Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 15:39:30 (3057)

1999-01-12 15:39:30# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög sérstakt ákvæði. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta sjútvn., á þeim eina hópi í íslenska flotanum sem kynni að velja það að stunda veiðar með handfærum á samkvæmt þessu ákvæði að vera meinað að stunda atvinnu sína og sækja sjó utan tímabilsins 1. apríl til 30. sept. ár hvert.

Fyrir því standa engin rök að meina þessum bátum eða þessum hluta flotans frekar að sækja sjó utan þessa tímabils en öðrum sambærilegum smábátum eða jafnvel minni smábátum sem kjósa að stunda sjósókn í öðrum kerfum. Þetta er bersýnilega óréttlátt ákvæði, til þess fallið að hræða menn frá því að velja þá tilhögun sem á að nafninu til að vera í boði áfram, að sækja sjó á sóknartakmörkunum og án þess að fara inn í kvótakerfið. Ástæða er til að vekja athygli á þessu ákvæði sérstaklega og mótmæla því og ég greiði atkvæði gegn því.