Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:30:57 (3074)

1999-01-13 14:30:57# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þóttist vita það fyrir að ég og hv. þm. Kristinn Pétursson værum sammála um það að löggjöfin væri orðin brotakennd og stirð í framkvæmd og það held ég að hver einasti maður verði að viðurkenna sem hana les.

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. að þó að menn séu ekki hrifnir af henni sem slíkri, þá eiga menn að taka efnislega afstöðu til þeirra breytinga sem verið er að leggja til á hverjum tíma og það var einmitt þannig afstaða sem ég lýsti við 2. umr. málsins í gær og ég hygg að við þingmenn óháðra höfum skorið okkur þar úr sumpart öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að við studdum sum ákvæði tillagnanna, þ.e. þau sem við töldum bersýnilega vera til verulegra bóta frá því sem áður var. Ég nefni þar t.d. bæði ákvæði til bráðabirgða III og IV af því að ég vil taka afstöðu til mála þannig að ég skoði kost og löst á hverjum hlut burt séð að öðru leyti frá almennu samhengi málsins. Sumt í þessum tillögum er til bóta og eru lagfæringar, það er alveg rétt þó að samhengi málsins sé þetta og annað sé slæmt.

Þegar ég talaði um að fá áhugasaman sagnfræðistúdent eða mann í doktorsnámi sem sennilega þyrfti til til að skrifa söguna, þá er ég að tala um sögu löggjafarinnar eða sögu lagasetningarinnar og reglustýringarinnar, ekki í sjálfu sér fiskveiðiráðgjöfina. Ég veit að hv. þm. er vel lesinn í þeim efnum og ég hef oft fengið gögn frá hv. þm. og þeim hefur verið fullur sómi sýndur, a.m.k. af minni hálfu, og á sínum tíma í sjútvn. voru slík gögn iðulega í möppum manna og voru þar til umræðu eins og ég veit að menn hér inni geta staðfest. Þannig reyndum við á okkar tíma að kynna okkur það sem menn eins og hv. þm. Kristinn Pétursson, fiskverkandi á Bakkafirði, Sveinbjörn Jónsson, og var ég næstum búinn að segja háttvirtur, trillusjómaður á Vestfjörðum, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og aðrir slíkir hafa sett fram og hefur á köflum verið hörð gagnrýni á ráðgjöf Hafró. Það er hollt og gott að fá mismunandi sjónarmið fram og skoða þau þannig að ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. þm. að það á ekkert að vera heilagt í þessum efnum.