Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:39:04 (3078)

1999-01-13 14:39:04# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef menn vilja ganga í lið með hv. 3. þm. Vestf. og nálgast þessi mál út frá því hugarfari að þetta eigi að vera hagstjórnartæki, þá er auðvitað nauðsynlegt að fara í umtalsverða endurskoðun á lögum. Þá á ekki að dulbúa slíkt kerfi inni í fiskveiðilöggjöf sem fiskverndaraðgerð. Þá á þetta alveg eins að vera í lögum um efnahagsmál eins og í slíkum lögum.

Ég er reyndar sammála hv. þm. um það að ég held að mjög mikilvægt sé að tengslin milli íslenska fiskiskipaflotans, útgerðar og sjómanna, rofni ekki við réttinn. En ég hef einmitt áhyggjur af því sem ríkisstjórnin er núna að gera í því sambandi vegna þess að það er þróun í þá átt að þessi réttindi séu aðgreind og framseljanleg og ekki tengd skipunum með þeim hætti sem áður var. Það er nákvæmlega út á þá braut sem menn eru m.a. að lenda núna í viðbrögðum sínum við dómi Hæstaréttar. Þess vegna held ég að hv. þm., eftir að hafa lýst þessum viðhorfum sínum, hljóti að vera nokkuð órótt.

Ég hef m.a. áhyggjur af því að til framtíðar litið bjóði þetta upp á hættur. Það mun verða þrýstingur á það í framtíðinni að hver sem er geti átt réttinn, ekki bara þeir sem hafa skip, heldur að braskarar og kaupmangarar geti átt þennan veiðirétt og þá er bara næsti bær við að hann geti þess vegna alveg eins verið í höndum útlendinga og innlendra aðila. Þannig leynast hér hættur við hvert fótmál. Ég einmitt lýsti því við 1. umr. þessa máls að ég velti fyrir mér út á hvaða almenna spor þróunin í þessum málum er að lenda gegnum m.a. viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans nú við dómi Hæstaréttar. Ég hef áhyggjur af því. Ég verð að segja það, eins og einhvern tíma hefur verið sagt úr þessum ræðustóli.