Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:35:08 (3076)

1999-01-13 14:35:08# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög athyglisverð sjónarmið og hressileg og það þarf nokkurn kjark til að segja þá hluti sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði. Hann hefur að vísu áður gert það, a.m.k. í mín eyru, en þar með er verið að segja að menn séu í dulbúningi, það sé verið að dulbúa hagstjórnartæki og stýritæki sem fiskverndunaraðgerð.

Lagastoðin er 3. gr. laga um stjórn fiskveiða sem ég las upp áðan, það er lagastoðin sem allt heila móverkið byggir á. En ef svo er sem ég get tekið undir, a.m.k. í vissum tilvikum virðist manni það vera svo að kvótanum sé viðhaldið kvótans vegna eða hann sé jafnvel settur á kvótans vegna. Það sé settur kvóti á tegundir til þess að menn fái kvóta og geti svo farið að versla með hann, þá er það auðvitað mjög ljótur leikur vegna þess að lagastoðin er orðalag 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða að það á ekki að setja tegundir í kvóta, það á að vera á þeim frjáls sókn innan almennra marka, þ.e. að menn eigi íslensk skip o.s.frv., nema nauðsyn beri til af fiskifræðilegum ástæðum að takmarka sóknina og setja kvóta.

Um fiskveiðiráðgjöfina að öðru leyti ætla ég ekki að segja margt. Það er alveg ljóst að það eru ekki nákvæmnisvísindi. Ég hef verið hallur undir þá skoðun að við verðum að taka mið af því skársta sem við höfum og vitum um þessa hluti en hafa það í huga að það eru engin nákvæmnisvísindi, enda heldur því svo sem enginn fram. En þess þá heldur þurfa menn að fara varlega ef menn eru meðvitaðir um þetta, t.d. gagnvart ákvörðunum eins og þeim að kvótasetja steinbít vegna þess að það er ljóst að þar er þá kannski óvissan meiri sem því nemur. Menn geta að vísu haft það viðhorf að náttúran eigi að njóta vafans og ganga fram með einhver varúðarsjónarmið að leiðarljósi en það hefur yfirleitt ekki verið gert, og slíkar ákvarðanir hafa ekki verið rökstuddar þannig sérstaklega.