi sem við höfum talað fyrir, nú síðast í ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, sem sagði: Það er sanngjarnt að greitt sé fyrir veiðileyfi eða veiðiheimildir þannig að sá kostnaður sem ríkisvaldið verður fyrir vegna sjávarútvegs sé þá borinn upp af handhöfum kvótans. Þetta er ein af skoðunum sem heyrst hefur í sambandi við veiðileyfagjald, að fara þá leið að stilla gjaldtökuna þannig að hún verði ekki hærri en sem nemur kostnaði við sjávarútveginn, hvort sem það er eftirlit, menntun eða ýmsir aðrir þættir sem tengjast sjávarútvegi, sem eru nokkrir milljarðar, þrír, fjórir, fimm milljarðar í dag, það fer eftir því hvernig menn reikna það dæmi.

[14:30]

Aðrir segja, þar á meðal við jafnaðarmenn, að þetta snúist um sameiginlega auðlind og þá sanngirniskröfu að almenningur fái réttláta hlutdeild í afrakstri auðlindarinnar þannig að gjaldtaka geti þegar fram líða stundir orðið meiri en nemur kostnaði hins opinbera við sjávarútveginn, þegar fiskstofnar hafa náð að braggast og fyrirtækin geta unnið við slík skilyrði.

Um þetta hefur ríkt pólitískur ágreiningur um nokkra hríð í íslensku samfélagi. Hann kemur einnig fram í þessu máli þó við ættum að reyna að einskorða okkur við rammann sem Hæstiréttur setur okkur. Meginþátturinn er sá að okkar mati að taka verður úthlutunarkerfið, úthlutunarregluna til endurskoðunar vegna þess að hún brýtur í bága við þessar lagagreinar nákvæmlega eins og veiðileyfareglan, því þetta er sama reglan.

Nú liggja fyrir í sjútvrn. að ég held um 3.000 umsóknir frá einstaklingum sem sækja um veiðileyfi eða kvóta, misjafnt hvernig menn hafa orðað það í bréfum sínum. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréf sem hæstv. sjútvrh. var sent. Ég hef fengið leyfi bréfritara til að kynna bréfið hér á hinu háa Alþingi. Bréfið sem er skrifað í Kópavogi 6. jan. 1999. Sá sem skrifar það er ekki alveg ókunnugur hér í þingsölum. Það er Jón Ármann Héðinsson, fyrrv. alþingismaður, sem þekkir vel til íslensks sjávarútvegs. Bréfið er svona, með leyfi forseta, og ég ítreka að ég hef leyfi Jóns Ármanns Héðinssonar til að lesa bréfið:

,,Umsókn um veiðileyfi og aflamark, 6. des. 1998.

Ég sendi þetta bréf þar sem mér hefur enn ekki verið svarað þótt 30 dagar séu liðnir og er það alls ekki í samræmi við góða stjórnsýslu og vinnubrögð í hæstv. ráðuneyti þínu. Ég krefst þess án undanbragða að fá jákvætt svar við beiðni minni. Til upplýsingar, þótt ég viti að þér sé kunnugt um mikilvægan þátt minn í íslenskum sjávarútvegi, vil ég minna á eftirfarandi:

Ég kom með hugmyndina að flokkunarvél fyrir síld árið 1962 og greiddi tilraunir og gerð fyrstu vélarinnar. Þetta skapaði aukalega hundruð milljóna króna næstu árin fyrir afla í síldinni þar sem síldin var á næstu árum mjög blönduð og stundum algjörlega óvinnandi nema í gegnum flokkun. Nú er loðna flokkuð í mjög stórum stíl með sömu aðferð og geysileg verðmætasköpun vegna þessa í stað gúanóvinnslu.

Árið 1966 komum við bræðurnir með nýtt skip og það stærsta sinnar tegundar fyrir síld og loðnu. Í ms. Héðni ÞÁ 57 voru eftirtalin atriði heimsnýjung þá: Tvær þverskrúfur, sjókælitankur og sogdæla fyrir síld og fleira. Nokkur ár tók fyrir aðra að koma með slík skip og var upplýsingasöfnun og vinna við smíðina algjörlega mitt verk sem tók nærri tvö ár og víða farið til viðræðna og samninga um lausn á verkinu. Þetta var upphafið að þeirri veiðigetu sem hringnótaskipin sýndu síðar og gaf þjóðarbúinu ómælda milljarða kr.

Vegna aldurs hætti ég beinni vinnu við útgerð, fiskvinnslu og sölu eftir nær 40 ára starf. Heilsan er mjög góð og ég á smábát á Húsavík núna og vil fá að veiða á heimaslóðum eins og áður. Þetta er minn réttur samkvæmt stjórnarskránni`` segir í bréfi Jóns Ármanns.

Og hann heldur áfram:

,,Mér er mætavel kunnugt um þróun fiskveiðistjórnunar samkvæmt íslenskri löggjöf. Ég var fyrsti formaður fyrstu nefndarinnar í um þrjú ár sem kom með ný lög um fiskveiðar við landið árið 1970. Einnig var ég í fleiri nefndum og sat lengi á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Ég met þig mjög mikils fyrir skoðun þína á friðun vissra svæða til lengri tíma og þrengingu á togveiðarfærum. Ég hef enga sérstaka löngun til þess að standa í deilum við ráðherra eða ráðuneytið þar sem ég vann nærri fimm ár hér áður fyrr. Ég vil fá þetta einfalda leyfi. Það skaðar alls engan einstakling og ég þvælist hvergi fyrir neinum.

Með mikilli virðingu, Jón Ármann Héðinsson, Birkigrund 59, Kópavogi.``

Þetta, herra forseti, er bréf til hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar.

Jón Ármann hafði jafnframt sent stutt bréf 6. des. þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

,,Umsókn um veiðileyfi og aflamark. Með þessu bréfi sækir undirritaður um fullt veiðileyfi innan íslensku fiskveiðilögsögunnar og aflamark, samanber lög um stjórn fiskveiða, nr. 38. Aflamarkið sem undirritaður óskar eftir að fá í hlutdeild sína er eftirfarandi: Tólf tonn af þorski, fimm tonn af ýsu, eitt tonn af steinbít, hálft tonn af hlýra, hálft tonn af lúðu, hálft tonn af keilu og hálft tonn af karfa. Samtals 20 þúsund kíló eða 20 tonn.

Ég á smábát og mun fullnægja öllum reglum um búnað til veiða og sjósóknar. Ég byrjaði árið 1942 sem háseti og hef gert út og verkað fisk frá árinu 1956, en átti ekki skip einmitt þegar viðmiðunarmörkin voru sett og missti því formlega af gjafaaflamarkinu. Nú þegar dómur frá Hæstarétti liggur fyrir tel ég augljóst að ég hafi jafnræðisrétt til veiða, samanber 1. mgr. 1. gr. laga sem vitnað er í hér að ofan. Þetta verður fullkomlega vistvæn veiði og skilar úrvalshráefni.

Virðingarfyllst, Jón Ármann Héðinsson.``

Aftur las ég úr bréfi til hæstv. sjútvrh.

Ég les þessi bréf, herra forseti, vegna þess að þau eru hluti af Íslandssögunni. Jón Ármann Héðinsson er í bréfi sínu að lýsa mjög merkilegri þróun. Þeir sem starfað hafa í sjávarútvegi þurfa ekki að vera mjög gamlir til að þekkja vel þessa sögu. Þeir muna vel eftir Héðni er hann kom með fyrstu sjókælinguna. Menn þekkja þá Húsvíkinga sem stóðu að útgerð þessa skips. Nú er Jón Ármann 71 árs gamall, heilsuhraustur og vill fá að sækja sjóinn, sem hefur verið hans aðalatvinna alla tíð fyrir utan þann tíma sem hann sat sem fulltrúi almennings í þessum sal. Af hverju, herra forseti, fær slíkur maður ekki veiðileyfi? Af hverju fær hann ekki smávægilegan kvóta til að fiska á efri árum eins og hann óskar eftir? Hvers á hann að gjalda og hvers eiga aðrir að gjalda í þessu kerfi, sem hefur sýnt sig að er óréttlátt að miklu leyti og ósanngjarnt? Það hefur jafnframt verið dæmt ólöglegt.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar svarar í engu bréfi Jóns Ármanns Héðinssonar. Verði frv. ríkisstjórnarinnar og brtt. lögfestar á eftir eða á morgun, þá getur Jón Ármann fengið veiðileyfi en engar veiðiheimildir. Hann verður að kaupa þessar veiðiheimildir á frjálsum markaði. Vitaskuld munu margir af þessum þremur þúsundum sem sóttu um veiðiheimildir fara í mál aftur. Það þarf ekki endilega að vera Valdimar Jóhannesson. Þeir verða margir Valdimararnir sem fara munu í mál. Þeir munu krefjast þess á grundvelli fyrri dóms Hæstaréttar að þeim verði úthlutað veiðiheimildum. Þeir munu krefjast þess að fá úthlutað kvóta vegna þess að Hæstiréttur sagði í dómi sínum að veiðiúthlutunarkerfið væri byggt á sömu reglu og úthlutun veiðileyfa.

Ríkisstjórnin er því með mjög einfalda hugsun í þessu máli. Hún ætlar að knýja þetta frv. í gegn. Hún veit mætavel að málið mun rekið fyrir dómstólum. Hún veit það mætavel. Hún veit líka að það verður ekki búið að dæma í því máli fyrir kosningar í vor. Um það snýst allt málið.

Í dómnum eru gefnar ákveðnar leiðbeiningar fyrir löggjafann varðandi fiskveiðistjórnarkerfið og sanngjarna hlutdeild. Í dómnum er rifjuð upp aðferðin, þrengingin, að einungis þeir sem áttu skip á árunum 1981--1983 hafi komið til greina við úthlutun veiðileyfa og veiðiheimilda. Þegar búið er að lýsa því að sú regla brjóti í bága við stjórnarskrá segir í dómnum, með leyfi forseta:

,,Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru, og þeir tiltölulega fáu einstaklingar eða lögaðilar sem höfðu yfir að ráða skipum við veiðar í upphafi umræddra takmarkana á fiskveiðum.``

Hæstiréttur er einfaldlega að segja: Annaðhvort verða menn að fá sama atvinnurétt í sjávarútvegi eða njóta sambærilegrar hlutdeildar í sameigninni. Ef menn njóta ekki sambærilegrar hlutdeildar verða menn að geta sótt um veiðileyfi og veiðiheimildir á jafnréttisgrundvelli. Auðvitað þurfa að vera reglur, það er beinlínis sagt í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að fiskveiðistjórnarkerfið verði að vera hagkvæmt. Auðvitað þurfa að vera úthlutunarreglur. Það er enginn að tala um að leggja eigi niður allar úthlutunarreglur. Það verður ekki gert, vitaskuld ekki, en það þarf að breyta reglunum. Úthlutunarreglur sem taka einungis mið af þeim sem áttu skip á árunum 1981--1983, brjóta í bága við stjórnarskrá.

Hæstiréttur segir: Annaðhvort verða allir Íslendingar að fá sambærilegan möguleika á því að stunda sjóinn eða þeir verða að fá sambærilega hlutdeild í sameigninni. Hvernig geta menn fengið sambærilega hlutdeild í sameigninni? Jú, t.d. með veiðileyfagjaldi. Ef almenningur fær sanngjarna hlutdeild í fiskveiðiarðinum, þeim arði sem auðlindin skilar í íslenskt þjóðarbú, þeim arði sem nú rennur til útgerðarfyrirtækja, þá er þessi krafa Hæstaréttar líka uppfyllt.

Það er því nokkuð merkilegt, og e.t.v. hefur þessi þáttur í dómi Hæstaréttar ekki verið dreginn nógu skýrt fram, að ein af þeim lausnum sem til greina koma til að mæta dómi Hæstaréttar er að leggja á veiðileyfagjald í íslenskum sjávarútvegi. Það getur verið ein af lausnunum. Þær geta verið fleiri en þetta er ein af þeim leiðum sem Hæstiréttur bendir á.

Hins vegar er alveg ljóst í mínum huga, herra forseti, að hið nýja smábátastjórnkerfi sem hér er lagt upp með hefur nær ekkert með dóm Hæstaréttar að gera. Það bregst á engan hátt við þeirri meginkröfu dómsins að taka upp úthlutunarkerfi.

Þess vegna, herra forseti, er aðkoma stjórnarinnar ólík aðkomu stjórnarandstöðunnar. Stjórnin leggur þetta upp með því að segja: Við ætlum bara að breyta 5. gr. Við ætlum líka að taka upp allt sem viðkemur smábátunum og setja nýtt kerfi þar. Þeir hafa talað fyrir þessu og segjast ekki ætla að gera neinar aðrar breytingar. Við í stjórnarandstöðunni höfum sagt, herra forseti: Þetta mál er miklu stærra í sniðum en ríkisstjórnin vill vera láta. Það mun ljóst verða þegar Hæstaréttur fellir dóm í næsta máli af þessu tagi.

[14:45]

Nú mundu menn segja: ,,Gott og vel, eins og spurt hefur verið í þessari umræðu, þið eruð annarrar skoðunar en stjórnin. En hvar eru tillögurnar? Hvar eru lausnir ykkar á þessum vanda?``

Ég hef verið að reyna að lýsa aðkomunni að þessu máli eins og við stjórnarandstæðingar sjáum það. Við segjum: Þetta er miklu stærra mál en svo að nóg sé að gera breytingu á 5. gr. og taka upp tiltekna þætti í stjórn smábáta. Það verður að skoða málið í stærra samhengi. Þá er mjög gott fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að vísa til þeirra ákvæða í málefnaskrá samfylkingarinnar sem fjalla um sjávarútvegsmál. Þetta var stefnumörkun sem var ákveðin í sumar og á eftir að útfæra og kynna nánar en þar segir að sameign þjóðarinnar á nytjastofnum skuli vera bundin í stjórnarskrá. Þar segir að tekið skuli sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign til lands og sjávar sem verði m.a. notað til að standa straum af þeim kostnaði sem þjóðin ber af nýtingu þeirra og stuðla að réttlátri skiptingu á afrakstri auðlindanna. --- Þarna er tekin afdráttarlaus afstaða í mjög umdeildu stefnumáli, vitaskuld í því samhengi að við erum að tala um auðlindir, miklu fleiri auðlindir en bara fiskimiðin.

En við segjum líka að stjórnkerfi fiskveiða verði gerbreytt fyrir árið 2002. Það verður að stokka þetta kerfi upp og dómur Hæstaréttar, sem kemur eftir að þessi orð eru skrifuð, staðfesta það að þessi stefnumörkun, þ.e. að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið frá grunni, var rétt. Þar eru mörkuð hjá okkur, eins og komið hefur fram í málflutningi stjórnarandstæðinga hér og eru hluti af stefnumörkun samfylkingarinnar, þau áhersluatriði að einstakir aðilar hafi ekki tekjur af ráðstöfun veiðiréttinda. Við höfnum því gjafakvótakerfi sem er við lýði. Við viljum að fiskveiðistefnan tryggi vernd og skynsamlega nýtingu. Við viljum að aðild nýliða að greininni verði auðvelduð. Við viljum efla fiskmarkaði og stuðla að því að verðmyndun afla miðist í auknum mæli við markaðsverð. Sum okkar hafa lagt fram tillögu um það að allur fiskur fari á markað en það er reyndar í samræmi við skoðanir flestra sjómanna.

Við í stjórnarandstöðunni höfum því yfirgripsmikla og róttæka stefnu í sjávarútvegsmálum. Við svörum dómi Hæstaréttar með því að segja: Hefjumst handa við þessa vinnu, við það að móta hina nýju stefnu sem felur í sér ekki einungis uppstokkun á reglum um úthlutun veiðileyfa heldur einnig uppstokkun á reglum um úthlutun kvóta. Við höfum rakið í þingræðum, bæði í þessari umræðu og í 1. umr. fjölmargar leiðir sem í sjálfu sér koma þar til greina og hægt væri að hafa um langt mál. Ég ætla ekki að gera það nú vegna þess að ég hef verið að reyna að freista þess í umræðunni að draga skýrt fram að það er pólitískur ágreiningur um efnið. Við skulum þá ekki tapa okkur í tæknilegri útfærslu á einstökum lausnum.

Við erum ekki að leita að sátt við ríkisstjórnina um hvernig bregðast eigi við dómi Hæstaréttar. Við erum ekki að leita að neinni sátt við ríkisstjórnina um það efni. Ríkisstjórnin hefur komið skýrt fram með skoðun sína. Við erum ósammála henni. Við erum ósammála mati ríkisstjórnarinnar og við leggjum til allt aðra leið. Við erum á móti þessu frv. Við erum á móti þessum viðbrögðum við dómi Hæstaréttar. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis þann rétt að hafna sjónarmiðum okkar. Vitaskuld hefur hún rétt til þess. Að nokkru leyti hafa stjórnarsinnar þó, aldrei þessu vant, tekist nokkuð á við okkur í málefnalegri umræðu.

Hér skilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu og pólitík snýst um það, herra forseti. Ekki hvað síst þegar dregur að kosningum er mjög mikilvægt fyrir almenning í landinu að átta sig á því að Sjálfstfl. og Framsfl. verja núverandi gjafakvótakerfi fram í rauðan dauðann, það sama kerfi sem við viljum afnema. Þess vegna, herra forseti, er langeðlilegast og hreinlegast að kjósa um þessar mismunandi pólitísku áherslur í vor.