Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:24:25 (3066)

1999-01-13 11:24:25# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég lét áðan falla orð um að það hefði verið leiðinlegt andrúmsloft í sjútvn. hvað varðaði vinnu að þessu máli. Ég stend við þau orð og ég skal fara út í ítarlegar útlistanir á því hvernig það birtist í nefndinni án þess að það sé kannski sérstaklega venjan að tíunda það í þingsal ef eftir því er óskað af formanni nefndarinnar. Ég stend við þau orð.

Það er iðulega þannig, herra forseti, í þingnefndum að jafnvel þó að mál séu umdeild og um þau sé pólitískur ágreiningur tekst eftir sem áður vel að halda þeim pólitíska ágreiningi aðgreindum frá vinnu við málið að öðru leyti tæknilega og menn sameinast um, eins og þeir hafa vit til í nefndinni, að reyna að leggja gott til og lagfæra galla sem menn sjá í málinu þó að þeir verði kannski að lokum ósammála um niðurstöðuna pólitískt. Það tókst ekki í þetta sinn. Ég fullyrði að með betra vinnuandrúmslofti og betri kringumstæðum um þetta mál hefði mátt gera málið miklu betur úr garði efnislega og tæknilega hvað sem líður pólitískum ágreiningi. Hv. formaður sjútvn. verður bara að bíta í það súra epli að menn hafa rétt til að gagnrýna störf hans og meiri hlutans og framgöngu ríkisstjórnarinnar þó að þetta allt saman sé orðið formanni sjútvn. mjög kært eins og komið hefur fram í umræðum að undanförnu og eru fá dæmi um þvílíkar ástir sem tekist hafa á síðustu vikum með áður óskyldum aðilum eins og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og meiri hlutanum.

Hitt hrökk ég öllu meira við, herra forseti, þegar hv. þm. ætlaði að fara að ráðast á okkur, þá sem höfum gagnrýnt sérstakar takmarkanir á sóknarrétti handfærahópsins sem eiga eingöngu að mega róa frá 1. apríl til 30. september að við vildum ýta þessum bátum út í hættulega sókn í svartasta skammdeginu. Það voru þung orð. En hv. þm. nefndi ekki 5,9 tonna bát á handfærum sem á að banna að róa þennan hluta ársins. Það eru engar sambærilegar takmarkanir settar á tveggja tonna trillu á þorskaflahámarki. Hvar er þá öryggið? Ég nota þá sams konar málflutning og spyr hv. formann sjútvn.: Er meiri hlutinn með því að ýta þessum trillum út í sókn í svarta skammdeginu af því að hann takmarkar þær ekki sérstaklega? Þetta er málflutningur langt fyrir neðan virðingu þingmannsins.