Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 15:34:27 (3055)

1999-01-12 15:34:27# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er gott að búa í landi þar sem Hæstiréttur er frjáls í ákvörðunum sínum burt séð frá afstöðu stjórnvalda á hverjum tíma. Sá dómur Hæstaréttar, sem við höfum rætt hér, kallar hins vegar á tvenns konar viðbrögð. Annars vegar eiga viðbrögðin að varða stöðu Hæstaréttar sjálfs. Ég tel að nú eigi að ræða hvort fjalla eigi um skipan hæstaréttardómara á Alþingi framvegis í stað þess að hafa það mál einvörðungu á snærum framkvæmdarvaldsins eins og nú er. Í því sambandi minni ég á frv. mitt í þeim efnum sem flutt var fyrir fáeinum árum og ég mun endurflytja nú næstu daga.

Í annan stað kallar dómur Hæstaréttar á breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem við höfum rætt hér. Viðbrögð stjórnvalda með þessu frv. eru tvímælalaust of þröng, í raun og veru hættulega þröng, og ég hef leitt skýr rök að því í þessum umræðum, rök sem hefur ekki verið mótmælt. Eðlilegra hefði verið að takmarka gildistíma laganna með því að samþykkja nú sólarlagsákvæði eins og við alþýðubandalagsmenn gerum tillögu um. Jafnframt hefði átt að setja í gang vinnu við að gera tillögur um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi sem stenst grunvallarkröfur stjórnarskrárinnar.

Við alþýðubandalagsmenn drögum tillögu okkar nú til baka til 3. umr. en viljum ekki greiða atkvæði um málið sjálft að sinni. Við teljum að málið sé gallað, bæði í heild og í einstökum atriðum, til þess að við viljum bera ábyrgð á því að einu eða neinu leyti og vísum því að öllu leyti á ábyrgð stjórnarflokkanna. Við sitjum því hjá við afgreiðslu málsins við þessa umræðu.