Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:33:25 (3075)

1999-01-13 14:33:25# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. þar sem hann fór mjög yfir sviðið og ræddi ákaflega mikið um fiskifræðina og þá fiskveiðiráðgjöf sem við höfum fylgt á undanförnum árum, þá finnst mér ástæða til að undirstrika það að frá mínum sjónarhóli er stjórn fiskveiða, og í reyndinni hefur hún verið það, fyrst og síðast hagstjórnartæki. Ég hef aldrei komið auga á það þrátt fyrir að margir vilji láta svo að hún sé til þess að friða fisk. Ég hef aldrei trúað því að nein fiskfriðun hafi komið út úr þessari stjórnun, aldrei. Og ef við ætlum að fara um víðan völl, fara aftur í tímann og fara yfir ráðgjöfina um fiskveiðarnar, fiskveiðiráðgjöfina, þá vil ég taka það fram fyrir hv. þm. að ég er honum að mörgu leyti sammála því að ég hef sjaldnast séð nokkra heila brú í því. Og þegar maður hefur bent á það að flest af þessu gangi þvert á reynsluheim þeirra sjómanna sem ég þekki og hef umgengist, þá hefur aldrei verið tekið tillit til þess þannig að ég held, herra forseti, að við megum ekki rugla saman hagstjórnartækinu, þ.e. lögunum um stjórn fiskveiða, og í hvaða klemmu við erum gagnvart fiskveiðiráðgjöfinni.